2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Salma Hayek kom upp um Harvey Weinstein

  Fáir vita að leikkonan Salma Hayek átti stóran þátt í koma upp um Harvey Weinstein. Hún var höfundur greinar sem birtist í New York Times, 17. desember árið 2017. Fyrirsögnin var: Harvey Weinstein var líka mitt skrímsli. Vegna þessara skrifa átti Salma því hlutdeild í Pulitzer-verðlaununum en þau voru veitt konunum sem hrundu Metoo-byltingunni af stað.

   

  Í viðtali við Vanity Fair segist hin fimmtíu og tveggja ára gamla leikkona hafa verið viðbúin undir nánast hvaða viðbrögð sem var, öðrum en þeim sem fylgdu í kjölfarið. Hún átti von á fordæmingu samfélagsins, ákærum um meiðyrði og mannorðsmorð og árásum fyrir að hafa skrifað með þessum hætti. Fæstir trúðu því að hún hefði skrifað þetta sjálf og fólk hringdi í blaðið og bað um að fá gefið upp nafn þess sem væri raunverulega höfundurinn. Salma yppir bara öxlum yfir þeim barnaskap, hún þarf engan til að berjast fyrir sig og er ekki í neinum vandræðum með að orða hlutina.

  „Ég skrifaði hana sjálf, hvert orð,“ segir hún við blaðamann Vanity Fair. „Í fyrstu var ég reið því ég hafði nýlega skrifað um vanmat og þarna vanmátu mig allir en svo gerði ég mér grein fyrir að ég gat sagt við sjálfa mig: Ég get skrifað. Og það er sigur því ég er illa lesblind. Það gaf mér þvílíkt sjálfstraust að skrifa þessa grein. Mér fannst ég frjáls.“

  Í landi þar sem kynferðisbrotamaður er forseti

  AUGLÝSING


  Í greininni segir:

  „Við erum loks að verða meðvituð um ósið sem hingað til hefur verið félagslega viðurkenndur og hefur móðgað og niðurlægt milljónir stúlkna eins mig, vegna þess að í hverri konu býr stúlka. Ég er innblásin af þeim sem hafa haft hugrekki til að stíga fram og segja frá, sérstaklega í samfélagi þar sem kjörinn var til forseta, maður sem hefur verið sakaður um kynferðislega áreitni og árás af meira en tólf konum. Að auki höfum við öll heyrt hann lýsa yfir hvernig maður í valdastöðu megi fara með konur á hvern þann máta sem honum sýnist.“

  Salma er sjálfstæð og kjarkmikil kona. Það sýndi hún árið 1991, þá tuttugu og fimm ára, þegar hún tók sig upp og hélt frá Mexíkó til Hollywood að reyna fyrir sér í kvikmyndum. Hún hafði slegið í gegn í sápuóperum í heimalandinu og flestir hefðu látið sér það nægja. Harður heimur kvikmyndaborgarinnar er alþekktur og einhverjir hefðu látið sér nægja örugga vinnu í mexíkósku sjónvarpi. En ekki þessi kona.

  Fáir vita að leikkonan Salma Hayek átti stóran þátt í koma upp um Harvey Weinstein.

  Hún segist sjálf hafa blómstrað seint og ekki fyrir svo mörgum árum hefði það verið óhugsandi að leikkona af mexíkósku og arabísku bergi brotin væri enn að vinna í Hollywood eftir að þrjátíu og fimm ára aldri var náð. „Það var hlægileg tilhugsun,“ segir hún. „Að auki má nefna stöðu suðuramerískra innan kvikmyndaiðnaðarins, ég hef séð hana gerbreytast. Mexíkóar hafa þróað eigin kvikmyndaiðnað og eiga nokkra af bestu leikstjórum heims.“

  Sjálf er hún leikkona, framleiðandi og aðgerðarsinni. Undanfarin ár hefur hún verið mun uppteknari en nokkru sinni og boðist bæði bitastæð hlutverk og átt þátt í að hrinda í framkvæmd verkefnum sem hún taldi mikils virði að yrðu að veruleika. Hún er í fyrsta sinn sátt við sjálfa sig og líf sitt. Hún hefur loks komið starfsferlinum í það horf sem hún helst kýs. Og þannig skilgreinir hún velgengni. „Ef allt væri tekið af þér, gætir þú samt horft í spegilinn og verið hreykin af ferðalaginu.“ Hún segist helst sækja sér orku og innblástur til annarra kvenna, allra þeirra stórmerkilegu og sterku anda sem hún vinni með daglega. Hún hlakkar til framhaldsins og er þakklát fyrir þær breytingar sem eru að verða í Hollywood og heiminum öllum.

  Hataði orðið nei

  Salma Hayek vann með Harvey Weinstein að gerð myndarinnar Frida. Hún hafði árum saman þráð að gera þessa mynd, viðað að sér efni og skrifað handritið. Á þessum tíma rak Harvey Miramax og var þekktur fyrir að taka áhættu og gefa nýliðum og nýstárlegum hugmyndum séns. Hún var því í sjöunda himni þegar hann samþykkti.

  „Hann hafði tekið sénsinn með mig – alls óþekktan einstakling. Hann hafði sagt já. Ég hafði ekki grun að næst kæmi að mér að segja nei.

  Nei við að opna dyr mínar fyrir honum á hvaða tíma dags og nætur sem var, á hóteli eftir hóteli, tökustað eftir tökustað, átti hann eftir að birtast óvænt, meðal annars á stöðum þar sem ég var við vinnu að kvikmynd sem hann hafði ekkert með að gera.

  Nei við að fara í sturtu með honum.
  Nei við að leyfa honum að horfa á mig í sturtu.
  Nei við að leyfa honum að nudda mig.
  Nei við að leyfa nöktum vini hans að nudda mig.
  Nei við að leyfa honum að veita mér munnmök.
  Nei við að vera nakin með annarri konu fyrir framan hann.
  Nei, nei, nei, nei, nei …

  Og með hverju afsvari fylgdi machiavellísk reiði Harveys. Ég held að hann hafi ekki hatað neitt meira en orðið nei. Fáránleiki krafna hans var allt frá því að hringja í mig brjálaður um miðjar nætur og heimta að ég ræki umboðsmann minn vegna rifrildis sem hann átti í við hann út af öðrum listamanni yfir í að draga mig með sér á opnunargala kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum en sú veisla var til heiðurs Fridu, svo ég gæti hangið í einkapartíi hans innan um konur, sem ég hélt að væru fyrirsætur en fékk seinna að vita að væru dýrar vændiskonur.

  Tilraunir hans til að fá mig til að gefa eftir fóru frá því að skjalla mig yfir í hótanir. Eitt sinn réðst hann á mig í ofsareiði og sagði þessi skelfilegu orð: „Ég mun drepa þig, láttu þér ekki detta í hug að ég geti það ekki.“

  Salma Hayek vann með Harvey Weinstein að gerð myndarinnar Frida.

  Þegar Weinstein gerði sér ljóst að Salma myndi ekki láta undan honum reyndi hann að bola henni frá kvikmyndinni um Fridu. Hún reyndi að ná myndinni af honum og rifta samningnum en það var ekki hægt. Til þess að koma henni út setti hann henni þau skilyrði að hún fengi fyrsta flokks leikara með sér í aukahlutverkin, landaði samningi við heimsfrægan leikstjóra, endurskrifaði handritið og fengi fjármagn upp á 10 milljónir dollara. Hún barðist á móti og tókst allt þetta með hjálp ótal engla, eins og hún segir sjálf. En martröðinni var ekki lokið, reiði mannsins voru engin takmörk sett og hann gerði allt hvað hann gat til að grafa undan henni. Gerði lítið úr henni á tökustað og fyrir framan samstarfsfólk og fannst lítið til um að henni hafði tekist að fá leyfi mexíkóskra yfirvalda til að mynda á stöðum þar sem enginn hafði áður fengið að taka upp, m.a. á heimili Fridu og við veggmyndir Diego Rivera.

  Honum fannst hún ekki sexí í hlutverkinu og það var að hans mati nóg til að eyðileggja myndina. Allt til enda var þetta barátta en eins og allir vita náði kvikmyndin Frida til áhorfenda og sló rækilega í gegn. Harvey Weinstein hefur líklega grætt meira fé á henni en flestum öðrum kvikmyndum sínum en hann vildi ekki gera hana og þráði heitast af öllu að eyðileggja feril konunnar sem ber ábyrgð á hve vel tókst til.

  Sjá einnig: Segja frá ofbeldi Harvey Weinstein í nýrri heimildarmynd

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is