Prjónauppskrift frá Knillax-frænkunum: „Allir geta lært að prjóna“

Deila

- Auglýsing -

Frænkurnar Ella Magga Sæmundsdóttir og Ólöf Inga Stefánsdóttir þekktust ekki neitt fyrr en þær kynntust fyrir tilviljun þegar þær unnu saman að verkefni tengdu handavinnu. Saman stofnuðu þær fyrirtæki sem selur prjónauppskriftir á Netinu. Önnur býr í Noregi og hin í Danmörku en samstarfið gæti ekki gengið betur, enda segja þær fjarlægðina of mikla fyrir arg og þras.

„Ég var búin að halda úti opnu Snapchat í smátíma undir nafninu Amma Loppa,“ segir Ella. „Þar var ég að prufuprjóna fyrir nokkra aðila og sýna það en Ólöf var að þýða uppskriftir. Í gegnum þá vinnu kynntumst við og eftir því sem við kynntumst betur fundum við að okkur langaði að gera eitthvað skemmtilegt saman og byggja upp prjónasamfélag sem væri jákvætt og miðaði að því að deila bæði þekkingu og reynslu. Eitt leiddi af öðru og í október síðastliðnum varð fyrirtækið Knillax til.“

Ólöf á heiðurinn af nafninu. Nafnið segir hún að sé sett saman úr orðunum knit (prjóna), chill (rólegheit) og relax (afslöppun).

„Svo þetta virkar vel á ADHD, ég tala af eigin reynslu.“

„Það er líka það sem við viljum ná fram með þessu öllu saman. Rannsóknir hafa sýnt að prjón er svipað og jóga; ótrúlega slakandi, eykur núvitund og hefur jákvæð áhrif á sálina.“ Ella bætir við að hún geti nú setið róleg yfir sjónvarpinu og prjónað í stað þess að geta ekki verið kyrr og að spá í allt annað. „Svo þetta virkar vel á ADHD, ég tala af eigin reynslu,“ segir hún og hlær.

Ólöf Inga Stefánsdóttir.

Lausar við arg og þras

Þær frænkur segjast báðar alltaf hafa verið viðloðandi handavinnu. „Ég hef alltaf prjónað og frekar mikið,“ segir Ella. „En ég fékk prjónabakteríuna fyrir alvöru þegar ég var 19 ára og prjónaði mitt eigið sett á fyrsta barnið mitt. Ég flutti svo til Noregs árið 2016 og þá varð ég virkilega sjúk í að prjóna, enda mikil prjónamenning á Norðurlöndum; það er auðvelt að nálgast garn og á viðráðanlegu verði.“

„Ég prjónaði fyrsta vettlingaparið án uppskriftar 14 ára gömul, með hjálp ömmu minnar,“ segir Ólöf. „Handavinnan er eitthvað sem við höfum alltaf átt sameiginlegt og það hefur hvatt mig áfram. Árið 2007, eftir menntaskóla, fór ég í handavinnuskóla í Skals í Danmörku og eftir það var ekki aftur snúið. Ég kom heim og lærði klæðskurð og kjólasaum og kláraði sveinspróf. Eftir það flutti ég til Danmerkur og lærði textílhönnun, handverk og kennslu. Á meðan ég vann lokaverkefnið mitt í náminu kviknaði prjónaáhuginn að nýju. Handavinna er því aðeins meira en áhugamál hjá mér. Það má alveg segja að ég sé ansi mikið nörd þegar kemur að þessu tæknilega, sérstaklega garni og trefjum.“

Ella Magga býr í Noregi og Ólöf Inga í Danmörku. Þær segja samstarfið ganga mjög vel þrátt fyrir fjarlægðina. „Já, samstarfið er bara alveg frábært. Við erum nógu langt frá hvor annarri til að vera ekki að argast og þrasa,“ segir Ella og hlær. „Við erum í nánum samskiptum daglega; erum alltaf með eitthvað nýtt í gangi, leitum álits hvor hjá annarri og fáum ráð og hugmyndir. Samvinnan er skemmtileg og gefandi. Við spjöllum á Facebook á hverjum degi, hringjum hvor í aðra og höldum Skype-fundi. Við erum líkar að svo mörgu leyti en samt ólíkar sem er okkar styrkur og gerir það að verkum að við vinnum vel saman. Við höfum bara hist einu sinni; það var á Íslandi en það var bara eins og við höfðum alltaf þekkst.“

Ella Magga ásamt ömmudrengnum Smára Geir, sem var skírður í skírnarkjól sem hún prjónaði.

Allir geta lært að prjóna

Ella segir að með jákvæðu hugarfari geti allir lært að prjóna. „Fólk er auðvitað mislagið með prjónana en það er um að gera að fara ekki fram úr sér og gefast svo upp. Ef litlu krakkarnir geta lært að prjóna þá geta það allir sem vilja.“

„Það er gott að vera meðvitaður um að Róm var ekki byggð á einum degi,“ segir Ólöf. „Æfingin skapar meistarann og það er langbest að velja verkefni eftir getu. Þá verður maður líka svo stoltur af árangrinum og í því felst hellings hvatning.“

„Í okkar orðaforða er ekkert til sem heitir að geta ekki,“ segir Ella ákveðin. „Fyrir byrjendur í prjóni er gott að byrja á einhverju auðveldu. Peysa getur til dæmis verið auðveldari en sokkar með hæl þar sem notaðir eru margir prjónar. Annars prjónaði ég skírnarkjól á dóttur mína þegar ég var 27 ára og hafði enga uppskrift til að styðjast við, enda bara brjálæðingar sem fóru í að prjóna skírnarkjóla 1992. Mjög dæmigert fyrir mig,“ segir hún og hlær.

„Í okkar orðaforða er ekkert til sem heitir að geta ekki.“

Ólöf tekur undir með Ellu að gott sé að byrja á auðveldu verkefni en segir að áhuginn sé líka mikilvægur. „Mér finnst mikilvægt að maður prjóni eitthvað sem mann virkilega langar til að prjóna. Leiðinlegt verkefni kveikir ekki neistann sem þarf. Maður nær bestum árangri með skemmtilegum og fallegum verkefnum sem mann dauðlangar að klára; hvort sem það er peysa, húfa eða eitthvað allt annað.“

Aðspurðar hvort þær haldi að fólk hafi meira gaman af því að prjóna eitthvað sem er flókið eða eitthvað einfalt segja þær að það sé mjög persónubundið. Ella segist afar vön að prjóna en sér þyki hvort tveggja skemmtilegt. Ólöf segist vilja vera með hvort tveggja í gangi í einu; eitt einfalt verkefni og annað meira krefjandi. „Það er svo mismunandi hvernig maður er upplagður og hvort maður sé að prjóna fyrir framan sjónvarpið eða í hópi fólks. Þá er gott að geta gripið í verkefni sem hentar þeim aðstæðum eða dagsformi.“ Ella bendir á að uppskriftirnar þeirra miði að því að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Bæði þeir sem séu að byrja og þeir sem vilji meiri áskorun.

Prjónaáhuginn að aukast

Þær Ella og Ólöf eru sammála um að prjón sé vinsæl iðja í dag og algengara sé að ungt fólk prjóni en áður. „Ég var á Gardeomen-flugvelli í Ósló fyrir stuttu,“ segir Ella Magga. Þar var hópur af menntaskólakrökkum og ég tók eftir því að einn strákurinn í hópnum sat og prjónaði. Þetta sá maður ekki áður fyrr þegar það voru bara gamlar ömmur sem prjónuðu. Flíkurnar eru líka orðnar öðruvísi og fjölbreyttari og stakar uppskriftir aðgengilegri sem er mikil breyting frá því sem var. Hefðin er samt alltaf til staðar og allir þurfa að eiga lopapeysu.“

„Útsaumur, macramé og vefnaður er líka að koma sterkt inn,“ bætir Ólöf við, „en prjón er bara svo aðgengilegt og allir þekkja einhvern til að aðstoða við verkið. Ég held að áhuginn eigi eftir að aukast enn þá meira, sérstaklega hjá unga fólkinu. Það er líka gaman að segja frá því að eftir að við stofnuðum þennan Facebook-hóp okkar fengum við mörg skilaboð þess efnis að við hefðum kveikt í gömlum glæðum og að konur væru farnar að taka upp prjónana aftur eftir hlé. Það kom smáryk í augun við að lesa þau skilaboð en þvílíkt sem það er hvetjandi.“

Ella segir konur vera í meirihluta í prjónasamfélaginu en það sé gaman að sjá hversu margir karlmenn hafi áhuga og vilji vera með. „Ég fæ oft snöpp af eiginmönnum sem eru að telja lykkjur og leysa úr flækjum eða búa til snúrur í húfur, þannig að áhuginn er þarna.“

„Það er samt enn smávegis tabú fyrir karla að prjóna, því miður, þótt það hafi orðið svolítil vitundarvakning hjá þeim,“ bætir Ólöf við.

Hvað varðar val á garni segir Ella að þær stöllur noti og bendi á garn sem þær þekki af eigin reynslu og viti að sé gott. „Þar hefur Ólöf kennt mér helling og ég hef rekið mig á að ódýrara er ekki betra. „Mér finnst skipta máli að flíkin haldi sér og sé jafnfalleg eftir notkun, þótt ég sé fljót að prjóna og framleiði mikið. Ég nota mikið Dale-garn í mínar flíkur, hreinlega af því að ég veit að það er gott garn. Ég skoða reglulega það sem ég prjóna á Smára, litla ömmustrákinn minn, og fylgist með því hvernig endingin er. Ef mér finnst flíkin ekki koma vel út eftir notkun þá nota ég ekki það garn meira. Bómullar- og ullarblanda er vinsæl núna og passar svo vel í allar flíkur, finnst mér. Ég held reyndar að við Ólöf séum mjög vandlátar á garn.“

Frekari upplýsingar og uppskriftir er hægt að fá á knillax.is og með því að leita að Knillax á Facebook og Instagram. Þær Ella og Ólöf deila hér flottri prjónauppskrift með lesendum.

Sumarstuttbuxur Knillax

Krúttlegar sumarstuttbuxur.

Um buxurnar:

Buxurnar eru prjónaðar ofan frá og niður, með böndum að aftan og smávegis púffskálmum. Uppskriftin er auðveld og tilvalin fyrir byrjendur að spreyta sig á. Lengra komnir prjónarar geta gert alls konar útúrsnúninga að vild. Við notuðum Dale Lille Lerki sem er blanda af merino-ull og bómull, sem hentar einstaklega vel í sumar- og inniflíkur. Buxurnar eru víðar og eiga að vera svolítið „loose“.

Mikilvægt er að athuga prjónafestu og ef þú ert ekki með sama garn og er gefið upp í uppskrift gæti stærð og vídd á flíkinni orðið önnur.

Gott er að mæla krúttið með málbandi áður en byrjað er að prjóna og taka svo stærð samkvæmt því. Sum börn þurfa minni stærð en lengri flík, önnur þurfa stærri stærð en styttri flík. Þú þarft líka aðeins að spá í hvað barnið er stórt eða hvort það taki til sín.

Stærð:                  0-6 mánaða, 6-12 mánaða, 1, 2 , 3 ára
Ummál í cm:       54, 58, 63, 67, 71
Garn:                     Dala Lille Lerki, 142 metrar í 50 g
Magn í gr:           100, 100, 150, 150, 150
Prjónafesta:        24/10 á prjóna númer 3,5

Nauðsynleg tæki og tól

Hringprjónn nr. 3,5, sokkaprjónar nr. 3,5 og 3 prjónamerki, nál og tölur. Sól í hjarta og söngur á vörum. Kaffi og súkkulaði.

Skammstafanir í þessari uppskrift

PM – Prjónamerki
K&S – Kaffi og súkkulaði

SMEKKUR 

Fyrstu 2 og seinustu 2 lykkjurnar eru prjónaðar sléttar á réttu og brugðnar á röngu.

Fitjum upp 50, 50, 56, 56, 60 lykkjur á lítinn hringprjón númer 3,5, prjónum 1 slétta og 1 brugðna fram og til baka, muna samt endalykkjurnar.

Þegar þú ert búin með 4 umferðir þá þarf að gera hnappagöt í smekkinn. Gerir þau frá réttu þannig: Prjónar 4 lykkjur (með endalykkjum) slærð upp á prjóninn og prjónar síðan tvær saman. Prjónar þar til 6 lykkjur eru eftir af umferðinni, prjónar 2 saman og slærð upp á prjóninn, komin tvö hnappagöt á réttan stað. Ef þú ert með stærri tölur en 10 mm þá er gott að gera tvo snúninga á prjóninn sem er samt sem áður prjónuð sem ein lykkja til baka. Þá færðu stærri hnappagöt sem henta fyrir 10-15 mm tölur.

Nú er smekkurinn prjónaður þar til hann mælist  9, 9,5, 10, 11, 11,5 sentímetrar. Þá náum við okkur í aðra dokku af garni og fitjum upp í framhaldi af næstu umferð 80, 90, 94, 96, 104, 110 lykkjur og þá ertu með 130, 140, 150, 160, 170 lykkjur á prjóninum.

Tengjum saman í hring og prjónum slétt og brugðið 3, 3, 4, 4, 4 sentímetra. Skellum PM í hliðarnar með 65, 70, 75, 80, 85 á framstykki og bakstykki. Það er smart að hafa eitthvað dingl í PM og kannski grænt PM þar sem umferðin byrjar svo þú vitir hvar umferðin byrjar (eða endar). Eftir þetta er alveg upplagt að fá sér einn kaffibolla og súkkulaði.

BUXUR

Prjónar 2 umferðir. Næst ætlum við að gera stuttar umferðir sem gera pláss fyrir bossann og hækka buxurnar að aftan; það er gott fyrir þessi sem eru með bleyju. Þið metið það bara hvort þið prjónið þær eða sleppið, við gömlu erum svolítið meira pikkí á þetta en þessar ungu. Ef þið sleppið þeim ætti það ekki að koma að sök, því buxurnar eru víðar og kósí. Hér að neðan lýsi ég betur stuttum umferðum eins og ég geri þær.

Eftir stuttar umferðir er prjónað í hring þar til buxur mælast 17, 19, 21, 23, 25 sentímetrar. Mælir frá kantbrún á hliðinni og mælir ekki smekkinn með. Samt þarf aðeins að spá í það hversu stórt barnið er.

SKÁLMAR

Stykkinu er skipt í skálmar og það eiga að vera 60, 64, 70, 76, 80 lykkjur á hvorri skálm. Prjónar 30, 32, 35, 38, 40 lykkjur, fellir af 5, 6, 5, 5, 5 lykkjur, prjónar 60, 64, 70, 76, 80 lykkjur, fellir af 5, 6, 5, 5, 5 lykkjur og prjónar 30, 32, 35, 38, 40. Þá ertu komin með tvær skálmar með 60, 66, 70, 76, 80 lykkjum hvor, setur á sokkaprjóna nr. 3,5, færir PM (græna) og lætur umferð byrja innan fótar.

Prjónar 5 umferðir í hring. Í næstu umferð skiptirðu á prjóna nr. 3 og gerir slétt og brugðið en prjónar þannig fyrstu umferðina: 22, 24, 27, 30, 32 lykkjur, yfir næstu 16 lykkjur prjónarðu 2 lykkjur saman 8x, og svo 22, 24, 27, 30, 32 lykkjur, þá kemur smávegis púff í hliðina sem er ferlega krúttað. Heldur áfram með slétt og brugðið um 2, 2, 3, 3, 3 sentímetra.

Fellir af með sléttum og brugðnum lykkjum og passar að fella ekki fast af svo litlu lærin kremjist ekki. Ef krúttið er með bústin læri þá mæli ég með að nota áfram prjóna 3,5 þá verður brugðning aðeins lausari. Gerir svo hina skálmina alveg eins.

AXLABÖND

Þú staðsetur byrjun á axlaböndum um 5 lykkjum frá miðju að aftan. Tekur upp 9 lykkjur fyrir bandið á prjón nr. 3,5 og prjónar 25-35 sentímetra slétt og brugðið (manst að það fer eftir því hvað barnið er stórt). Fellir af og festir tölu í endann. Mér finnst alltaf betra að hafa böndin aðeins lengri; það er hægt að setja tvær tölur á böndin eða krossa að aftan og þá er hægt að nota buxurnar lengur. Þú gerir tvö bönd.

Að lokum er bara að ganga frá endum og sauma saman í klofinu og þá ertu búin með þessar súperkrúttlegu buxur.

STUTTAR UMFERÐIR

Ef þú velur að gera stuttar þá geri ég þær svona. Ekki vera hrædd um göt því ef þú gerir þetta rétt þá sjást snúningarnir lítið sem ekkert. Þú átt kannski þína uppáhaldsaðferð og þá notarðu hana auðvitað. Ég nota German short row sem er snilld og uppáhaldsaðferðin mín.

Prjónið þar til það eru 12 lykkjur að hliðarmerkinu, prjónið eina lykkju til viðbótar (ekki með í talningu), snúið stykkinu við og togið bandið aftan við prjóninn þannig að lykkjan verði tvöföld. Prjónið brugðið á röngu til baka þar til það eru 12 lykkjur að næsta hliðarmerki, prjónið eina til viðbótar (ekki með í talningu), snúið stykkinu við og togið bandið yfir prjóninn þannig að aukalykkjan verði tvöföld.

Prjónið til baka að tvöföldu lykkjunni, prjónið 4 lykkjur og endurtakið snúninginn. Passa með tvöföldu lykkjuna að hún er bara ein lykkja. Snúið 3 sinnum í hvorri hlið.

Inni á Knillax.is er linkur á kennslumyndbönd, þar á meðal German Short rows, sem ég mæli með að þú kíkir á.

Ekki þvo Superwash-garn í höndunum og alls ekki nota mýkingarefni. Ég set mínar flíkur á léttan ullarþvott í vélinni og læt hana vinda á 800 snúningum. Legg svo til þerris á handklæði.

- Advertisement -

Athugasemdir