2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Stíll yfir þér: Nokkur vel valin ráð sem geta hjálpað þér við að finna þinn eigin tímalausa stíl

  Sumar konur hafa, að því er virðist, innbyggða tilfinningu fyrir stíl. Engu skiptir á hvaða aldri þær eru, hvernig í laginu eða hvaðan þær koma, það er eins og þessar konur séu alltaf með puttann á púlsinum hvað varðar nýjustu trendin og þær eru alltaf smart.

  En þegar betur er að gáð kaupa þær ekki föt oftar en aðrar konur og eru sannarlega ekki þrælar tískunnar hverju sinni, þvert á móti samanstendur fataskápurinn oft af fáum en vel völdum flíkum. Þær láta nefnilega tískuna ekki segja sér fyrir verkum heldur nýta sér það sem höfðar til þeirra hverju sinni og bæta því við hefðbundinn fatnað sinn.

  Að finna sinn eigin tímalausa stíl getur verið flókið en það getur líka verið einfalt. Nokkur vel valin ráð er gott að hafa í huga og hver veit nema fljótlega verði maður í hópi þeirra sem alltaf eru „chic“.

  Veldu þinn stíl umfram tískubólur

  AUGLÝSING


  Veltu vandlega fyrir þér hvaða snið og form höfða til þín og veldu þér ævinlega fatnað eftir því fyrst og fremst. Sumum konum hentar mjög vel að vera í aðsniðnu meðan aðrar kjósa fremur víðari föt. Klassísk snið höfða til margra en frumlegheit eru eitthvað sem heillar aðrar. Finndu þína leið hvað þetta varðar og veldu þínar stærstu flíkur eftir henni.

  Lag eftir lag

  Það er alltaf gott að eiga nokkrar einfaldar og þægilegar flíkur sem ganga við allt. Ofan á þær má byggja endalausar útgáfur af heildarútliti. Hvítur bómullarbolur, gallabuxur, v-hálsmálspeysa, hvít skyrta, beint pils, þægilegar svartar buxur og auðvitað litli svarti kjólinn eru í þessum flokki. Hefðbundnar og klassískar flíkur sem síðan má gerbreyta með belti, jakka, gollu, hálsklút, skartgripum og töff skóm. Byrjaðu á einni slíkri flík og bættu svo við lag eftir lag.

  Kaupið minna, notið meira

  Með því að kaupa færri flíkur er manneskjan neydd til að vanda valið og velja betri efni og snið sem ganga lengur. Þá þarf einnig nota hugarflugið til að gerbreyta flíkinni til að fá síður leiða á að klæðast henni. Þetta er ein öflugasta leið hvers einstaklings til að leggja sitt af mörkum til að vinna gegn loftslagsbreytingum, auka sjálfbærni og varðveita náttúruauðlindir.

  Vertu þú sjálf

  Lykillinn að stíl er alltaf sá að vera maður sjálfur, setja sinn persónulega svip á verkið hvað sem það er. Hafðu þetta í huga þegar þú velur föt og láttu aldrei neinn segja þér hvað þér á að finnast fallegt og hvað ekki.

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is