2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Segja má að ég hafi nánast búið í ferðatösku síðustu sex ár“

  Steinunn Eik Egilsdóttir er óhrædd við að stíga út fyrir þægindarammann. Byggingar hafa heillað hana frá barnæsku og eftir að hún lauk námi í arkitektúr hefur hún starfað við allt frá hönnun griðastaða kvenna í Palestínu að stórhýsum í erlendum borgum. Nýjasta verkefni hennar eru málverk innblásin af frostmyndunum í íslenskri náttúru sem eru til sýnis í Listasal Mosfellsbæjar.

  Steinunn er fædd á Akranesi árið 1988 og myndlistin nýlegt tjáningarform fyrir henni. Hún lauk BA-gráðu í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands 2011 og meistaraprófi í sama fagi frá Oxford Brookes-háskóla þremur árum seinna. Síðastliðið haust lauk hún framhaldsgráðu til löggildingarprófs frá Westminster-háskóla í London. Sumarið 2016 flutti Steinunn Eik aftur til Englands og settist að í litlum bæ, Arundel. Þar kynntist hún listakonu á eftirlaunum, Sandy Hales, sem bauð upp á opna myndlistartíma og sótti vikulega tíma til hennar og segja má að þá hafi opnast æð og hluti af afrakstrinum er til sýnis í Listasal Mosfellsbæjar undir yfirskriftinni FROST. Síðasti dagur sýningarinnar er á morgunm 15. febrúar.

  Hvað gerðist eiginlega? „Það sem gerðist var það að ég var nýflutt frá fjölmennu höfuðborginni Accra í Ghana og inn í miðjan South Downs-þjóðgarðinn við suðurströnd Englands,“ segir Steinunn Eik. „Ég hóf störf á lítilli arkitektastofu sem sérhæfði sig í hönnun sveitasetra og lúxusvilla. Stökkið frá háværu Accra til Arundel var mjög mikið og sannarlega ólíkir heimar.

  Einu hljóðin sem ég heyrði á kvöldin voru fuglasöngur og hljóð í hvítri uglu sem svaf undir þakskegginu.

  Í Accra var ég orðin svo vön hávaða að ég sofnaði ekki án þess að vera með eyrnatappa, en borgin svaf aldrei, það voru alltaf læti eða tónlist úti á götu og ekkert gler í gluggunum þar sem ég bjó. Þegar ég flutti til Arundel bjó ég í gömlu hlöðnu steinhúsi sem áður hafði verið lítið nautgripahús og kyrrðin og friðurinn var nánast yfirgnæfandi. Einu hljóðin sem ég heyrði á kvöldin voru fuglasöngur og hljóð í hvítri uglu sem svaf undir þakskegginu.

  Í stuttu máli sagt, hafði lengi blundað í mér þrá til að skapa á aðeins frjálsari máta en mín daglega vinna sem arkitekt bauð upp á og þarna í þessari algjöru ró, var kominn staður og stund til að taka upp penslana. Innan um breska lávarða, leigusala minn sem var hertogi í Arundel-kastala og villt dádýr í þessum fallega þjóðgarði, frétti ég að skammt frá mér byggi 75 ára listakona sem opnaði stúdíóið sitt einu sinni í viku og þar væri fólki frjálst að mæta með eigin listsköpun og fá leiðsögn frá henni. Ég fann að þetta var rétti tíminn og tækifæri sem ég varð að grípa.

  AUGLÝSING


  Verk Steinunnar eru til sýnis í Listasal Mosfellsbæjar.

  Ég fékk útrás í abstrakt myndlist, sem í dag er mín helsta leið til að róa hugann. Tímarnir hjá Sandy voru mjög frjálslegir og fólk málaði og teiknaði á sinn eigin hátt, en ég var langyngst í hópnum og sú eina sem var ekki orðin gráhærð. Á meðan fólk vann að eigin myndlist var slúðrað um fína fólkið í sveitinni og stundum leið mér eins og ég væri stödd í breskum sjónvarpsþætti, sér í lagi þegar talað var um það hvernig Elísabet drottning hefði stuttu áður hringt í hertogann og gagnrýnt það að hann og hertogynjan væru skilin að borði og sæng.

  Skömmu seinna tóku hertogahjónin svo aftur saman. Sandy Hales hjálpaði mér sem sé að koma mér af stað í myndlistinni og ég hef á seinustu tveimur árum þróað minn stíl og tækni. Það sem ég kann svo vel að meta við myndlistina sem tjáningarform er hversu frjáls hún er samanborið við t.d. hönnunargreinar. Í myndlistinni er allt leyfilegt.“

  Arkitektúr og menning kallist á

  Meðan á námsferlinum stóð vann Steinunn Eik verkefni á Grænlandi, í Hollandi og Palestínu. Hún tók einnig þátt í stofnun og framkvæmd verkefnisins Eyðibýli á Íslandi. Í upphafi ferils síns vann hún sem nemi við friðaðar byggingar á Íslandi og eitt sumar á Ítalíu. Eftir búsetu í Oxford stefndi hugur hennar út heim og hún hélt til Vestur-Afríku og vann þar við arkitektúr á árunum 2013-1916. Þú hefur starfað að verkefnum tengdum arkitektúr víða um heim.

  Hvað gaf sú reynsla og hvað er mikilvægast að hafa í huga um samspil umhverfis og bygginga?

  „Sú alþjóðlega reynsla sem ég hef fengið í gegnum nám og störf hefur víkkað sjóndeildarhring minn til muna,“ segir hún. „Einnig hugsa ég að allt þetta flakk hafi aukið aðlögunarhæfni mína, ég er frekar fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og oft skrýtnum búsetuháttum. Segja má að ég hafi nánast búið í ferðatösku síðustu sex ár. Ég hef einnig fengið innsýn í líf fólks af mismunandi uppruna. Ég gleymi því aldrei, í fyrstu Afríkuferðinni minni þegar mér var boðið í mat heim til fjölskyldu sem bjó í litlu steyptu húsi með engu rafmagni, svaf og borðaði á gólfinu.

  Þessi fjölskylda hafði hins vegar aldrei séð hvíta manneskju áður og börnin voru hálfsmeyk við mig.

  Þegar kom að matnum áttaði ég mig á því að þau virtust öll vera búin að borða og vildu fyrst og fremst að ég smakkaði heimilismatinn þeirra á meðan þau sátu öll brosandi á gólfinu og horfðu á mig borða krabbasúpu, með skelinni og alls konar grænmeti sem ég hafði aldrei séð áður. Þessi fjölskylda hafði hins vegar aldrei séð hvíta manneskju áður og börnin voru hálfsmeyk við mig.

  Mikilvægur þáttur þess að vera arkitekt er að geta sett sig í spor annarra, hvort sem um er að ræða hönnuna á nýju sjúkrahúsi, heimili eða flugvelli og ég finn að reynsla mín á alþjóðlegum vettvangi hefur hjálpað mér að skilja betur og greina þarfir fólks. Með hverju nýju landi sem ég hef unnið í eykst sannfæring mín um það hversu mikilvægt það er að vinna með staðarandann hverju sinni. Það eru verðmæti í að styrkja menninguna sem fyrir er. Það er t.d. mjög áberandi í Ghana, þar sem ég bjó lengi, að menn hafa svolítið gleymt sinni eigin arfleifð hvað varðar samspil umhverfis og bygginga.

  Í daglegu starfi sínu fæst Steinunn við hönnun og teikningar sem þurfa að vera bæði raunsannar og nákvæmar en í myndlistinni finnur hún frelsi og kýs að mála abstrakt.

  Ghanabúar, rétt eins og Íslendingar, eiga mjög fallega og áhugaverða byggingarsögu. Við byggðum hnausþykka torfveggi til að halda kuldanum úti og hlýjunni inni en í Ghana byggðu menn mjög þykkar leirbyggingar sem gerði það að verkum að þótt það væri 35 stiga hiti úti, var loftið svalt og þægilegt innandyra. En svipað og gerðist á Íslandi, þá óx úr grasi kynslóð sem skammaðist sín fyrir arfleifðina og vildi horfa í aðrar áttir þegar fram liðu stundir. Á seinustu árum hafa verið byggðar mjög amerískar byggingar í Ghana sem passa mjög illa inn í umhverfið.

  Þetta eru byggingar sem eru orkufrekar og notast við rafknúin loftræstikerfi til kælingar en þar sem rafmagn er í takmörkuðum mæli fer rafmagnið af heilu borgunum oft í viku sökum þess hvernig byggt hefur verið án tillits við umhverfið. Ég segi alltaf að þegar ég fer inn í byggingu eða horfi á mannvirki, vilji ég vita hvar í heiminum ég er stödd, að arkitektúrinn hafi skírskotun í menningu, staðhætti eða efnisnotkun þess staðs sem við á.“

   Ævintýralegt líf  

  Segja má að þú hafir unnið og upplifað ótrúlega fjölbreytni á ekki mjög langri ævi. Hver heldur þú að sé helsta ástæða þess að þú leggur svo óhrædd á brattann og tekst á við nýstárlega hluti fremur en að feta troðnar slóðir?

  „Ég veit ekki hvað það er beint sem veldur, fyrir mér er þessi ævintýraþrá og ólíku verkefnin sem ég hef fengist við, mér frekar eðlislæg,“ segir Steinunn Eik. „Kannski vegna þess að ég er hugmyndarík, en líka af því að ég þori að taka stökkið og flytja t.d. ein til Afríku. Ég er elst af sex systkinum af Akranesi. Okkur var öllum kennt að vera sjálfstæð og hafa trú á okkur sjálfum. Sem stóra systir í þessum barnahópi held ég að ég hafi snemma þróað sjálfstæða hugsun og ábyrgðarkennd.

  Það hefur líka hjálpað að alast upp í litlu samfélagi eins og Akranesi, þar sem unglingar og ungt fólk fær góð tækifæri til að láta ljós sitt skína. Uppeldið og umhverfið gaf mér hugrekki og sjálfstraust til að stökkva lengra og fikra mig áfram í fjölbreyttum verkefnum. Ég fæ líka ákveðið adrenalínkikk út úr því að hafa nóg að gera og að fást við marga spennandi hluti á sama tíma. Sem dæmi var ég í haust að klára strembið verkefnastjórnunarnám í London á svipuðum tíma og ég byrjaði í nýrri vinnu á frábærri arkitektastofu í Reykjavík og jafnframt að undirbúa mína fyrstu myndlistarsýningu. Viðfangsefni mín eru oft erfið og þeim fylgja vinnutarnir og þreyta, en þegar maður uppsker vel og sér afrakstur erfiðisins verður álagið og baráttan þess virði og miklu meira en það.“

  Viðtalið við Steinunni birtist í 5. tölublaði Vikunnar.

  Verkin á sýningunni Frost eru máluð á síðustu tveimur árum. Þau byggja öll á könnun Steinunnar Eikar á frostmyndunum og þeim mikla krafti sem býr í náttúrunni. Hér er frosið landslag skoðað með augum listamannsins og segja má að verkin séu óður til  harðgerðrar íslenskrar náttúru. Í daglegu starfi sínu fæst Steinunn við hönnun og teikningar sem þurfa að vera bæði raunsannar og nákvæmar en í myndlistinni finnur hún frelsi og kýs að mála abstrakt. Sjálf kýs hún skilgreina list sína sem minnst og leyfa áhrofandnaum að lesa úr myndunum þann sannleik sem þeir kjósa eða eins og hún orðar það, hvert auga les á sinn máta. Allt er leyfilegt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is