„Skrifuðum eins og óð, margar færslur á hverjum degi”

Deila

- Auglýsing -

Sigríður Ólöf Eyþórsdóttir er í hópi þeirra sem alltaf setja svip sinn á umhverfi sitt með brosmildi, glaðlyndi og einlægri löngun til að láta öllum líða vel. Hún er Íslendingum í Kaupmannahöfn að góðu kunn því hún stjórnaði lengi kvennakór þar. Nú er Sigga hins vegar flutt til Borgundahólms, orðin þar organisti og rekur einnig lítið gistiheimili. Auk þess kom ástin inn í líf hennar með mjög svo óvæntum hætti fyrir rúmu ári.

 

Sigga giftist dönskum manni og á með honum tvö börn, þau Jakob Einar og Kristínu. Leiðir þeirra hjónu lágu í sundur og Sigga byggði upp sjálfstætt líf. Svo kom að því að hún var tilbúin að hleypa nýjum áhrifum inn í líf sitt og hluti af því var að koma sér fyrir í litlu húsi úti á Borgundarhólmi. Hún hafði fest kaup á húsinu en var ekki einu sinni flutt þangað, þegar óvænt vending varð á lífinu. Gamall félagi úr barnaskóla hafði flust til Spánar og þau fóru að tala saman á Facebook. Hvernig stóð á að þið Styrmir uppgötvuðuð hvort annað?

„Við Styrmir þekktumst sem krakkar í skóla sem nú heitir Háteigsskóli,“ segir Sigga. „Við vorum ekki saman í bekk, ég var í B-bekknum og hann í C en á unglingastiginu vorum við mörg úr öllum þremur bekkjunum saman í klíku. Við vorum í skátastarfi, héngum bakvið hverfisverslunina Herjólf og reyktum, töluðum um póltík og vorum tilbúin í byltinguna hvenær sem var. Við Styrmir kysstumst aðeins og vorum smávegis skotin hvort í öðru en það varð ekki meira úr því þá. En við vorum alltaf góðir vinir.

Styrmir og Sigga.

Mér fannst hann vera eini strákurinn í skólanum sem hægt að var að tala við í alvörunni. Hann var klár og skemmtilegur og flottur náungi. Svo þegar hann loksins birtist á Facebook fyrir nú rúmum tveimur árum, tók ég strax eftir honum. Ég vissi að hann var löngu skilinn, sjálf hafði ég verið fráskilin í nokkur ár og það var eitthvað við að sjá af honum mynd, sem snerti mig. Við fórum smám saman að tala saman og fundum strax mikla tengingu. En svo á nýársdag 2018 henti ég inn frjálslegri færslu um að ég ætlaði að halda ýmsum ósiðum áfram á nýja árinu, m.a. að daðra við menn. Styrmir svaraði strax: „Á maður þá bara að rétta upp hönd?“

„Mér fannst hann vera eini strákurinn í skólanum sem hægt að var að tala við í alvörunni.“

Og ég vissi strax hvað hann vildi. Við byrjuðum að tala saman með nýjum undirtóni og mjög fljótt vissum við að vörum orðin ástfangin af hvort af öðru.“

Nú varst þú staðsett í Kaupmannahöfn en hann í Malaga á Spáni. Hvernig var að rækta svona fjarsamband?

„Það var í raun ekki mjög lengi sem það stóð en það var ótrúlega gott að fá að kynnast aftur svona hægt og rólega,“ segir hún. „Fyrst skrifuðum við eins og óð, margar færslur á hverjum degi, endalaust langar og rómantískar og svo nokkrum vikum seinna áræddum við að tala saman í síma. Við töluðum í 4 ½ tíma  og eftir það var ekki aftur snúið. Styrmir flutti í september 2017 til Spánar, til að reyna eitthvað nýtt og spreyta sig á spænskunni og lífinu. Um miðjan apríl 2018 keypti ég miða til Malaga og við hittumst í fyrsta skipti í 35 ár. Við gengum um í tvo heila daga, með handleggina utanum hvort annað og töluðum og töluðum. Það var eins og við hefðum alltaf gengið svona og talað. Allt var auðvelt og skemmtilegt. Ég hágrét þegar ég hélt til baka til Köben, bæði af gleði og ást en líka hræðslu við að missa af þessu dásamlega tækifæri.“

Hamingjan er hér og nú

Sigríður Ólöf Eyþórsdóttir prýðir forsíðu nýjustu Vikunnar. Forsíðumyndina tók Unnur Magna.

Í viðtalinu í nýjasta tölublaði Vikunnar rekur Sigga það hvernig hún komst á þennan stað og segir meðal annars: „Mér dettur ekki í huga að halda því fram að allir geti allt sem þeir vilja ef þeir bara þrá það nógu heitt. Það er firra því oft eru skrilljón ljón að veginum, en stundum er hægt að skjóta sum ljónin, temja önnur og svo bara láta eins og maður sjái ekki afganginn – og halda á vit æfintýranna.“

Lestu viðtalið við Siggu í heild sinni í 30. tölublaði Vikunnar.
Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Förðun / Björg Alfreðsdóttir alþjóðlegur förðunarfræðingur fyrir Yves Saint Laurent á Íslandi

- Advertisement -

Athugasemdir