Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Siðblind stórasystir

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lífsreynslusaga úr Vikunni

Frá barnæsku hefur eldri systir mín verið afar ómerkileg persóna. Hún blekkti, sveik, og stal og stjórnaði okkur systkinunum með harðri hendi. Á fullorðinsárum komst hún upp með mjög ósvífið athæfi gagnvart okkur.

 

Við erum fjögur systkinin, þrjár systur og einn bróðir. Ekki get ég sagt að samlyndið hafi verið upp á sitt besta lengst af og það kenni ég Elsu, elstu systurinni, alfarið um. Hún virtist njóta þess að etja okkur yngri systkinunum saman og gerði það iðulega á svo lúmskan hátt að við áttuðum okkur ekki á því fyrr en í kringum unglingsárin.

Pabbi hafði látið sig hverfa þegar bróðir minn var ársgamall og stofnað nýja fjölskyldu. Mamma vann mikið og var iðulega dauðþreytt svo hún vissi ekki hvernig ástandið var. Hún borgaði Elsu fyrir að passa okkur og hafði eflaust ekki hugmynd um hvað Elsu tókst að gera líf okkar erfitt í skjóli þess valds sem hún hafði yfir okkur sem barnfóstra.

Hálsmenið sem hvarf

Ég fékk fallegt hálsmen í fermingargjöf. Einn daginn hvarf það og ég var miður mín. Nokkrum dögum seinna sagði Elsa við mig að hún hefði séð Möggu systur læðupokast með hálsmenið. Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima. Elsa var óvenjuhjálpleg og viti menn, hún fann hálsmenið mitt í einni skúffunni.

„Ég varð tortryggin en hún fékk mig þó til að leita í skápum og skúffum Möggu sem var ekki heima.“

- Auglýsing -

Magga sagðist ekki hafa snert hálsmenið, henni fannst mjög undarlegt að það hefði fundist hjá henni. Elsa klagaði í mömmu og Möggu var gert að halda sig inni í herbergi sínu allt kvöldið. Það var slæm refsing á þessum árum að fá ekki að horfa á sjónvarpið.

Ég hafði sjálf verið þjófkennd af Elsu, alveg saklaus, og það rifjaðist upp fyrir mér þetta kvöld þegar ég sá hvað hún var glaðhlakkaleg. Ég laumaðist inn til Möggu og spurði hana hvort það gæti verið að Elsa hefði sjálf tekið hálsmenið og falið það til að koma sökinni á Möggu. Það fannst henni líklegt og ég treysti Möggu betur en Elsu.

Eftir þetta höfðum við yngri systkinin alltaf varann á okkur gagnvart Elsu. Hún reyndi annað slagið að segja eitthvað eða gera til að koma upp á milli okkar en það tókst sjaldnast hjá henni. Það var helst mamma sem trúði lygum hennar.

- Auglýsing -

Elsa flutti að heiman í kringum tvítugt og giftist fyrsta eiginmanni sínum. Hjónabandið entist í nokkur ár en þegar hún skildi átti hún þrjú lítil börn. Við Magga pössuðum oft fyrir hana og þótti vænt um börnin hennar.

Ósvífinn þjófnaður

Mamma missti heilsuna á miðjum aldri, eða í kringum sextugt, og lést fáum árum seinna. Við Magga sáum að mestu um undirbúning útfararinnar og erfidrykkjuna en enga hjálp var að fá frá Elsu sem hafði aldrei tíma … Bróðir okkar bjó í útlöndum og þegar hann kom til landsins aðstoðaði hann á allan hátt.

Áður en hann flaug heim fórum við yngri systkinin yfir reytur mömmu en Elsa mætti ekki þótt við hefðum öll ætlað að hittast.

Mamma hafði alltaf sagt að hún ætlaði sjálf að borga eigin útför. Hún hafði átt miklu meira fé en við vissum af, og hefði getað greitt fyrir tíu útfarir af dýrara taginu en bankabókin hennar hafði verið tæmd skömmu fyrir dauða hennar. Við komumst að því að Elsa hafði tekið peningana út með umboði frá mömmu en undirskriftin var þó ekki mömmu.

Þegar við gengum á Elsu reiddist hún og sagði að mamma hefði gefið sér peningana, hún hefði meiri þörf fyrir þá en við. Auðvitað vissum við að Elsa hefði stolið þessum peningum en þrátt fyrir slæma reynslu okkar af henni kom okkur á óvart að hún skyldi leggjast svona lágt. Ef þetta er ekki siðblinda veit ég ekki hvað siðblinda er.

Við kærðum Elsu, annað var ekki hægt. Ekki af því að okkur langaði svona í peningana, heldur til að kenna henni í eitt skipti fyrir öll að hún kæmist ekki upp með allt. Því miður töpuðum við málinu. Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.

„Ekki var hægt að sanna að undirskriftin væri fölsuð eða afsanna að mamma hefði gefið Elsu peningana.“

Við seldum litlu íbúðina hennar mömmu og andvirðinu var skipt í fernt eftir að skattmann hafði tekið sitt. Elsa fékk sinn hlut og fannst það alveg réttlátt. Hún uppskar algjöra fyrirlitningu okkar systkinanna. Það urðu engin formleg og tilfinningaþrungin sambandsslit, við bara hættum öll að tala við hana.

Óvænt heimsókn

Rúm tuttugu ár liðu. Ég fékk alltaf annað slagið fréttir af Elsu í gegnum börnin hennar sem ég held góðu sambandi við. Hún giftist tvisvar í viðbót og skildi jafnoft. Hún drakk mikið og það tók hana sorglega skamman tíma að sóa öllum arfinum og peningunum illa fengnu, og fékk góða hjálp við það frá ræflunum sem hún laðaði að sér.

Börn Elsu fluttu snemma að heiman. Eitt þeirra var ekki nema fimmtán ára. Þau hafa öll spjarað sig vel þrátt fyrir erfiðan uppvöxt. Öll búa þau á landsbyggðinni og hafa skapað sér gott líf þar.

Einn fallegan sumardag var ég við garðvinnu heima þegar ókunnug kona vatt sér inn í garð. Ég stóð upp og bauð góðan dag en svo sá ég að þetta var Elsa og stirðnaði. Hún var skælbrosandi, lét sem ekkert væri og sagði að það væri svo langt síðan hún hefði séð mig. Ég var orðlaus af undrun. Mér tókst þó að stynja upp: „Viltu ekki kaffi?“ og hún þáði það.

Elsa masaði endalaust í eldhúsinu og óð úr einu í annað. Hún var gengin í sértrúarsöfnuð og vildi endilega fá mig til að koma með sér á samkomu. Ónei, hugsaði ég en leyfði henni að tala. Hún var óstöðvandi. Henni tókst einhvern veginn að ná að rakka niður útlit mitt, fína eldhúsið og atvinnu mína, allt á innan við mínútu. Ég uppgötvaði að stórasystir var orðin að óbærilega leiðinlegri kerlingu. „Voðalega ertu mjó, ertu með anorexíu? Ekki? En væri samt ekki ráð að leita læknis, þetta er ekki eðlilegt.“ Og yfir í annað: „Ég man eftir þegar ég var með svipaða eldhúsinnréttingu, mér fannst hún svo ljót að ég skipti.“ Eflaust fyrir peningana sem þú stalst frá mömmu, hugsaði ég. Enn malaði hún: „Hvað segirðu, ertu að vinna þarna, en ömurlegt, aldrei myndi ég nenna að vinna á skrifstofu.“ Svona lét hún dæluna ganga og ég var næstum fallin í öngvit af leiðindum.

Hvítar lygar

Þegar maðurinn minn kom heim uppveðraðist hún enn frekar og byrjaði að flissa eins og smástelpa. Áður en hún segði eitthvað andstyggilegt við hann um mig, eins og henni var trúandi til, flýtti ég mér að segja að við hjónin værum að fara út, sem var hvít lygi, og þyrftum að drífa okkur.

Ég bað Elsu um að hringja á undan sér ef hún ætlaði að koma aftur í heimsókn. „Ha! Ertu ekki að grínast, ég droppa í heimsóknir þegar ég vil,“ sagði hún svolítið móðguð. „Mér er alveg sama um drasl,“ bætti hún við og leit á eldhúsbekkinn þar sem mátti sjá áhöld og fleira tengt garðvinnunni. Annað „drasl“ var ekki að sjá. Ég var mjög ákveðin þegar ég sagði henni að MÉR fyndist betra ef hún og aðrir gestir gerðu það.

Elsa heimsækir mig reyndar ekki oft, kannski tvisvar, þrisvar á ári og myndi gera það oftar ef ég leyfði henni það. Nokkrum sinnum hef ég þurft að láta eins og ég væri ekki heima, þegar hún kemur án þess að gera boð á undan sér en þeim skiptum fer fækkandi.

Ástæðan fyrir því að ég leyfi henni að koma er sú að ég hef nokkra samúð með henni. Hún er öryrki, missti heilsuna vegna lífernisins og er búin að brenna allar brýr að baki sér. Hún hefur komið sér alls staðar úr húsi nema í söfnuðinum, enda munar eflaust um tíundina af bótunum hennar. Henni tókst ekki að endurnýja sambandið við hin systkini mín, þau geta ekki hugsað sér að umgangast hana.

Meira að segja börn Elsu forðast hana. Þau treysta sér ekki einu sinni til að halda jól með henni, hún er svo leiðinleg að hún eyðileggur alla stemningu, segja þau. Það létti mikið á þeim þegar hún gekk í söfnuðinn því hún ver miklum tíma með fólkinu þar. Það er líka léttir fyrir mig, ég myndi ekki vilja vita af henni einni yfir jól og myndi jafnvel gera eigin fjölskyldu brjálaða í einhverri andartaksfljótfærni með því að bjóða henni í jólamatinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -