„Stórt skref að geta gengið frjálslega um göturnar“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Söguhringur kvenna á tíu ára afmæli en þessi skemmtilegi vettvangur sköpunar og skrafs milli kvenna hefur opnað mörgum nýja sýn á lífið og hjálpað þeim að fóta sig í íslensku samfélagi.

Vikan hitti Kristínu R. Vilhjálmsdóttur og Zhöru Hussaini í tilefni þessara tímamóta. „Söguhringur kvenna var stofnaður í byrjun nóvember 2008,“ segir Kristín. „Þá var ég nýráðin sem verkefnastjóri á Borgarbókasafninu til að byggja upp fjölmenningarlegt starf og byrjaði ég á því að leita til ýmissa grasrótarsamtaka í þeim tilgangi að þróa fjölbreytt samstarfsverkefni. Ein hugmyndin var að búa til vettvang þar sem konur úr öllum hornum samfélagsins gætu hist á óformlegum nótum, tekið þátt í sköpun og átt samræður þvert á menningarheima. Eitt aðalmarkmið verkefnisins er að ná til bæði íslenskra og erlendra kvenna og var það mjög dýrmætt að fá W.O.M.E.N – Samtök kvenna af erlendum uppruna sem samstarfsaðila í þessu framtaki. Við höfum unnið fjölda verkefna saman innan Söguhringsins á þessum tíu árum og mörg hundruð konur er rekja rætur sínar til ýmissa heimshorna hafa verið hluti af starfinu. Þetta er ekki lokaður hópur heldur opinn vettvangur – en nokkrar konur hafa tekið þátt öll árin.“

44. tölublað Vikunnar.

Ég held að það að búa til tengsl gegnum listræn ferli sé afar sterk leið þegar einstaklingar og hópar með ólíkan bakgrunn koma saman. Í Söguhringnum er áhersla lögð á að samskiptatungumálið sé íslenska, en enska og önnur tungumál svífa líka um loftið í kaffipásunum og í vinnuferlunum sem gerir þetta að svo lifandi og heimsborgaralegu umhverfi sem allar konur forvitnar um fjölmenningarleg samskipti ættu að koma og vera hluti af. Ef þú ert heppin geturðu meira að segja fengið tækifæri til að æfa þig í tungumáli sem þú hefur einhvern tímann fyrr á ævinni lært. Listin er auðvitað fyrsta sameiginlega tungumálið og fyrsta skrefið að því að tengjast.“

Líkt og Kristín kom inn á er markmiðið að brjóta múra, opna leiðir til samskipta þrátt fyrir tungumálaörðugleika og menningarmun. Zahra hefur verið búsett hér í ár og hún hefur þegar lokið diplómanámi í íslensku. Hún segir íslenskuna mjög ólíka farsí sem er hennar móðurmál, m.a. séu þar engin kyn og mun minna um beygingar. „Síðastliðið ár byrjaði ég í Söguhringnum og í vetur tek ég þátt í öðrum verkefnum líka,“ segir Zhara. „Í byrjun fannst mér starfið fyrst og fremst skemmtileg afþreying. Við vorum að leika okkur með liti og að mála. Svo fórum við smátt og smátt að deila sögum okkar og það var mjög upplýsandi. Við komum frá mörgum löndum og vissulega heyrði ég sögur líkar minni eigin en einnig mjög ólíkar. Ég lærði af reynslu annarra og það fannst mér mjög fallegt. Auk þess hjálpaði mikið að heyra hinar segja frá hvernig þær upplifðu íslenskt samfélag og hvað þær voru að berjast við. Konur í Evrópu og konur í mínu föðurlandi, Afganistan, horfa allt öðruvísi á jafnréttismál. Hér á landi er munurinn milli kynjanna mun minni og að geta gengið frjálslega um göturnar var stórt skref fyrir mig. Á Íslandi snýst baráttan um að jafna lítinn aðstöðumun en afganskar konur eiga mun lengra í land.

Að heyra hinar konurnar segja frá breytti líka minni afstöðu til eigin stöðu í samfélaginu. Í heimalandi mínu sjá konur um húsverkin og enginn efast um að það sé þeirra hlutverk eða spyr hvort það henti þeim. Þær taka heldur ekki völdin yfir eigin örlögum í sínar hendur. Þegar ég hlustaði á þennan fjölbreytta hóp kvenna segja frá opnaði það augu mín fyrir að ég gæti haft ýmislegt að segja um hvernig ég lifði lífinu. Þegar maður fer á milli landa lærir maður margt. Á Íslandi er ég ekki bara að stúdera tungumálið, ég skoða líka menninguna og tileinka mér nýjar hugmyndir. Allt er nýtt fyrir mér. Mér hefur tekist að mynda tengsl við konur, bæði af erlendum uppruna sem hafa búið hér lengi og við íslenskar konur.“

Í heimalandi mínu sjá konur um húsverkin og enginn efast um að það sé þeirra hlutverk eða spyr hvort það henti þeim.

En hvað er svo fram undan hjá Söguhringnum? „Í haust verða smiðjur í skapandi skrifum, myndlist, leiklist og spuna, leshringur og fræðslugöngur,“ segir Kristín. „En á næsta ári verður áherslan lögð á tónlist og við verðum í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og tónlistarkonur sem tengjast bæði Íslandi og öðrum heimshornum.

Það mætti segja að það var flott gjöf að fá styrk frá Velferðaráðuneytinu á tíu ára afmælisári Söguhringsins. Styrkurinn á að styðja aðferðirnar sem við höfum þróað til áfram að stuðla að því að styrkja tengsl kvenna og að búa til fræðandi og félagslegan vettvang. Hluti af starfinu þetta haustið er meðal annars myndlistarþerapía í lokuðum hópi kvenna sem hafa lent í kynferðislegu ofbeldi. Þetta er þannig orðið mjög fjölbreytt starf sem teygir anga sína inn á mörg svið samfélagsins,“

Starf Söguhringsins stendur öllum opið og frekari upplýsingar um það er að finna á síðu Borgarbókasafnsins, borgarbokasafn.is undir flipanum þjónusta.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Óska eftir almennum lesendum í verðlaunanefndir

„Okkur fannst kominn tími á rödd hins almenna lesanda,“ segir Bryndís Loftsdóttir, starfsmaður Félags íslenskra bókaútgefenda en...