2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Sársaukinn linaður

Leiðari úr Vikunni Þekkingu manna á líkamlegum sársauka hefur fleygt fram undanfarna áratugi. Við vitum til að mynda að karlmenn eru veikara kynið, þeir verða frekar og meira veikir en konur. Flensan leggst einfaldlega þyngra á þá svo það er ekki eintómur aumingjaskapur þegar þeir liggja vælandi uppi í rúmi og kalla á hjálp í sömu veikindum og konan þeirra, meðan hún sinnir börnum og heimili með snýtuklútana í vasanum. Vísindamenn hafa líka komist að því að menn upplifa sársauka á mismunandi hátt og svæði líkamans eru misviðkvæm eftir einstaklingum. Einn getur hugsanlega þolað bakverki einstaklega vel en engist af kvölum þegar verkurinn færist niður í fæturna. En verkir eru líka öruggt merki um að eitthvað sé að og læknar segja okkur að þá beri að hlusta á. Líkaminn sé að senda skilaboð. Hvernig stendur þá á því að þegar fólk leitar sárkvalið á náðir heilbrigðisstarfsfólks er því stundum mætt með vantrú og litlum skilningi?

Hvers vegna er auðveldara að trúa að menn séu að ýkja ástand sitt eða þjáist af taugaveiklun fremur en hlusta og sinna? Það er erfitt að segja. Hugsanlega er til fólk sem ávallt gerir meira úr aðstæðum en efni standa til en er það þá ekki visst ákall um hjálp og vísbending um að það þurfi að leita dýpra? Ég veit það svo sem ekki en mér datt þetta í hug þegar ég las forsíðuviðtalið við Erlu Kolbrúnu Óskarsdóttur. Læknamistök urðu þess valdandi að hún þjáðist af stöðugum og mjög erfiðum verkjum. Þrátt fyrir að það lægi fyrir og yfirlæknir kvensjúkdómadeildar Landspítalans hefði staðfest það mætti hún vanskilningi og ákveðnum kulda frá sumum þeirra sem hún þurfti að fá þjónustu hjá. Það er ekki uppbyggjandi á nokkurn hátt. Þótt vissulega sé erfitt að setja sig í spor annarra og upplifa sársauka þeirra ætti samt alltaf að hlusta á hann og leita leiða til úrbóta.

Erla Kolbrún sökk ofan í djúpt þunglyndi, enda fannst henni framtíðin hafa verið frá sér tekin. Hún sá sig ekki lengur inni í fjölskyldumynd sinni og þráði heitast af öllu hvíld frá eilífum kvölum. Um tíma sá hún enga aðra leið til þess en að kveðja þessa jarðvist. Vonin kviknaði aftur við að komast í stofnfrumumeðferð sem þegar hefur breytt miklu fyrir hana og ef hún gæti leyft sér fleiri er aldrei að vita nema batinn yrði betri. Í dag er þessi unga kona óvinnufær og það er mikill skaði. Það er synd að stofnfrumumeðferð skuli ekki vera í boði fyrir fleiri hér á landi og umhugsunarefni fyrir heilbrigðisyfirvöld hvort ekki sé tímabært að annaðhvort efla þær eða rýmka reglur um styrki til að fólk geti farið utan til að sækja sér slíka lækningu. Að mínu mati ætti að vera sjálfsagt að reyna allt til að hjálpa ef manneskja er þjáð.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is