Rataði óvart á sinn starfsferil

Deila

- Auglýsing -

Aldís Pálsdóttir ljósmyndari er ein þeirra kvenna er standa árlega fyrir átakinu, Konur eru konum bestar. Þetta er fallegt slagorð og Vikan ákvað að kanna sannleiksgildi þess í hennar tilfelli.

 

Aldís er þekkt fyrir frábærar portrettmyndir, fallegar brúðkaupsmyndir og einstaka tískuljósmyndun. Hún á sér margar fyrirmyndir en minnist aðallega tveggja kvenna sem hafa haft djúp áhrif á hana.

„Ætli ég geti ekki komið með þá fallegu staðreynd, að mamma mín sé sú kona sem ég lít hvað mest upp til,“ segir hún. „Að alast upp með Vigdísi sem forseta landsins held ég að hafi líka ómeðvitað haft rík áhrif. Ég leit líka mjög upp til langömmu minnar heitinnar Magneu Þorkelsdóttur, hún var alltaf svo hlý og góð – svo róleg og yfirveguð, og gaf svo mikla ást frá sér. Hún var algjör dýrðlingur, enda skírði ég dóttur mína í höfuðið á henni. Ég var kasólétt af Magneu minn, þegar hún kvaddi.“

Þegar þú varst að stíga fyrstu skrefin sem ljósmyndari gaf einhver þér ráð sem hafa dugað þér vel og enst allan starfsferilinn? „Ég held reyndar að ég hafi einhvernvegin ratað óvart á minn starfsferil. Það var enginn sem leiddi mig áfram, hlutirnir bara gerðust. Eitt leiddi af öðru en ég hef oft þurft að taka áhrifamiklar ákvarðanir, eins og að flytja snögglega erlendis, og þá hafa foreldrar mínir aldrei efast um hvorki dómgreind mína, né getu. Ég er þannig alin upp, að mér séu allir vegir færir – og ég hef bara í alvörunni trúað því og trúi því ennþá! Ef viljinn er fyrir hendi, þá lætur maður verða af því sem maður vill láta gerast.“

Stuðningurinn ekkert síður frá karlmönnum

Var einhver kona sem beinlínis rétti þér hjálparhönd og hjálpaði til við að koma þér á framfæri? „Þetta er soldið erfið spurning,“ segir Aldís. „Ég tengi það ekkert endilega bara við konur að fá uppörvun og hjálp. Mér finnst ég allt eins hafa fengið viðurkenningu frá karlmönnum. Mamma er klappstýra mín númer eitt en það er pabbi minn líka.

En ætli ég verði ekki að nefna hana Andreu Magnúsdóttur, vinkonu mína. Við byrjuðum að vinna saman þegar við báðar vorum búsettar í Danmörku, og báðar í námi. Ég var í starfsþjálfun hjá Steen Evald ljósmyndara, og hún var í Margrethe, Klæðskera skólanum sínum. Við höfðum reyndar unnið saman í fatabúðum áður en þarna byrjaði okkar samstarf sem fagmenn hvor í sínu fagi. Ég myndaði tískuþætti úr lokaverkefnum hennar sem vöktu athygli hérna heima. Fjölmiðlar tóku eftir okkur og vildu birta bæði viðtöl og myndirnar. Ég held að allavega annar tískuþátturinn okkar hafi ratað í Nýtt Líf, ef ekki báðir.

Við fluttum síðan heim á svipuðum tíma, eftir hrun og höfum alla tíð síðan hjálpast að. Ég hef tekið myndir fyrir hana.. Ég held virkilega að þau verkefni, sem við höfum búið okkur til hafi hjálpað okkur báðum til þess að koma okkur á framfæri. Það segir sig sjálft, að ef þú er að reka búð þarft þú myndir til þess að „auglýsa“ þig.. sýna hvað er til hjá þér. Það skiptir miklu máli að koma því faglega frá sér, til þess að halda eða auka trúverðugleika. Ég hjálpaði henni með þetta, og í kringum hana myndaðist stór „kúnnahópur“ .. eða fylgjendur, sem um leið fengu að kynnast mér, og mínum verkum.

„Ég tengi það ekkert endilega bara við konur að fá uppörvun og hjálp. Mér finnst ég allt eins hafa fengið viðurkenningu frá karlmönnum. Mamma er klappstýra mín númer eitt en það er pabbi minn líka.“

Við höfum báðar mikinn áhuga á samfélagsmiðlum, og markaðsetningu og hjálpumst mikið að, spáum og spekúlerum í alls konar. Ég held í alvöru, að þessi flétta okkar hafi búið okkur soldið til eða ég vil meina að það hafi hjálpað mér, svo ég tali nú bara fyrir sjálfan mig.

Það skemmir svo ekki fyrir, að í gegnum öll árin höfum við þróað með okkur dýrmætu vinkonu sambandi sem ég er svo þakklát fyrir. Andrea er alveg einstök. Hún er Hugmyndarík og drífandi.. Það er enginn „stoppari“ á henni.. Ef það kemur upp staða, sem er pínulítið erfið eða óþægileg þá finnur hún bara leið til þess að leysa vandann.

Við Andrea erum einmitt saman, ásamt Elísabetu Gunnarsdóttur, Rakel Tómasdóttur og Nönnur Kristínu Tryggvadóttur í átakinu „KONUR ERU KONUM BESTAR“ sem snýst eiginlega akkúrat um þetta, að standa saman og hjálpast að – í stað þess að rífa hver aðra niður. Saman stöndum við svo miklu sterkari, en í sitt hvoru lagi. Þessi kraftur varð til, þegar við urðum varar við neikvæðni á internetinu, bæði hjá fullorðnum konum og í kringum stelpurnar okkar. Þá langaði okkur mikið að gera eitthvað til þess að reyna að spyrna við þessari neikvæðu orku, og úr varð þetta fallega góðgerðarverkefni. Ég gæti haldið endalaust áfram að telja saman kraftmiklar konur í kringum mig. Mér finnst ég í dag vera umvafin flottum og kraftmiklum konum á uppleið og við eigum bara eftir að vaxa saman og verða ennþá sterkari.“

Aldís  erein þeirra kvenna er standa árlega fyrir átakinu, Konur eru konum bestar.

- Advertisement -

Athugasemdir