2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Sá sem uppgötvaði háa hæla hlýtur að hafa hatað þægindi“

  Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir rekur Studio Yellow og segist hafa stokkið á tækifærið að titla sig framkvæmdastjóra þegar það gafst. Hún segir að sá sem uppgötvaði háa hæla hljóti að hafa hatað þægindi og sjálf eigi hún enga slíka.

  Fullt nafn: Birgitta Rún Sveinbjörnsdóttir.
  Starfsheiti: Sjálfskipaður framkvæmdastjóri og vefhönnuður hjá Studio Yellow. Einnig bý ég til ferilskrár fyrir fólk undir nafninu Bold CV ásamt því að sinna námi mínu við Vefskólann þar sem ég er að læra vefþróun.
  Aldur: 26 ára
  Áhugamál: Hönnun, markaðsfræði, fólk og ferðalög.

  Birgitta Rún segir stíl sinn vera frekar litríkan. „Það má segja að ég taki ákveðin tímabil með litina. Núna er ég til dæmis búin að vera á mjög löngu gulu tímabili og allt sem mér finnst fallegt er gult á litinn.“

  Efst á óskalistanum þessa dagana segir hún að séu gallabuxur. „Mig sárvantar gallabuxur; mínar ákváðu allar að rifna í klofinu sömu vikuna. Svo sá ég leðurjakka í Zara um daginn sem ég er enn þá að hugsa um. Ég kíki þangað eða Galleri 17 ef mig langar að gera vel við mig.“

  Aðspurð segist Birgitta ekki kaupa mikið í gegnum netverslanir. „Ég hef ekkert svakalega góða reynslu af því að kaupa föt á Netinu. Mér finnst ég verða að máta flíkina áður en ég kaupi hana því ég rokka svo upp og niður í stærðum eftir því hvernig sniðið er. Ég hef þó misst mig á ASOS nokkrum sinnum.

  AUGLÝSING


  Ég fell oftast fyrir litríkum og stórum peysum sem gera aftur á móti ekkert fyrir línurnar. Ég hef svo lengi verið að klæða af mér; fela mig í stórum peysum.

  Í dag reyni ég að ögra sjálfri mér; smelli mér í þröng föt og leyfi línunum að njóta sín. Mér finnst það enn svolítið erfitt og þessa djörfu daga er ég mjög meðvituð um sjálfa mig. En ætli þetta sé ekki eins og með allt annað, að æfingin skapi meistarann?“

  „Ég keypti þessa skyrtu og tileinkaði hana monstera-plöntunni minni sem ég kallaði Sigfús og lifði því miður ekki af skammdegið 2019. Blessuð sé minning Sigfúsar.“

  Birgitta segist hafa gert furðulegustu fatakaupin í New York. „Ég fór þangað í stelpuferð viku eftir að hafa verið sagt mjög óvænt upp af kærasta og sjálfsmynd mín var í algjöru rugli. Ég man varla eftir ferðinni en stelpurnar hlæja enn að þeim flíkum sem ég keypti mér þar, enda var ég bara að kaupa til þess að fylla upp í eitthvert tómarúm.

  „Dr. Martens-skórnir mínir hafa heldur betur staðið sig vel í gegnum árin og eru fullkomnir í hálkunni.“

  Ég keypti til dæmis síða ullargollu með hettu sem hefði vel getað verið búningur á Dumbledore í Harry Potter. Er búin að losa mig við allar þessar flíkur í dag, guði sé lof. Síðan þá hef ég tileinkað mér að kaupa mér ekki föt þegar mér líður illa, sérstaklega ekki í ástarsorg.“

  „Ég elska falleg mynstur. Þau gera hönnuðarhjartað mitt svo hamingjusamt.“

  Skemmtilegast að kaupa? Yfirhafnir. Ég á mögulega kannski aðeins of margar en réttlæti það með því að þær eru allar hver í sínum lit.
  Uppáhaldsflíkin? Gula kápan mín úr H&M. Það skiptir ekki máli í hverju ég er undir henni, hún gerir svo mikið fyrir heildarútlitið.
  Uppáhaldsfylgihluturinn? Michael Kors-taskan mín. Ég er alltaf með hana, sama hvort ég er að fara í ræktina, í afmæli eða á árshátíð. Ég á ekki margar merkjavörur en þessi taska hefur svo sannarlega verið peninganna virði.
  Fallegasti fataliturinn? Ég er rosalega hrifin af skærum litum þessa stundina.
  Besta lykt í heimi? Bakaríslykt eða rakspíralykt … get ekki valið á milli.
  Þægindi eða útlit? Þægindi 100%. Ég á enga háa hæla til dæmis. Sá sem uppgötvaði háa hæla hlýtur að hafa hatað þægindi.
  Skyldueign í fataskápinn? Nærföt, þú kemst nú ekki langt án nærfata. Ekki verra ef þú átt nokkur til skiptanna.

  Umsjón / Guðrún Óla Jónsdóttir
  Myndir / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is