Mánudagur 15. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Skapandi á öllum sviðum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Rósa Rún Aðalsteinsdóttir starfar sem listdanskennari sem hún segir eina bestu vinnu í heimi enda sé yndislegt að vinna með framtíð Íslands. Innblástur í fatnað sækir hún alls staðar frá en hún heillast mest af víðum kápum, pilsum og buxum sem auðvelt sé að hreyfa sig í.

„Ég myndi segja að stíllinn minn sé svolítil blanda af 70´s-hippa og slatta af 90´s með rómantískum kántríundirtóni. Mér líður best þegar það er hreyfing í flíkunum en ég er mjög frjálsleg og finnst gaman að blanda saman alls kyns fínu þó að engin sérstök formúla sé á bak við það. Að mínu mati er góð peysa skyldueign í alla fataskápa en sjóarapeysan frá Ellingsen heillar mig mjög þessa dagana. Eins langar mig í uppháar hvítar víðar gallabuxur en ég stórefast um að ég gæti haldið þeim hvítum lengi. Djúpir litir henta mér í flestum tilfellum best en þó finnst mér gaman að ögra litapalettunni af og til.“

„Þessi ljósbláa silkiskyrta hefur mjög tilfinningalegt gildi en bróðir minn keypti hana fyrir mig í Japan. Fyrsta og eina skiptið sem hann hefur keypt flík á mig, mér þykir mjög vænt um hana og nota hana vel og sparlega.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir.

Spurð í hvaða verslunum Rósa versli mest nefnir hún fyrst kaupmanninn á horninu. „Mér finnst skemmtilegast að versla þegar ég þarf að hafa aðeins fyrir því að róta og gramsa eftir gersemum sem leynast inn á milli því þar eru oft og tíðum vandaðar flíkur á góðu verði. Ég reyni að kaupa mest af kaupmanninum á horninu og líður langbest í litlum rótgrónum fataverslunum. Mér finnst skemmtilegast að kaupa yfirhafnir og dregst alltaf að fallegum síðum kápum og peysum því þá þarf ég ekki að fara í mátunarklefann. Það er hins vegar leiðinlegast að kaupa gallabuxur og brjóstahaldara í ljósi þess hversu mjög ég reyni að forðast mátunarklefann. Mér finnst miklu betra að máta í miðri búð og valsa svo um og finna hvernig flíkin hreyfist á mér og ákveða út frá því hvort hún verði mín eða ekki.“

„Ég á nokkra silkiklúta sem mér þykir vænt um og þennan hring erfði ég eftir ömmu mína og nöfnu, hann er mér afar kær.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir

Þegar talið berst að furðulegustu kaupunum rifjar Rósa upp eftirminnileg kaup á unglingsárum. „Fyrstu kaupin á Asos vöktu ekki mikla lukku á heimilinu. Ég var sextán ára og hafði keypt dragsíðan hermannakjól en pabbi þurfti að borga heilmikla fjárupphæð fyrir heimsendingu á kjólnum og því varð ég að standa með þessum kaupum mínum. Til að gera langa sögu stutta hefur kjóllinn fengið að hanga í góðan áratug ósnertur í fataskápnum.“

Fullt nafn: Rósa Rún Aðalsteinsdóttir.

Starfsheiti: Listdanskennari.

Aldur: 27 ára.

- Auglýsing -

Fallegasti fataliturinn? Djúpir litir, eins og kóngablár og vínrauður.

Besta lykt í heimi? Mig langar að segja bensínlykt. Einnig nýþvegin og útiviðruð sængurföt og lyktin frá reykvélinni í leikhúsinu.

More is less eða Less is more? More is more alla leið.

- Auglýsing -

Þægindi eða útlit? Bæði betra, það sagði mamma mín alla vega.

Á döfinni: Ég hef verið að taka kúrsa á Netinu, annars vegar um mannslíkamann og hvernig við hreyfum okkur og hins vegar um andlega heilsu. Ég er með spennandi dansverkefni fram undan sem er mjög gefandi og frábært.

„Þessar ljósu harlem-buxur keypti ég í Gyllta kettinum nýverið á litlar þúsund krónur, það voru mjög góð kaup.“ Mynd/Aldís Pálsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -