2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Skipulagið á skrifstofunni

  Komdu skipulagi á heimaskrifstofuna fyrir jólin.

  Með tilkomu fartölva og iPada hefur þörfin fyrir skrifstofurými á heimilinu minnkað til muna. Að eiga einhvers staðar athvarf til að sortera pappíra, prenta út myndir, skrifa eða föndra er hins vegar draumur hverrar manneskju. Finnið því pláss einhvers staðar á heimilinu fyrir skrifborð og fallega kassa, möppur, ritfangageymslur fleira.

  Það þarf ekki að eyða tíma í að leita að umslögum, bréfsefni og kortum ef þessir hlutir eru hafðir á einum stað.

  Kannski hentar eitt hornið í stofunni vel til að búa til skrifstofu, hugsanlega endinn á svefnherbergisganginn eða að þú ert ein af þeim heppnu sem hefur eitt herbergi fyrir þig. Mörgum finnst notalegt að hafa vinnuaðstöðuna við glugga svo hægt sé að horfa út meðan beðið er eftir að andinn komi yfir mann eða þörf kviknar til að líta upp úr verkinu. Hvernig sem aðstaðan er þá er skrifborð nauðsynlegt. Gott er að fá sér einfalt skrifboð með borðplötu og koma fyrir skúffum eða hillu fyrir prentara undir því. Þægilegur skrifborðsstóll kæmi fyrir framan og lampi sem gefur góða birtu ofan á. Ef hægt er má koma fyrir hillum á vegginn fyrir ofan skrifborðið og þar er hægt að raða upp bréfabindum, möppum, kössum og öðrum kirnum undir það sem nauðsynlegt er á skrifstofunni.

  Þótt flestir haldi sitt bókhald og geymi reikninga, lagaleg skjöl, samninga og annað á rafrænu formi er gott að eiga sumt af því mikilvægasta útprentað. Trygginga- og lánasamningar eru þar á meðal. Það er aldrei að vita hvenær þarf að skoða skilmála eða leggja fram þannig gögn. Staðfest ljósrit af prófskírteinum, handbækur og ábyrgðaskírteini tækja er annað sem getur komið sér vel að hafa  handbært í möppum.

  Mörgum finnst notalegt að hafa vinnuaðstöðuna við glugga svo hægt sé að horfa út meðan beðið er eftir að andinn komi yfir mann eða þörf kviknar til að líta upp úr verkinu.

  AUGLÝSING


  Gjafakort, bréfsefni og föndurpappír er gott að eiga í bréfastandi úr plasti ásamt umslögum og frímerkjum, lími, skærum og öðru. Þá þarf ekki að eyða tíma í að leita að kortum þegar þarf að nota þau. Það er auk þess gaman að gera sín eigin kort og skapandi fólk getur gert ótrúlega fallega og persónulega hluti með föndurpappír og skærum.

  Farðu í gegnum alla pappíra reglulega og hentu því sem er orðið úrelt, gömlum ábyrgðarskírteinum, tryggingasamningum frá fyrra tryggingafélagi og handbókum með ónýtum rafmagnstækjunum. Með því móti getur þú komið í veg fyrir að upp safnist dót og fylli rýmið.

  Það er gott að setja penna, strokleður, liti og blýanta í glös eða krukkur.

  Fallegar krukkur undir penna, strokleður, liti og blýanta eru mikil prýði og gaman að koma því fyrir á skrifborðinu. Litabækur fyrir fullorðna og börn má setja upp í hillurnar eða í fallega pappakassa undir skrifborðinu. Það er gaman að búa til slíka kassa sjálfur með hjálp skókassa, sjálflímandi hillupappírs eða gjafapappírs, skæra og föndurlíms. Það má einnig klæða glerkrukkur eða plastdalla í litrík efni og nota undir allt það sem geyma þarf í skrifstofuhorninu.

  Perlur barnanna á heimilinu eiga heima í glerkrukkum ofan í skrifborðskúffunni og með því að hafa sem mest af föndurvörum heimilisins á þessum stað kennir það börnunum að vinna eigi heima við borð en ekki í stofugólfinu eða í gangveginum í eldhúsinu.

  Í þessu horni er líka gaman að koma fyrir uppflettiritum, fræðibókum og öðru sem gagnast þegar unnið er á tölvuna. Dagbækur heimilisins og stundatöflur fara sömuleiðis vel hér. Nú og svo er auðvitað frábært að setja blómavasa eða lifandi blóm á skrifborðið, koma fyrir fjölskyldumyndum og gera umhverfið hlýlegt með öðru móti.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is