Rifrildi foreldra hafa áhrif á börn

Deila

- Auglýsing -

Hvaða áhrif hefur það á börn að hlusta á foreldra sína rífast? Margvísleg, ef marka má rannsóknir en þau þurfa ekki að vera vond. Hægt er að nota ágreining til að kenna börnunum mikilvægar lexíur.

Í flestum tilfellum vekur það börnum mikinn ótta að hlusta á foreldra sína rífast eða skynja spennu þeirra í milli. Jafnvel mjög ung börn eru mjög næm á andrúmsloft og vegna þess að þau eru háð foreldrunum um flest skapar það gríðarlegt óöryggi þegar ekki er allt sem skyldi milli þeirra. Sum börn hafa lýst því þannig að engu hafi verið líkara en allt súrefni hafi horfið úr herberginu þegar foreldrar þeirra tóku að þræta og þau hafi fengið mikla og erfiða köfnunartilfinningu.

Þegar börn eldast óttast þau skilnað í kjölfar deilna. Þau hafa hugsanlega frétt af eða gengið í gegnum skilnað með vinum sínum og líta því á það sem hugsanlegan möguleika að þeirra foreldrar slíti sambandinu. Margir foreldrar leitast við að rífast aldrei fyrir framan börnin en það er heldur ekki góð aðferð því börnin skynja vel togstreituna og hún skapar mun meiri óvissu en það að heyra og sjá fólk fá útrás fyrir reiði eða pirring.

Það skiptir í öllum tilfellum mestu hvernig foreldrar láta í ljós ergelsi sitt og leysa úr ágreiningi. Alist þau upp við að fullorðið fólk sýni hvert öðru ævinlega virðingu, jafnvel þótt það sé í uppnámi og að fyrr eða síðar sé sest niður og talað um hlutina eru þau líklegri til að fá í hendur góð vopn til að vinna með. Lítum á nokkur dæmi um það sem börn ættu aldrei að verða vitni að:

  • Notkun ljótra og niðrandi orða til að lýsa maka sínum.
  • Árásargirni og hótunum um ofbeldi.
  • Hótunum um að yfirgefa heimilið.
  • Ofbeldi í einhverri mynd.
  • Ískaldri þögn og að neita að takast á við hlutina.
  • Uppgjöf, þ.e. segja allt í lagi en meina; ég er enn ósátt/ur.

Þegar foreldrar nota aðferðir sem ekki eru skilvirkar og beinlínis fjandsamlegar við að leysa ágreining verða börnin döpur, kvíðin og fyllast vonleysi. Þau láta þetta í ljós með ýmsu móti, sum svara með reiðiköstum, aukinni árásargirni og hegðunarvandamálum. Önnur loka vanlíðan sína inni en hún kemur út í magaverkjum, höfuðverkjum eða annars konar veikindum. Streita þeirra hefur einnig áhrif á hæfni þeirra til að einbeita sér og læra í skólanum. Í sumum tilfellum leggja börnin mun harðar að sér að standa sig, vera góð bæði heima og í skóla og ganga stundum fram af sér í þeirri viðleitni. Þau eru að reyna að bæta foreldrunum upp óhamingju og togstreitu í sambandinu.

Neikvæð áhrif á líkamlega heilsu

Þegar þessi börn verða fullorðin eiga þau í erfiðleikum með að mynda heilbrigð og gefandi sambönd við aðra, bæði maka og vini. Systkinasambönd á heimilum þar sem viðvarandi og óheilbrigt ástand ríkir milli hinni fullorðnu einkennast líka af alls konar vandamálum. Systkinin eru til dæmis þannig að þau blanda sér um of í mál hvert annars, takast á með mjög ofsafengnum hætti, leysa deilur á óheilbrigðan hátt, eru fjarlæg hvert öðru og ofvernda hvert annað.

Allar rannsóknir benda til að börn allt niður í sex mánaða séu mjög næm fyrir ástandi og andrúmslofti á heimilum sínum. Þau venjast hlutunum heldur ekki þótt þeir séu viðvarandi allan tímann sem þau búa heima. Jafnvel fólk á þrítugsaldri segist í rannsóknum vera meðvitað um og líða illa takist foreldrar þeirra á. Streituhormón eru mun hærri í blóði fólks sem býr við stöðug átök og rifrildi. Það hefur neikvæð áhrif á líkamlega heilsu. Foreldrar hafa því allt að vinna kjósi þeir að læra nýjar og betri aðferðir til að takast á við vandamál í sambandi sínu og leysa þau.

- Advertisement -

Athugasemdir