Sambandið byggðist á lygi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ég leiddist út af sporinu í nokkur ár þegar ég var unglingur. Ég var í vondum félagsskap og var farin að drekka meira en góðu hófi gegndi og nota eiturlyf. Mér tókst að slíta mig frá þessu lífi og byggja upp nýtt líf. Þegar ég kynntist góðum og heiðarlegum strák þorði ég hins vegar ekki að segja honum frá þessu.

Þegar við Nonni byrjuðum að vera saman var hann mjög hreinskilinn við mig. Hann sagði mér ekki bara frá því góða sem hann hafði gert heldur því slæma líka. Hann lagði mikla áherslu á að við værum opin og heiðarleg hvort við annað. Hann sagðist ekki geta þolað að vera kannski búinn að tengjast mér sterkum böndum og komast síðan að einhverju úr fortíð minni sem hann gæti ekki sætt sig við. Það væri best að vita þessa hluti strax.

Ég sagði honum undan og ofan af sumu af því sem hafði hent mig þegar ég var unglingur en þagði um margt. Hann vissi að ég hafði drukkið og notað hass en hann vissi ekki að ég hafði um tíma selt mig til að eiga fyrir leigunni, mat og vímuefnum. Ég sagði honum heldur ekki frá því að ég hafði látið eyða fóstri þegar ég var sextán ára, enda hafði ég ekki hugmynd um hver faðirinn var. Um tíma bjó ég líka með tveimur mun eldri mönnum sem sáu mér fyrir vímuefnum og húsnæði gegn greiða á móti eins og sagt er.

Alltaf erfiðara að þegja
Í upphafi fannst mér þögnin ekki erfið, enda samband okkar Nonna þá ungt og alls ekki farið að taka á sig mynd. Þegar ég fór að kynnast honum betur fann ég að hann myndi alls ekki skilja margt af því sem ég hafði gengið í gegnum. Hann var sjálfur alinn upp við mikið öryggi og reglufestu þannig að honum hefði blöskrað sá bragur sem var á heimili mínu allan minn uppvöxt. Mamma var ekki alkóhólisti en hún var ein með mig og systur mína og skemmti sér ærlega um helgar. Stjúpfeður og kærastar komu og fóru og við systurnar vorum því vanar að ókunnugir menn væru í rúminu hennar á morgnana.

„Hann vissi ekki að ég hafði um tíma selt mig til að eiga fyrir leigunni, mat og vímuefnum.“

Hans hugmyndir um siðferði voru allt aðrar en mínar og stundum sagði ég honum ýmislegt sem mér fannst bara fyndið og heimskulegt en honum þótti svo hneykslanlegt að hann starði á mig opinmynntur meðan ég sagði frá. Margt af því sem ég gekk í gegnum fannst mér ekki vert að minnast á því að fyrir mér voru þeir hlutir svo ómerkilegir en seinna kom í ljós að í hans augum voru þeir mikið mál. Auk þess var ansi margt í minni fortíð sem ég einfaldlega mundi ekki eftir því ég hafði verið svo full eða útúrreykt að ég vissi hvorki í þennan heim né annan. Ég var líka orðin ástfangin af honum og það var orðið mér svo mikilvægt að honum líkaði við mig að ég gat ekki hugsað mér að segja honum frá einhverju sem ég vissi að myndi hneyksla hann. Ég vildi að hann hefði gott álit á mér.

Ég þagði þess vegna um ansi margt og tíminn leið. Við giftum okkur og ég var ánægðari og hamingjusamari en nokkru sinni fyrr. Oft fann ég reyndar að ég vildi gjarnan geta hreinsað loftið á milli okkar og þegar einhverjir sem þekktu mig frá fornu fari komu inn í líf okkar var ég bókstaflega á nálum um að þeir myndu segja Nonna eitthvað sem hann mætti ekki vita. Og auðvitað gerðist það. Hann fékk að heyra eitt hér og annað þar og alltaf kom hann og spurði hvort þetta væri nú satt. Ég játaði flesta hluti en reyndi að fegra þá eins og ég gat. Stundum sá ég að það hafði tekist en í sumum tilfellum fann ég að eitthvað hafði snert hann svo djúpt að hann gat ekki litið mig sömu augum og áður. Ég vildi að ég hefði notað tækifærið í eitthvert sinn þegar ljót saga hafði borist honum til eyrna og sest niður með honum og sagt honum allt.

Hann gat ekki gleymt fortíð minni
Ég hefði getað útskýrt fyrir honum að ástandið á æskuheimili mínu, vinirnir í kringum mig og vanlíðan sjálfrar mín hefðu stuðlað að því að ég gerði hver mistökin á fætur öðrum. Ég var ekki annað en barn sem hafði búið við óöryggi allt sitt líf og sjálfseyðingarhvötin náði tökum á mér um tíma. Ég flutti ung að heiman. Strax og ég komst á kynþroskaaldur myndaðist mikil togstreita milli mín og mömmu og við rifumst heiftarlega mörgum sinnum á dag. Það varð til þess að ég flutti út fimmtán ára gömul. Mér fannst ég ekkert of ung þá. Ég var viss um að ég gæti staðið á eigin fótum en þess í stað dróst ég inn í alls konar vitleysu með vinum mínum.

„Auk þess var ansi margt í minni fortíð sem ég einfaldlega mundi ekki eftir því ég hafði verið svo full eða útúrreykt.“

Fyrst eftir að ég fór að heiman leigðum við átta saman litla íbúð sem búin hafði verið til í verksmiðjuhúsnæði. Aðstaðan var ekki upp á marga fiska og húsnæðið lélegt en okkur var alveg sama. Við sönkuðum að okkur alls konar drasli og svo var slegið upp partíi dag eftir dag. Ég drakk sífellt meira og sökk dýpra og dýpra í fenið. Við misstum auðvitað húsnæðið fljótlega því bæði var umgengnin hræðileg og oft hafði enginn sinnu á að borga leiguna. Þá flutti ég heim til tveggja karla ásamt einni vinkonu minni úr hópnum.

Þetta voru bræður sem bjuggu saman í stórri og flottri íbúð. Á yfirborðinu vorum við leigjendur að forstofuherbergi í íbúðinni þeirra en í raun sáu þeir okkur fyrir víni og dópi gegn því að við svæfum hjá þeim. Vinkona mín eignaðist fljótlega kærasta og flutti til hans en ég bjó þarna í átta mánuði. Að þeim tíma liðnum var ég komin með svo mikið ógeð á sjálfri mér og körlunum að ég fór.

Á götunni
Ég bjó á götunni næstu mánuði og gerði það sem ég þurfti til að komast af. Ég stal, betlaði og blekkti fólk. Dag nokkurn fékk ég einfaldlega nóg af þessu líferni og leitaði mér hjálpar. Ég fór til læknis og bað hann um að koma mér eitthvað í burtu frá þessu og hann fékk pláss fyrir mig í meðferð á Vogi. Í meðferðinni kynntist ég konu sem varð nokkurs konar móðurímynd mín. Hún var mér óskaplega góð og studdi mig með ráðum og dáð. Þegar meðferðinni lauk fékk ég að búa heima hjá henni endurgjaldslaust á meðan ég var að koma undir mig fótunum.

Þessi kona hvatti mig til að læra og hún kenndi mér að fara með peninga og skipuleggja líf mitt. Þegar við Nonni kynntumst hafði ég með hennar hjálp farið á námskeið sem gerðu mér kleift að fá góða vinnu á skrifstofu og ég hafði lagt fyrir í sjóð til kaupa á íbúð. Ég hafði líka tekið aftur upp samband við mömmu mína og við mæðgur náð betur saman en nokkru sinni fyrr. Líf mitt var því í góðum farvegi og Nonni því algerlega óviðbúinn því rugli sem hafði verið á mér áður.

„Í raun sáu þeir okkur fyrir víni og dópi gegn því að við svæfum hjá þeim.“

Spennan í sambandi okkar hlóðst upp eftir því sem hann heyrði fleiri sögur. Dag nokkurn kom hann heim öskureiður og hóf að pakka ofan í töskur. Einhver hafði sagt honum að ég hefði stundað vændi og hann trúði því. Ég var gersamlega eyðilögð og grét og bað hann að hlusta á mig en hann vildi það ekki. Hann sagðist vera ákveðinn í að skilja við mig og flutti heim til foreldra sinna.

Til allrar lukku reyndist ást Nonna á mér nægilega sterk til þess að hann hafði samband um leið og honum var runnin reiðin. Við hittumst skömmu seinna og töluðum saman af fullkominni hreinskilni. Að þessu sinni sagði ég honum allt. Ég dró ekkert undan og reyndi ekki að fegra sjálfa mig. Hann tók þessu betur en ég hafði þorað og vona að ég skildi að óvissan hafði í raun verið verst. Hann hafði skynjað að ég sagði ekki allan sannleikann og þess vegna reynt að geta í eyðurnar og það hafði farið illa með hann. Við erum saman í dag og erum að reyna að vinna í því að gera samband okkar enn betra. Ég finn líka að ég á margt eftir að gera upp í fortíð minni og það mun taka mig tíma að vinna mig frá því. Það borgar sig aldrei að þegja um hlutina því þeir munu ávallt koma upp á yfirborðið að lokum.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira