Feimni kostar samfélagið mikla peninga

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Allir menn finna einhvern tíma fyrir feimni. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar sem hafa slíkt sjálfstraust að ekki sé hægt að setja þá úr jafnvægi og gera þá feimna og vandræðalega. Sumir eru hins vegar svo lamandi feimnir að það stendur þeim ávallt fyrir þrifum í öllum samskiptum.

 

Feimið fólk er yfirleitt rólegt og hæglátt á yfirborðinu en undir niðri kraumar oft sárar tilfinningar. Þessir einstaklingar hafa mjög neikvæða sjálfsmynd og eiga það til að tala mjög harðneskjulega við sjálfa sig og um sig í huganum. Þeir eiga einnig sameiginlegt að hafa miklar áhyggjur af hvernig þeir koma öðrum fyrir sjónir. Í samkvæmum meðan allir eru uppteknir af að heilsa og spjalla reyna þeir í örvæntingu að finna leið til að komast hjá því að þurfa að ávarpa nokkurn mann. Þeir stilla sér gjarnan upp út í horni og þykjast uppteknir við að skoða myndir á veggjunum eða kíkja á símann sinn. Hjartað slær ört, þeir svitna í lófunum og maginn er í hnút.

 

Þessi mikla vanlíðan stendur þessu fólki fyrir þrifum og það á ákaflega erfitt með að mynda tengslanet, eignast vini og kynnast maka. Það býr því oft við mikla félagslega einangrun og ástand þeirra verður því verra því meira sem það dregur sig í hlé. Aðrir upplifa stundum vandræðagang þeirra ýmist sem hroka og sérvisku og reyna því lítið til að draga viðkomandi út úr skel sinni. Helstu ráð við feimni hingað til hafa verið að reyna að efla sjálfstraust hins feimna, kenna honum að bregðast við ýmsum aðstæðum eins og að brydda upp á samræðum í samkvæmum og við ókunnuga. Almenn umræðuefni á borð við veðrið, fréttaviðburði, tilefni boðsins, matinn og tengingu viðkomandi við gestgjafann eru frábær til að brjóta ísinn. Í sjálfu sér er ekkert að því að vera feiminn ef sá hlédrægi er sáttur við líf sitt en ef ekki eru mörg frábær námskeið í boði m.a. á vegum Dale Carnegie sem hafa reynst ótrúlega árangursrík sem margir hafa nýtt sér.

 

Nokkrar staðreyndir um feimni

Flestir reyna að fela feimnina en líður mjög illa undir niðri.

Rannsóknir sýna að sumt fólk hefur eðlislæga tilhneigingu til feimni meðan aðrir hafa mun opnari skapgerð. Foreldrar geta hjálpað með því að örva samskiptahæfni feimna barnsins síns og vinna markvisst að því að efla sjálfstraust þess.

Stundum byrjar feimni eða eykst vegna erfiðrar lífsreynslu.

Feimni á sér lífeðlisfræðilegar skýringar. Þegar fólk verður feimið verða þrjár stöðvar í heilanum virkar og senda út boð sem valda þeim líkamlegu einkennum sem fylgja, þ.e. roðna, svitna, stama og skjálfa á beinunum.

Hlutfall feimni meðal þjóða er breytilegt. Hún virðist síst ríkjandi meðal Ísraela og talið er að menning leiki þar stórt hlutverk ekki hvað síst hvort það tíðkast að hrósa og örva börn eða tala þau niður eða skamma þegar þau gera mistök.

Feimni kostar samfélagið mikla peninga því einangrun og félagsleg vandmál hinna feimnu eru oft kveikja að sjúkdómum.

Hægt er að vinna gegn lamandi líkamlegum áhrifum feimni með því að sætta sig við ástandið, búast við vanlíðaninni og í stað þess að berjast á móti, slaka á og leyfa henni að líða hjá.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -