2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ritstjórarnir sem mótuðu tískuna

  Konur sem eru þekktar fyrir næstum yfirnáttúrlegt innsæi í tísku.

  Á öllum tímum koma fram einstaklingar sem virðast hafa ótrúlega tilfinningu fyrir stíl. Þeir vita, áður en nokkur hefur svo mikð sem rennt í grun að eitthvað liggi í loftinu, hvað mun slá í gegn næst og hvernig hægt sé að taka jafnvel hversdagslegustu föt og bera þau þannig að þau veki athygli allra. Nokkrir blaðamenn og ritstjórar tískutímarita eru þekktir fyrir næstum yfirnáttúrlegt innsæi sitt og skilning í þessum efnum.

  Góðlyndi á háum hælum
  Liz Tilberis hefur á ferli sínum verið ritstjóri tveggja áhrifamestu tískutímarita heimsins. Það munaði þó minnstu í byrjun að hún sneri að eilífu baki við tískuheiminum. Í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar sótti hún um skólavist í the Jacob Kramer Art College á Englandi. Kennari leit yfir möppuna hennar og fannst lítið til koma en eftir að hún flutti mjög ástríðufulla ræðu um ást sína á tísku fyrir hann snerist honum hugur og Liz komst inn. Seinna giftist hún þessum kennara, Andrew Tilberis. Í tvo áratugi ritstýrði hún breska Vogue en hélt síðan til New York og tók við Haper’s Bazaar. Sagt er að Liz hafi gert hátískuna aðgengilegri öllum og notfært sér innblástur frá haut couture-fatalínum og blandað saman við gamla lagera af herfatnaði og þjónabúninga. Með þessu móti opnaði hún augu fólks fyrir að þær línur sem sjá mátti á sýningarpöllunum voru ekki heilagar og óhætt að nota þær til þess eins að skapa eigin stíl. Liz Tilberis fæddist 7. september 1947 en lést árið 1999 eftir langvinna baráttu við krabbamein í eggjastokkum. Hún, ólíkt mörgum starfsystrum sínum, var þekkt fyrir góðmennsku sína og hjálpsemi við nýliða í greininni. Hún hafði einnig einstaka kímnigáfu og hún fékk oft að njóta sín í því efni sem hún valdi í blaðið.

  ______________________________________________________________

  Diana Vreeland var áberandi og skapaði sér nafn fyrir að vera fljót að skynja hvað næði vinsældum næst.

  AUGLÝSING


  Hin fínlega dramatík
  Hin stórmerkilega Diana Vreeland hafði einstaklega næma tilfinningu fyrir dramatík og kom með leikrænan og flottan stíl inn í tískuheiminn. Hún fæddist í París en var alin upp í New York. Segja má að stafsferill hennar hafi skipst í þrjá þætti. Árið1936 handvaldi ritstjóri Harper’s Bazaar verk hennar í blaðið. Hann réði hana sem pistlahöfund og tískuritstjóra. Hún var frumkvöðull þess að setja sinn persónulega svip á vinnuna og í stað þess að tískusíðurnar væru eintóna myndir og upptalning á því sem var hæst móðins fór þar að bera á mati og vali ritstjórans. Haft er eftir henni, „Vertu aldrei hrædd við að vera gróf, óttastu frekar að vera leiðinleg.“ Hún var áberandi og skapaði sér nafn fyrir að vera fljót að skynja hvað næði vinsældum næst. Þegar henni varð ljóst að ekki var frekari frama að vænta á Harper’s Bazaar hætti hún en var strax boðið starf hjá Vogue þar hófst næsti þáttur. Þar byrjaði hún árið 1963 og vann sem aðalritstjóri næstu árin. Hún gerði þar mikið af að skapa trend með mögnuðum tískuþáttum þar sem klæðnaði var parað á skemmtilegan hátt. Myndatökur hennar voru hins vegar svo dýrar að stjórn blaðsins rak hana árið 1971. Þá hófst lokaþátturinn þegar hún gerðist ráðgjafi við Búningastofnun Metropolitan of Modern Art-safnsins. Hún vann fyrir safnið allt þar til heilsan bilaði og hún varð að draga sig í hlé. Diane Vreeland lést árið 1989 þá áttatíu og sex ára gömul.

  _______________________________________________________________

  Önnu Wintour hefur verið lýst sem áhrifamesta tískuritstjóra allra tíma og sagt að hún hafi sett svo rækilega mark sitt á þennan iðnað að það verði aldrei afmáð.

  Djöfull á Prada-skóm Allir vita að Anna Wintour er fyrirmyndin að persónu Meryl Streep í The Devil Wears Prada. Blaðamennskan er í blóðinu hjá henni því pabbi hennar ritstýrði  Lundúnaútgáfu Evening Standard um árabil. Hún byrjaði hjá House & Gardens í New York en fékk síðan vinnu hjá breska Vogue. Þá var henni boðið starf aðalritstjóra ameríska Vogue og því hefur hún stjórnað nú í bráðum þrjátíu ár. Það er ótrúleg ending í jafnstreitumiklu starfi. Henni hefur verið lýst sem áhrifamesta tískuritstjóra allra tíma og sagt að hún hafi sett svo rækilega mark sitt á þennan iðnað að það verði aldrei afmáð. Anna Wintour hefur haft áhrif á allt frá sköpunarvinnu tískuhúsanna að því hvað er valið til að skipa línu helstu hönnuða og veita framgang nýjum hönnuðum Hún hefur einnig gríðarleg áhrif á hvað ratar í búðir og hvað verður helst vinsælt af því sem hver og einn hönnuður sendir frá sér. Kaupendur fyrir helstu stórverslanir eru sagðir halda að sér höndum þar til vitað er hvað fellur Önnu í geð. Hún hefur einnig skapað og lagt í rúst starfsferil bæði ljósmyndara og blaðamanna. Það var að undirlagi hennar að tímarit á borð við Teen Vogue og Men’s Vogue sáu dagsins ljós. Undir hennar stjórn hefur Vogue vaxið og er nú fjárhagslega stöndugasta tímarit á markaðnum. Hún er sagður einkar kröfuharður og frekur yfirmaður en vinnuhörku hennar sjálfrar er líka viðbrugðið enda hefur hún viðurnefnið Kjarnorku-Wintour. Menn telja þó að hennar verði einna helst minnst fyrir stuðning sinn við nýja hönnuði sem eru á uppleið, dugnað hennar við fjáröflun fyrir bæði pólitísk samtök og góðgerðarfélög.

  ______________________________________________________________

  Franca Sozzani breytti ítalska Vogue í vinsælt tímarit sem hefur áhrif um allan heim.

  Baráttukonan
  Franca Sozzani ristýrði ítalska Vogue í tuttugu ár og breytti blaðinu úr nokkurs konar innanhússfréttablaði fyrir hönnuði í vinsælt tímarit sem hefur áhrif um allan heim. Hún er þekkt fyrir notkun sína á ögrandi myndum og nefna má tískuþátt þar sem fyrirsætan var að kafna í olíu. Sá kom í kjölfar slyss hjá BP-olíufélaginu þegar Deepwater Horizon olíuborpallurinn sprakk í Mexíkóflóa og ótrúlegt magn olíu lak út í sjó. Sozzani var fremst í flokki á tíunda áratug síðustu aldar þegar komst í tísku að setja nöfn ofurfyrirsæta á forsíður tískutímaritanna um leið og myndir af þeim. Hún gerði heldur aldrei mannamun heldur valdi ævinlega þá sem henni fannst vera að gera góða hluti þótt það væri fólk sem aðrir í bransanum hefðu af einhverjum ástæðum ákveðið að hunsa. Hún var fyrst hjá Vogue-tímariti til að setja þeldökka fyrirsætu á forsíðu en það var júlíblaðið árið 2008 en það blað seldist upp, hún reið einnig á vaðið með tuttugu síðna tískuþátt eingöngu með fyrirsætum í yfirstærðum að fara úr brjóstahöldurunum sínum árið 2011. Hún hafði þá þegar búið til sérstakar síður fyrir bæði þeldökkar konur og konur í yfirstærðum á vefsíðu blaðsins. Franca lést 22. desember 2016. Hún var aðeins sextíu og sex ára.

  _______________________________________________________________

  Sagt er að Vogue Paris hafi aldrei selst jafnvel og eftir að Carine Roitfeld tók við ritstjórn þess.

  Fyrirsætur bundnar
  Í janúarblaði Vogue Paris árið 2007 voru þrettán myndir af fyrirsætu bundinni með gardínubandi. Þær vöktu heimsathygli og hneykslun margra. Ritstjórinn sem bar ábyrgðina á myndbirtingunni var Carine Roitfeld. Hún yppti bara öxlum þegar hneykslunarraddirnar urðu hvað háværastar. En hún hefur þó viðurkennt að talsvert meira frelsi ríki í Evrópu en í Ameríku. „Við getum reykt á forsíðunni og við getum sýnt brjóst,“ sagði hún í viðtali aðspurð um muninn á því að ritstýra Vogue í Ameríku og Vogue í París. Hún tók við ritstjórninni árið 2001 og er sögð hafa dregið blaðið upp úr lægð og komið því í umræðuna aftur. Hún er þekkt fyrir djarfar myndir þar sem fagurfræði og erótík kallast á. Sagt er að blaðið hafi aldrei selst jafnvel og eftir að hún tók við. Hún hefur verið sögð sú sem líklegust væri til að taka við af Önnu Wintour eða allt þar til hún sagði óvænt upp árið 2010. Alls konar sögur voru á kreiki um að hún hefði ráðið sig til helstu tískuhúsa sem ráðgjafa en engin reyndist á rökum reist. Þegar hún gekk út af ritstjórnarskrifstofunni sagði hún við blaðamenn: „Ég hef ekki gert nein plön.“ Hún vann í lausmennsku næstu tvö ár en réði sig síðan á Harper’s Bazaar. Árið 2013 stofnaði hún eigið tímarit CR.

  ______________________________________________________________

  Kona stóru blaðanna
  Hafi Carine Roitfeld náð að hneyksla var það ekkert í samanburði við fjaðrafokið sem fór af stað þegar Alexandra Shulman sendi frá sér tískuþáttinn, „heróín-chic“ með Kate Moss í aðalhlutverki. Alexandra lét af störfum hjá breska Vogue í fyrra eftir tuttugu ára starf. Hún sendi frá sér veglegt blað á aldarafmæli tímaritsins og hætti svo. Hún á að baki langan og farsælan feril í blaðamennsku en hún hóf störf á The Tatler árið 1982, fór þaðan á Sunday Telegraph, síðan á Vogue og GQ. Henni bauðst ritstjórastaðan árið 1992 og hefur ávallt þótt hiklaus og djörf í efnisvali en nokkur risastór tölublöð náðu metsölu í hennar tíð. Þeirra á meðal eru minningarblað um Diönu prinsessu árið 1997 og aldarhvarfablaðið árið 1999 en forsíðan var eins og spegill þannig að hver lesandi gat séð sjálfan sig á forsíðu. Alexandra fæddist árið 1957 og er mannfræðingur að mennt.

  Henni bauðst ritstjórastaðan árið 1992 og hefur ávallt þótt hiklaus og djörf í efnisvali en nokkur risastór tölublöð náðu metsölu í hennar tíð.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is