2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sniglaslím, hrossaolía og hrogn

  Fyrirsögn þessarar greinar hljómar kannski eins og lína úr uppskriftabók nornar.

  Vissulega auðvelt að sjá fyrir sér gamla skrukku með toppmjóan svartan hatt að hræra í dularfullum potti, tautandi særingar þegar maður les fyrirsögnina. Þetta eru þó einfaldlega innihaldsefni í kóreskum og japönskum snyrtivörum en þær eru með því framsæknasta í þeim iðnaði og nýlega varð framleiðsla þessara landa vestrænum hönnuði uppspretta nýrrar snyrtivörulínu.

  Sniglaslím er að finna í sumum húðkremum frá Kóreu og Japan.

  En áður en komið er að þeim tiltekna kafla í þessari frásögn er gaman að skoða aðeins sögu innihaldsefna í snyrtivörum almennt. Nefna má að djúprauður litur, carmine, var mikið í tísku í varalitum á stríðsárunum og eftir seinni heimsstyrjöldina. Þessum lit var náð fram með muldum skeljum af bjöllum. Roð regnbogafiska er enn notað í margvíslegar snyrtivörur til að ná fram ljóma því það fangar ljósið á einstakan hátt og endurkastar því. Sú mýta var lengi í gangi að í áhrifaríkustu húðkremin væru notaðar fylgjur svína. Í henni leynist einnig sannleikskorn því um tíma var unnið prótín úr fylgjum dýra og þau notuð í húðkrem,

  Ef við víkjum að nútímanum er margt fleira spennandi að gerast í snyrti- og förðunarvöruheiminum í Austurlöndum. Japan og Kórea leiða vissulega en austrænar konur eru mun djarfari í litavali en þær vestrænu. Sterkir, djúpir litir á augnskuggum eru þar algengir og þær kjósa mjög oft maskara í öðrum lit en svörtum. Í ljósmyndaferð um Japan og Suður-Kóreu varð Lucia Pica fyrir miklum áhrifum af samspili ljóss og lita í þessu magnaða landslagi. Hún heillaðist einnig af fólkinu og yfirbragði þess og ákvað að nota sér upplifanir sínar í innblástur að nýrri vor- og sumarlínu fyrir Chanel.

  AUGLÝSING


  Hún rak meðal annars augun í glitrandi fiskhreistur á markaði í Tókýó og vírar strengdir yfir hliðargötu í Seoul urðu henni uppspretta nýrrar hugsunar í förðun. Að auki var hin austræna meðvitund og hæfni til að meta og veita athygli hinu smáa til þess, fannst henni, að kalla á blæbrigðaríka línu og Vision D’Asie L’Art du Detail er sannarlega ríkuleg og fáguð og leikur með ljós, liti og skipuleg form. Hún leikur sér einnig mjög með ljós og endurkast og bæði púður og augnskuggar eru hálfgagnsæ. Hér má líka finna farða, gloss og varaliti sem best er að lýsa með því að líkja þeim við döggvot blóm, blautar götur og ljóma hinnar litríku perluskeljar. Öllu mildari er svo Le Beige-lína Chanel og förðunarfræðingar njóta þess að blanda þessu tvennu saman.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is