2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Á stóra drauma fyrir Konubókastofu

  Rannveig Anna Jónsdóttir hóf að safna bókum íslenskra kvenna.

  Í smásögunni Grasaferð eftir Jónas Hallgrímsson fær drengurinn það upp úr systur sinni að hún hafi fengist við að yrkja og hann býðst til að kenna sér vísu hennar. Það þótti nefnilega ekki kvenleg iðja að fást við skáldskap. Margar konur ortu því fyrir skúffuna en hinar sem þó þorðu að opinbera verk sín gleymdust fljótt. Úr þessu vill Rannveig Anna Jónsdóttir bæta og í Konubókastofunni á Eyrarbakka er að finna bókmenntaperlur sem fæstir vissu að væru til.

  Rannveig Anna Jónsdóttir hóf að safna bókum íslenskra kvenna.

  Rannveig Anna, sem reyndar er alltaf kölluð Anna, er stofnandi safnsins. Hún fæddist á Blönduósi og ólst upp á Snæringsstöðum í Vatnsdal, Austur-Húnavatnssýslu. Í næsta nágrenni við bústaði hagyrtra kvenna fyrri tíma, á borð við Skáld-Rósu, og Agnesi Magnúsdóttur. Í Vatnsdal fæddist einnig og ólst upp Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvenréttindakona en hún var þekkt fyrir ritfærni sína. Anna lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands en þar kviknaði áhugi hennar á að halda til haga bókum íslenskra kvenna eftir að Helga Kress vakti athygli nemenda sinna á hver mörg verk þeirra hefði farið forgörðum.

  Markmið Konubókastofu er að halda til haga ritverkum íslenskra kvenna. Hefur sýnt sig að það sé veruleg þörf á því? „Á vissan hátt hefur það gert það,“ segir Anna. „Margir þurfa að losa sig við bækur og vilja þá jafnvel henda þeim. Margt yngra fólk er ekki eins mikið fyrir að hafa allt fullt af bókum í kringum sig. Þess vegna eru mörg bókasöfn sem fara beint á haugana en margir hafa samband við mig og vilja þá að Konubókastofa fái þær bækur sem íslenskar konur hafa skrifað. Að vísu er stundum fólk sem hefur samband og er búið að erfa heilu bókasöfnin og spyr hvort það eigi að athuga hvort Konubókastofa geti nýtt sér eitthvað úr safninu. Oft er það þannig að þá er engin bók í safninu eftir konur. Í heilu safni. Svo eru líka bækur gefnar út í mjög litlu upplagi og höfundar þeirra og ættingjar gefa Konubókastofu þá eintak svo að það sé einhvers staðar aðgengilegt.“

  AUGLÝSING


  Margar bókanna áritaðar

  Eitt sinn er Anna var að undirbúa fjölskylduferð til Englands rakst hún á safn með ritverkum eftir breskar konur eingöngu, skrifuð á tímabilinu 1600 til 1830. Anna heimsótti þetta safn, Chawton House Library, og þegar heim var komið fór hún að safna bókum með það að markmiði að opna safn í þessum dúr á Íslandi. Það gekk vel og í janúar árið 2013 útvegaði Sveitarfélagið Árborg Konubókastofu herbergi til afnota í húsinu Blátúni á Eyrarbakka. En söfn snúast um fleira en að sanka að sér gripum. Leita margir til Konubókastofunnar og þá í hvaða tilgangi helst? „Það er haft samband við mig nánast vikulega og stundum oftar. Þá eru höfundar og/eða einstaklingar að athuga hvort bók sem þeir eru með vanti í safnið. Eins koma gestir þegar opið er og við opnum safnið sérstaklega ef áhugi er fyrir því. Sökum plássleysis hefur safnið lítið sem ekkert verið auglýst sérstaklega, þannig að mér finnst í raun athyglisvert hversu margir einstaklingar og hópar koma miðað við það. Svo má ekki gleyma fésbókarsíðunni en töluvert er fylgst með þar.“

  „Já, og svo hefur mér komið á óvart hversu margar konur gefa út bækur á eigin vegum. Það er gaman að segja frá því að oft hefur komið „vá“ frá vörum yngra fólksins sem kemur: „er þetta allt eftir konur?“

  Markhópur stofunnar er áhugafólk um íslenskar bókmenntir hvaðanæva úr heiminum. Stofan er auk þess sífellt að breytast því fleiri íslenskar konur skrifa nú en nokkru sinni fyrr og nóg kemur út af bókum í landinu. Nú er bókastofan löngu orðin full af bókum. Hafið þið uppgötvað einhverja nýja höfunda síðan starfsemin byrjaði? „Já, og þá sérstaklega þá sem gefa út í litlu upplagi. Eins eru gamlar bækur sem ég vissi ekki um, eins og fyrsta handavinnubókin sem gefin var út 1886. Hún er mjög falleg. Ég verð líka að koma því að, að margar bókanna eru áritaðar og afar gaman að skoða það.

  Eins finnst mér alltaf jafnathyglisvert að sjá þegar við erum að skrá bækurnar hversu mörg forlög hafa starfað í svo litlu þjóðfélagi sem Ísland er.“

  Hefur eitthvað komið þér á óvart við skáldskap íslenskra kvenna? „Í rauninni ekki hvað efnið varðar, nema þá helst þegar flett er t.d. fyrsta Kvennablaðinu og lesa ráðleggingar um barnauppeldi en hægt er að sjá sömu umræðu í kvennablöðum allar götur síðan. Sumt breytist lítið.

  Já, og svo hefur mér komið á óvart hversu margar konur gefa út bækur á eigin vegum. Það er gaman að segja frá því að oft hefur komið „vá“ frá vörum yngra fólksins sem kemur og skoðar hjá okkur, „er þetta allt eftir konur?““

  Gestir njóta kaffis og lestrar

  Anna kaus að kalla safnið stofu því hugmyndin að baki því var sú að fólk gæti komið og sest inn í stofu og skoðað þar bækur jafnvel með kaffibolla í hendi. Hún vonast einnig til að einhvern tíma verði þar aðstaða fyrir fræðimenn og áhugafólk til að kynna sér heimildir og leita upplýsinga í eigin verk. Hvernig sérð þú fyrir þér hlutverk og skyldur safnsins í framtíðinni? „Ég hef mjög stóra drauma fyrir Konubókastofu og hef vanið mig á að nota alltaf orðið „þegar“ í stað þess að nota orðið „ef“. En þegar Konubókastofa er búin að fá stærra og aðgengilegra húsnæði þá verður það miðstöð fyrir kvenhöfunda og verkin þeirra. Þar verður hægt að koma og fræðast um höfundana og verkin þeirra í stórri og flottri sýningu. Sitja og skoða öll blöðin og bækurnar.

  Þar verða fyrirlestrar og fleiri uppákomur og þar verður hægt að panta ákveðna fyrirlestra eftir áhugasviði. Til dæmis munu ferðamenn geta pantað fyrirlestur um bókmenntasögu íslenskra kvenna, um glæpasöguhöfundana og fleira. Ég gæti hugsað mér fyrirlestur þar sem bók Siggu Daggar „Kjaftað um kynlíf við börn og unglinga. Fullorðnir ræða og fræða“ yrði tekin til umfjöllunar og bera saman við eldri verkin á safninu sem fjalla um sama efni. Hvað heimasíðu Konubókastofu varðar þá verður brátt hægt að fræðast um höfundana og verkin þeirra þar. Sú umfjöllun verður einnig á ensku, þýsku og dönsku. Eins og sést eru draumarnir stórir en það endurspeglast í þeirri hugmynd sem ég hef að við sem þjóð erum skyldug til að kynna rithöfundana okkar á aðgengilegan hátt, bæði fyrir okkur sjálf og erlenda gesti. Þar sem ekkert safn á landinu er tileinkað ísenskum kvenrithöfundum, að Kvennasögusafni Íslands undanskildu, þá hefur Konubókastofa svo að segja tekið það hlutverk að sér. Hins vegar er vakning að eiga sér stað sem betur fer. Í Eyjafirði eru uppi hugmyndir um að koma á safni um Ólöfu frá Hlöðum og svo er lítil sýning á Hótel Önnu, Moldnúpi, tileinkuð Önnu.“

  Að baki Konubókastofu stendur hagsmunafélag en traustir félagar í því leggja sig fram um að styðja við starfsemi stofunnar. En hver sem er getur lagt stofunni lið hafi þeir áhuga á að auka veg skáldskaparins og íslenskra kvenna. Önnu skortir hvorki eldmóðinn né áhugann og hún er sannarlega líkleg til að finna öllum framlögum hagnýt not.

  Skörungur

  Til gamans má geta að fleiri skörungar en Bríet eru fæddar í Vatnsdalnum en Halldóra Bjarnadóttir fæddist 14. október 1873 að Ási í Vatnsdal. Um hana var þetta ritað:

  „Seinni starfsárum sínum eyddi Halldóra að miklu leyti í útgáfu ársritsins Hlínar, málsvara Sambands norðlenskra kvenna sem kom út í fyrsta skipti árið 1917. Það efni sem birt var í Hlín var „fyrst og fremst um heimilisiðnað, hjúkrunarmál og hreinlætishætti, garðrækt, uppeldismál, réttindamál kvenna, smásögur, leiðbeiningar um nauðsynjamál og yfirleitt allt það, sem á einn eða annan hátt hefur getað stutt að eflingu heimilanna og aukinni þjóðrækniskennd“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960). Halldóru tókst að fá ólíklegustu manneskjur til að skrifa í ritið. Henni leiddist þau rit þar sem formaður þeirra var sá eini sem sá um skrifin og einnig var hún þeirrar skoðunar að „hver einasti Íslendingur hafi eitthvað skemmtilegt og fróðlegt til brunns að bera, ef hann tekur sig til“ (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, 1960).

  „Konubókastofa á öll eintökin af Hlín sem ég er mjög stolt af,“ segir Anna. „Ég man svo vel eftir Halldóru frá því ég var barn þar sem hún átti heima ekki langt frá okkur. Svo á Konubókastofa líka fyrstu árgangana af Kvennablaðinu hennar Bríetar sem er algjör fjársjóður.“

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir
  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is