Rétti tíminn er núna

Deila

- Auglýsing -

Sigurrós Pétursdóttir var í krefjandi starfi sem vörustjóri Toyota á Íslandi og púslaði á tímabili saman bílum á daginn og fimleikabolum á kvöldin. Hún ólst upp við sjómannslífið þar sem faðir hennar er sjómaður og henni finnst mikilvægt að kenna börnunum sínum að það þurfi að leggja ýmislegt á sig ætli maður sér að ná árangri í lífinu. Veikindi í fjölskyldunni höfðu mikil áhrif á hana og Sigurrós segir mikilvægt að njóta lífsins á meðan það er. Tækifæri til þess gefist kannski ekki seinna.

 

„Ekkert í lífinu gerist sjálfkrafa og ég reyni að kenna börnunum mínum þá hugsun,“ segir Sigurrós. „Mér finnst svo margir halda að hlutirnir gerist bara af sjálfu sér en maður þarf að leggja á sig til að ná lengra. Vinkona mín hafði rekið verslunina Fimleikar.is í tólf ár og ég hafði margoft aðstoðað hana við vinnu í kringum lagerinn og söluna, til dæmis á fimleikamótum. Mér fannst það alveg virkilega gaman. Einn daginn, í desember 2015, sagðist hún svo bara vera hætt og ég skyldi taka við.“

Sigurrós hlær að minningunni. „Þannig að þetta datt svona upp í hendurnar á mér. Ég var alveg búin að hugsa með mér að það væri nú gaman að hafa smávegis rekstur og sá fyrir mér litla sæta búð í bílskúrnum heima þannig að þegar vinkona mín sagðist vilja hætta með reksturinn fannst mér ég ekki geta sagt nei. Ég varð að prófa og ákvað að slá til. Mig hafði langað að fara í meira nám, en ég er með BS-gráðu í alþjóðamarkaðsfræði, og ég ákvað að líta á þetta sem skóla. Enda hef ég lært alveg heilan helling af þessu.“

Búð í skúr

Það var svo sem ekki eins og Sigurrós vantaði verkefni á þessum tíma. Hún vann þá sem vörustjóri hjá Toyota, var fimleikaþjálfari hjá Gerplu og fimleikadómari. „Þessi önn, frá janúar 2016 fram á vorið var eiginlega dálítil geggjun. Ég og Davíð, maðurinn minn, vorum bæði í fullri vinnu og eigum þrjú börn sem öll eru í námi og íþróttum. Það var því nóg að gera í kringum fjölskyldulífið líka eins og gengur og gerist. Og ég með mitt keppnisskap lagði allt í þetta; mér fannst ég ekki geta tekið við rekstrinum af hálfum huga. Það má segja að ég hafi ekki átt neitt félagslíf þessa önn.

En þetta var mikill skóli og mér fannst þetta alveg ofboðslega gaman strax frá fyrsta degi. Ég hugsaði samt alltaf þetta sem aukavinnu og var ákveðin í að fara ekki fram úr sjálfri mér. Ég hef líka verið heppin að Davíð styður mig í þessu öllu saman og er með mér í þessu. Hann hefur selt nokkra bolina þegar ég hef ekki verið heima og hjálpar mér að taka saman vörur þegar ég er að fara að setja upp sölubás á fimleikamótum. Hann kemur líka alltaf með mér á mótin ef hann getur.“

Til að byrja með var verslunin á ganginum heima hjá Sigurrós sem hún segir að hafi auðvitað verið dálítið sérstakt en fljótlega hafi þau hjónin ákveðið að taka bílskúrinn í gegn og útbúa aðstöðu þar fyrir verslunina.

„Einn pabbinn sagði mér hæstánægður að nú væru krakkarnir bara hangandi daginn út og daginn inn. Ekki samt í tölvunni. Heldur í hringjunum.“

„Þetta er svona búð í skúr,“ segir hún og brosir. „Við höfum aukið mjög mikið við úrvalið og seljum núna ýmis konar fimleikavörur. Við erum auðvitað með æfingaboli og keppnisboli, toppa og buxur en líka ólar og þvíumlíkt sem eru til dæmis notaðar á tvíslánni, ásamt alls kyns áhöldum til heimaæfinga og aukahluti. Eitt sem hefur til dæmis verið rosalega vinsælt hjá okkur eru fimleikahringirnir sem eru festir í loftið og eru bæði notaðir af fimleikafólki og þeim sem æfa til dæmis CrossFit. Einn pabbinn sagði mér hæstánægður að nú væru krakkarnir bara hangandi daginn út og daginn inn. Ekki samt í tölvunni. Heldur í hringjunum,“ segir hún hlæjandi.

Reksturinn er ástríða

Segja má að Sigurrós hafi verið viðloðandi fimleikana allt sitt líf, eða svo gott sem, en hún byrjaði sjálf að æfa fimleika í kringum fimm til sex ára aldurinn. „Ég veit ekki hvernig það kom til, ég man bara að mig langaði alltaf alveg rosalega mikið að æfa fimleika. Og mér fannst þetta alveg brjálæðislega skemmtilegt. Börnin mín hafa svo öll farið að æfa fimleika en þau hafa reyndar alveg fengið að ráða því sjálf. Elsta dóttir mín, sem verður átján ára í ár, er til dæmis nýlega hætt að æfa þá og er farin að æfa CrossFit. Miðjan mín, sem er þrettán ára, æfði bæði fimleika og fótbolta en ákvað að taka fótboltann fram yfir, sem mér finnst bara flott hjá henni. En sonur minn, sem er á sjöunda ári, æfir enn þá fimleika.“

Sigurrós hefur líka fengist við þjálfun og segir það hafa komið til þegar hún fylgdi dætrunum á æfingar. „Þá spurðu þjálfararnir hvort ég væri ekki til í að vera með þeim, fyrst ég væri á staðnum, og mér fannst það bara mjög gaman. Síðan bætti ég við mig dómaraprófi og hef verið að dæma líka á mótum.“

Blaðamanni finnst auðheyrt að þótt Fimleikar.is eigi að heita aukavinna hjá Sigurrós þá sé fyrirtækið henni kært og hún leggi sig alla fram um að veita vandaða þjónustu. „Já, ég geri það. Það má alveg segja að þótt þetta hafi verið hugsað sem svona lítill, sætur rekstur í bílskúrnum, sé þetta ástríða hjá mér. Ég loka aldrei búðinni og fólk hefur getað komið utan hefðbundins opnunartíma ef þess hefur þurft.

Eitt föstudagskvöldið keyrði ég meira að segja til Keflavíkur af því að þar vantaði einn lítinn dömutopp fyrir fimleikamót næsta dag. En mér finnst bara svo gaman að veita góða þjónustu og finna þakklætið og gleðina, bæði hjá krökkunum og foreldrunum. Það er eiginlega það sem gefur mér mest við þetta allt saman. Að finna að fólk er ánægt og sjá að það kemur aftur og aftur. Og líklega er það eitt af því sem ég lærði í starfi mínu hjá Toyota; að maður reynir alltaf að gera sitt besta og umfram væntingar, innan vissra marka þó auðvitað.“

Kona í karlastarfi

Sem fyrr segir vann Sigurrós sem vörustjóri hjá Toyota á Íslandi en lét nýverið af störfum þar eftir átján ára starf. Hún segir að sér hafi fundist kominn tími til að halda á önnur mið. „Mig langaði satt að segja ekki að hafa unnið bara á einum stað um ævina. Margir starfsmenn hafa verið þarna í þrjátíu, fjörutíu ár og ég dáist að þeim en ég hugsaði með mér að mig langaði ekki að vinna þar svo lengi. Ég væri orðin rúmlega fertug og nú væri komin tími á að ögra sjálfri sér og hoppa út í djúpu laugina. Þetta var samt erfið ákvörðun og hún var ekki tekin á einni kvöldstund; ég var búin að hugsa þetta í töluverðan tíma.“

„Ég hugsaði með mér að ég væri orðin rúmlega fertug og nú væri komin tími á að ögra sjálfri sér og hoppa út í djúpu laugina.“

Sigurrós segist hafa byrjað að vinna á símanum hjá Toyota með námi. „Síðan fór ég í starfsmannaþjónustuna og svo yfir í söludeild þar sem ég var aðstoðarmaður sölustjóra til að byrja með. Upphaflega átti ég að kallast ritari sölustjóra en ég sagði nei takk, við værum ekki stödd á þeim tíma að kalla þetta ritarastarf. Þegar Toyota úti var svo farið að kalla eftir vörustjóra á Íslandi ákvað ég að sækja um starfið þegar það var auglýst.

Ég man að það var mikið talað um að það þyrfti nú að spyrja strákana hvort þeir vildu ekki sækja um en ég benti á að ég gæti alveg hugsað mér að sækja um þar sem ég væri að gera svo mikið af þessum verkefnum. Það virtist enginn hafa hugsað út í það. Enda er þetta mikið karlastarf og þegar ég var til dæmis að fara utan á fundi og námskeið þá voru karlar alltaf í miklum meirihluta, örugglega um 90 prósent. Og það var auðvitað voða gaman að fara út því það þótti sérstakt að kvenmaður væri vörustjóri. Það þekktist bara varla. Ekki einu sinni í Evrópu.“

Blaðamaður hefur á orði að Sigurrós hafi á tímabili verið að púsla saman bílum á daginn og fimleikabolum á kvöldin og spyr hvort þetta tvennt eigi eitthvað sameiginlegt.

„Nei, þetta er auðvitað mjög ólíkt. En eins og með fimleikana hafði ég mikinn áhuga á bílum, alveg frá því ég var smástelpa í Breiðholtinu. Mig dreymdi alltaf um að pabbi myndi kaupa jeppa og vá hvað ég varð glöð þegar hann kom einn daginn heim á grænum Bronco. Mér finnst gaman að fallegum bílum; ég er ekki mikið fyrir sportbíla samt, heldur bara fallega og góða, venjulega bíla. Mitt markmið sem vörustjóri var einmitt að púsla vörulínunum saman til að uppfylla þarfir viðskiptavina á sem hagkvæmastan máta.“

Leiðinlegasti bíltúr sögunnar

Árið 2011 sigraði Sigurrós Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu og hefur tvisvar sinnum hampað Íslandsmeistaratitli í sparakstri. „Ég var beðin um að taka þátt og keppnismanneskjan sem ég er fór auðvitað alla leið í þessu; fékk einn samstarfsfélaga til að kenna mér sparakstur. Það eru nefnilega dálítil vísindi á bak við þetta og maður þarf að læra vissa tækni. Ég æfði mig samviskusamlega og fór með fjölskylduna í bíltúr sem var sá ömurlegasti bíltúr allra tíma fyrir aumingja þau,“ segir Sigurrós og skellihlær.

„Það er auðvitað ekkert skemmtilegt við það að keyra sparakstur; maður heldur bara jöfnum hraða og hefur ekki kveikt á miðstöðinni og þaðan af síður útvarpinu. Svo hentust þau til þarna í farþegasætunum þegar ég fór í gegnum hringtorg því maður á helst ekki að slaka á í beygjum. En svona keyrir maður nú bara í keppnum, eða þegar maður er að æfa sig,“ segir hún og brosir. „Ég stunda ekkert alltaf sparakstur. Ég er alveg með útvarpið í gangi undir venjulegum kringumstæðum og kveiki á miðstöðinni og allt. Og maður þarf að nenna þessu, því sparakstur er vinna. Maður er alltaf að fylgjast með snúningsmælinum og eyðslunni og með hugann við alls konar hluti. En ef maður nennir því, þá borgar það sig auðvitað.“

Blaðamaður hugsar upphátt og spyr hvort Sigurrós hafi fleiri klukkutíma í sólarhringnum en við hin. Og hvort þau hjónin langi aldrei að liggja með tærnar upp í loft um helgar og gera ekki neitt? Hún hlær að spurningunni.

„Jú, það koma alveg svoleiðis tímabil. En þetta er bara svo gefandi. Og við erum svo heppin að vinna vel saman. Ég reyndar passa mig á að hugsa ekki um allt sem ég þarf að gera, því ef ég myndi gera það þá myndi ég ekki gera neitt. Það getur líka orðið yfirþyrmandi ef maður fer að hugsa um allt sem þarf að klára. Svo skipulegg ég mig vel. Ég hef alveg fengið þá gagnrýni á mig að vinna of mikið og fólk hefur áhyggjur af því að ég keyri mig út eða sé ekki til staðar fyrir börnin mín. En ég segi á móti að fólk getur alveg verið heima í rólegheitunum en samt ekki til staðar fyrir börnin sín. Sjáðu til dæmis alla sem geta varla lagt frá sér snjallsímann og missa jafnvel af öllu því sem er að gerast í kringum þá af því að augun eru límd við símaskjáinn. Ég nota tíma minn mjög vel þegar ég er heima og með fjölskyldunni. Og er ofboðslega stolt af börnunum mínum sem eru svakalega dugleg og sjálfstæð. Mér finnst líka mikilvægt að kenna þeim að það þarf að hafa fyrir hlutunum. Það þarf að vinna fyrir þeim. Og það þarf að leggja á sig til að ná árangri.“

Alin upp við sjómannslífið

Sjálf segist Sigurrós hafa alist upp við sjómannslífið og að það hafi mótað hana mikið þar sem pabbi hennar var mikið í burtu eða allt upp í 2-3 mánuði í senn. Við upplifðum ófá jól, afmæli, sumarfrí og fjölskyldustundir án pabba þar sem hann var úti á sjó og oft ekkert símasamband. Það var þó alltaf stutt í heimkomu rétt eftir jól. Þá fengum við oftast stærsta jólapakkann þegar pakkinn frá mömmu og pabba mætti á svæðið og oft var það eitthvað skemmtilegt frá útlöndum. Mamma var því mikið ein með okkur og sá um allt heimilið en aldrei kvartaði hún. Þegar ég hugsa til baka, þá hefur þetta án efa verið mjög erfitt en þá voru engir símar og engar tölvur en við fengum skeyti stöku sinnum. Það var aldrei að finna að mamma væri mikið ein. Það var alltaf hugsað svo vel um okkur systurnar; við vorum vel til hafðar, vel greiddar og allt á heimilinu í röð og reglu. Mamma hefur alltaf verið mín fyrirmynd. Hún hefur alltaf verið hress og kát og síbrosandi. Ég held að ég hafi tileinkað mér það eftir henni að reyna að vera alltaf jákvæð og brosandi. Það er svo góður lykill að mörgu í lífinu.“

„Ef ég heyrði af vondu veðri og pabbi ekki mættur í land þá varð ég oft hrædd.“

Sigurrós segir að oft hafi hræðsla við að missa pabba hennar úti á sjó hellst yfir sig. „Þegar hann var á trillunni vissi maður hvenær hann átti að vera kominn í land. Þegar bíllinn var ekki kominn í hlað læddist oft sú hugsun að manni hvort trillan hefði farist og ef ég heyrði af vondu veðri og pabbi ekki mættur í land þá varð ég oft hrædd.“

Sigurrós segir að oft hafi hræðsla við að missa pabba hennar úti á sjó hellst yfir sig.

Það sem einnig mótaði Sigurrós í æsku var sveiflukennd fiskvertíð en eins og vitað er fiskast stundum mikið og stundum lítið. „Ég legg mikið upp úr því að börnin mín geri sér grein fyrir því að stundum þurfi maður að hafa meira fyrir hlutunum til að ná endum saman og mér finnst nauðsynlegt fyrir krakka í dag að læra það. Miðjustelpan mín vildi til dæmis fá eitthvað að gera þegar eldri systir hennar fór að vinna og öfundaði hana mikið að geta farið og keypt sér sjálf föt en var of ung til að vinna sjálf. Þá gaf ég henni það verkefni að flokka dósir og flöskur og fara með í Endurvinnsluna með pabba sínum og hún mátti eiga allan peninginn sem kom út úr því. Henni fannst þessi vinna nú ekki skemmtileg og þusaði yfir því og vildi eitthvað betra en þá fékk hún smátilsögn um það að ekki er öll vinna skemmtileg og maður þurfi að byrja einhvers staðar. Verkið tók hún að sér og fannst það rosalega gaman, hún var upp með sér af því að vinna sér sjálf inn smávegis vasapening.“

Þrjár stuttar og ein löng

Á framhaldsskólaárunum fór Sigurrós sem skiptinemi til Gvatemala. Þar sá hún gríðarmikla stéttaskiptingu og hún segir miklar öfgar hafa verið á milli þeirra fátæku og hinna ríku. „Dvölin í Gvatemala kenndi mér mikið. Það var svakalegt að sjá kannski einbýlishús öðrum megin við götuna en hinum megin við hana bjó fólk í pappakössum og konur þurftu að sækja vatn í bala sem þær báru á höfðinu. Ég sá líka hvað menntunin skipti miklu máli þarna og að það var ekki sjálfgefið að fólk gæti menntað sig. En skiptinemaárið mitt var alveg æðislegt og mér fannst gaman að vera í Gvatemala. Ég náði að ferðast mikið og skoða margt, ég byrjaði dvölina mína til dæmis á því að að vera í nunnuklaustri í eina viku sem var ótrúlega skemmtileg upplifun. Svo skoðaði ég allar Maja rústirnar og drakk í mig sögu landsins og menningu.“

Aðspurð hvort foreldrar hennar hafi ekkert verið efins með að senda dóttur sína alla leið til Gvatemala svarar Sigurrós að svo hafi alls ekki verið. „Eldri systir mín hafði farið sem skiptinemi til Panama og mamma og pabbi voru bara mjög opin fyrir því að við stækkuðum sjóndeildarhringinn. En að hugsa til þess hvað skiptinemalífið hefur breyst mikið frá þessum tíma er eiginlega alveg magnað. Ég til dæmis hringdi ekki heim nema kannski einu sinni í mánuði eða jafnvel annan hvern mánuð og talaði stutt því símtölin voru auðvitað rándýr. Það kostaði kannski nokkur þúsund krónur að tala til Íslands í tvær, þrjár mínútur og það var mikill peningur á þessum tíma. Svo handskrifaði ég bréf til foreldra minna og vinkvenna, það var engin tölva notuð til þess að skrifa,“ segir Sigurrós og skellir upp úr.+

„Vá, mér finnst ég ekkert voðalega gömul en núna þegar ég tala um þetta líður mér eins og ég sé hundgömul. Þegar ég var níu ára var ég send í sveit norður í land og þar var bara gamall sveitasími. Landssíminn var ekki kominn þangað á þeim tíma. Ég átti þrjár stuttar og eina langa. Það er eins og maður sé hundrað ára. Maður áttar sig ekki á því hvað breytingarnar gerast hratt.“

Bíður ekki eftir lífinu

Á síðasta ári komu upp erfið veikindi í fjölskyldu Sigurrósar og hún segir að sú reynsla að horfa upp á ástvin veikjast alvarlega hafi vissulega breytt sér og lífssýn sinni. „Þess vegna finnst mér til dæmis svo mikilvægt að láta drauma mína rætast. Ég held að jafnvel þótt það geti verið erfitt þá sé enn erfiðara að sjá eftir því að hafa ekki tekið þau skref sem þurfti til að fylgja eftir þrá sinni og löngunum.

Mamma og pabbi hafa til dæmis alltaf verið dugleg að ferðast og hafa alltaf sagt að það eigi ekki að bíða með að skapa minningar. Það gefist kannski ekki tækifæri til þess síðar meir. Mér finnst þetta svo rétt hjá þeim. Það er svo mikilvægt að njóta líðandi stundar, láta drauma sína rætast og ekki gleyma að ferðast og skapa minningar. Það eru svo margir sem eru alltaf að bíða eftir rétta tímanum til að láta verða af því að gera það sem hjartað þráir. En hvenær er rétti tíminn? Hann er núna.“

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Advertisement -

Athugasemdir