2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sér lífið í öðru ljósi

  Blaðamaðurinn og ljósmyndarinn Ásdís Ásgeirsdóttir er ein af þessum manneskjum sem virðast alltaf vera að gera eitthvað spennandi og skemmtilegt. Hún hætti að drekka árið 2014 eftir að hafa beðið skipbrot eftir skilnað og segist sjá lífið í nýju ljósi síðan þá. Hún er staðráðin í að lifa lífinu til fulls og láta draumana rætast.

   

  „Ég ætlaði nú alltaf að verða leikkona og skáld,“ segir Ásdís þar sem hún situr gegnt blaðamanni á veitingastað í Kópavogi. Það er ys og þys allt í kringum okkur enda einungis nokkrir dagar til jóla þegar við hittumst, en við látum það ekki á okkur fá.

  „Ég hef alltaf verið skapandi.“

  „Ég bjó í Bandaríkjunum um fimm ára skeið þegar ég var barn og horfði mikið á kvikmyndir með barnastjörnunni Shirley Temple og langaði að verða eins og hún. Mig dreymdi eiginlega um að verða barnastjarna en það rættist nú ekki. Ég er eiginlega bara fegin því í dag, því barnastjörnurnar virðast alltaf lenda í einhverjum vandræðum og ég væri örugglega bara í ræsinu,“ segir Ásdís og skellir upp úr.

  „Ég hef alltaf verið skapandi og teiknaði mikið sem barn. En svo leiddist ég út í ljósmyndunina fyrir hálfgerða tilviljun. Eftir að ég lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík fór ég að vinna á samyrkjubúi í Ísrael en ég ætlaði alltaf að fara heim og taka inntökuprófið í Leiklistarskóla Íslands, en þá voru nemendur bara teknir inn annað hvert ár. Síðan var svo ótrúlega gaman á samyrkjubúinu og ég þorði hvort eð er eiginlega ekkert í þetta inntökupróf þannig að ég slaufaði því bara. En þá voru auðvitað góð ráð dýr þegar ég kom heim. Ég skellti mér þá í inntökuprófið í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og komst þar inn. Ég kláraði fornámið en ákvað að leggja ekki myndlist fyrir mig. Hildur systir, sem hefur búið lengi í Cleveland í Bandaríkjunum, spurði mig af einhverri rælni af hverju ég færi ekki að læra blaðaljósmyndun sem væri kennd í Kent State-háskólanum í Ohio. Ég vissi ekki einu sinni að það nám væri til en mér fannst það strax hljóma vel og sló til.“

  „Saddam Hussein eyðilagði fríið okkar með því að ráðast inn í Kuwait og Persaflóastríðið fór af stað.“

  AUGLÝSING


  „Bökkum aðeins … Samyrkjubú í Ísrael? Hvernig kom það til?“
  „Ég hafði heyrt um konu sem hafði farið að vinna á samyrkjubúi þarna úti og mér fannst það spennandi. Þannig að haustið 1988 fór ég til Ísraels ásamt vinkonu minni og tveimur vinum mínum og vann þar fram á árið 1989. Þetta var lítið samfélag og eins og lítið þorp með skólum, barnaheimilum og litlu elliheimili. Á samyrkjubúinu voru unnin alls konar störf; við þrif, í eldhúsi, á barnaheimilum, við að tína appelsínur, á elliheimili og ýmislegt fleira. Ég vann lengi við að passa nokkurra mánaða gamla þríbura og endaði svo á að stjórna þrifum í borðstofu. En aðallega vorum við nú bara að djamma,“ segir Ásdís og hlær.

  Ásdís prýðir forsíðu 2. tölublaðs Vikunnar 2020.

  „Þarna voru um þrjátíu, fjörutíu sjálfboðaliðar alls staðar að úr heiminum á aldrinum nítján til tuttugu og fimm ára svo það var virkilega mikið fjör. Við unnum fimm til sjö tíma á dag og svo var bara farið niður á strönd eða í sundlaugina, þetta var engin erfiðisvinna þannig lagað. Þetta var svo gaman að við Ása vinkona fórum aftur sumarið 1990 og vorum þá aðra tvo mánuði. Það var jafngaman og jafnvel skemmtilegra en í fyrra skiptið því þá var sumar og sól, en Saddam Hussein eyðilagði fríið okkar með því að ráðast inn í Kuwait og Persaflóastríðið fór af stað. Þeir fóru að hóta því að sprengja í Tel-Aviv og samyrkjubúið var ekki ýkja langt frá. Mamma og pabbi voru ekkert sérlega ánægð að vita af mér þarna úti og til að kóróna allt var systir mín komin út í heimsókn. Hún hafði bókstaflega komið út daginn áður en innrásin var gerð í Kuwait.“

  Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Myndir / Hallur Karlsson
  Förðun / Hildur Emils, förðunarfræðingur Urban Decay á Íslandi

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is