Skapaðu barnvænt heimili

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Atriði sem gott er að hafa í huga þar sem börn eru á heimili.

Heimilið er griðastaður allrar fjölskyldunnar og flestir foreldrar setja börnin sín þar í öndvegi. Þeir reyna að skapa barnvæn heimili og gleðja þau eins og hægt er. Hér á eftir koma nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þar sem börn eru á heimili.

Rannsóknir sýna að börn sem alast upp með gæludýrum eru ábyrgðarfyllri, hafa meira sjálfstraust og eru tillitssamari en börn sem ekki kynnast dýrum. Mynd / www.pixabay.com

Gefðu barninu þínu gæludýr
Rannsóknir sýna að börn sem alast upp með gæludýrum eru ábyrgðarfyllri, hafa meira sjálfstraust og eru tillitssamari en börn sem ekki kynnast dýrum. Börnin sem eiga gæludýr virðast einnig eiga auðveldara með að sýna tilfinningar sínar á fullorðinsárum og þau eiga betra með að umgangast fólk en hin sem ekki þurfa að sinna dýrum.

Þær hafa líka leitt í ljós að fjölskyldur sem eiga gæludýr verja meiri tíma saman en fjölskyldumeðlimir gera í þeim fjölskyldum sem ekki halda dýr. Oft skapast ákveðinn félagslegur grundvöllur í kringum dýrin, t.d. fer fjölskyldan öll saman út að ganga með hundinn og hjálpast að við að hreinsa fiska- eða kanínubúrið og stundum verður gæludýraræktin að sameiginlegu áhugamáli allra í fjölskyldunni.

Tryggðu öryggi barnsins þíns
Allir foreldrar vita að sápur, hreinsiefni og önnur hættuleg efni á að geyma á öruggum stað. Það er einnig sjálfsagt að setja barnalæsingar á alla skápa og skúffur til að koma í veg fyrir slys. Setjið lok í allar rafmagnsinnstungur og skiljið aldrei eftir rafmagnstæki rétt við opnar innstungur. Börn eru miklar hermikrákur og því er mjög líklegt að barnið geri tilraun til að stinga tækinu í samband. Notaðu aldrei rafmagnstæki sem gætu verið hættuleg. Ef snúrur eru farnar að trosna eða tækið hefur slegið rafmagnið út einu sinni láttu þá athuga það og laga ef það reynist bilað.

Krullujárn eða sléttujárn á aldrei að skilja eftir í sambandi og heldur ekki lítil rafmagnstæki sem barn getur tekið og stungið upp í munninn. Góð regla er að skilja tækin aldrei eftir í sambandi. Athugaðu vel hvort að þau rafknúnu tæki sem barninu eru gefin séu prófuð samkvæmt reglugerðum um öryggi leikfanga.

Taktu upp rödd barnsins þíns
Rödd barnsins verður ekki síður verðmæt minning en ljósmynd sem sýnir útlit þess á tilteknum aldri. Margir varðveita einnig sögur sem börnin þeirra segja á þennan hátt, leiki þeirra og skemmtileg tilsvör. Upptökur af þessu tagi eru einnig góð gjöf handa öfum og ömmum, einkum og sér í lagi ef fjölskyldan býr ekki í næsta nágrenni við þau.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira