2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Stundum má alveg sleppa símanum

  „Fólk er einmana af því að það byggir veggi í stað brúa,“ sagði Joseph F. Newton. Og það má til sanns vegar færa. Nú, þegar síminn er ekki lengur snúrusími, tjóðraður við innstungu í vegg, eins og var hér í denn, fer hann með okkur hvert sem við förum.

  Fólk einangrast ekkert endilega heima; það er vel hægt að einangrast innan um annað fólk. Það er erfitt að eiga samskipti við aðra manneskju sem er uppteknari af símanum sínum en félagsskapnum. Og það getur orðið frekar einmanalegt.

  Á okkur dynja skilaboð daginn út og daginn inn, hvort sem það er á Facebook, Instagram, í tölvupósti eða smáskilaboðum og vinir okkar og fjölskylda, áhrifavaldarnir og stjörnurnar láta okkur vita af því hvar í heiminum þau eru stödd, hvað er verið að snæða og hvað er verið að gera. Við förum út að borða og án þess að átta okkur endilega á því er búið að leggja símann á borðið, svona ef einhver skyldi nú þurfa að ná í okkur. Og láti síminn vita af nýjum skilaboðum þarf helst að svara strax. „Bíddu aðeins, ég þarf bara rétt að klára að svara þessu.“

  Phubbing er enska orðið yfir það að taka símann fram yfir félagsskapinn; hunsa manneskjuna sem við erum með af því að síminn á athygli okkar alla í það og það skiptið. Phubbing er sett saman úr orðunum phone (sími) og snubbing (huns). Ekkert íslenskt orð er til yfir þetta fyrirbæri, í það minnsta enn sem komið er. Síhuns er kannski málið? Samfélagsmiðlarnir eru vissulega sniðugt fyrirbæri til að halda sambandi við gamla vini og nýja en þurfa þeir allir að vita af því hvar við erum, hvert við fórum, í hvaða fötum við erum, hvað við erum að borða og með hverjum?

  Á samfélagsmiðlunum erum við ekki bara í sambandi við gamla vini, heldur deilum við líka lífi okkar, myndum, skipuleggjum viðburði, látum vita af því hvað við gerðum á æfingu dagsins og gætum þess að allir viti að við höfum verið að gera eitthvað skemmtilegt. Það er vissulega gaman að fylgjast með fólki og það er líka gaman að leyfa fólki að fylgjast með, en það er t.d. hægt að smella af einni og einni mynd á myndavélina í símanum og setja hana svo inn á samfélagsmiðlana þegar heim er komið. Það vill enginn láta hunsa sig, hvað þá fyrir dauðan hlut. Það er auðvelt að fá á tilfinninguna að hinn aðilinn hafi engan áhuga á að vera með manni ef hann er stanslaust í símanum.

  AUGLÝSING


  Slökktu á hljóðinu á símanum þegar þú ert með vinum þínum og reyndu að líta sem sjaldnast á hann.

  Mynda núna, deila seinna
  Við tókum saman nokkur ráð sem gætu gagnast þeim sem eiga erfitt með að láta símann bíða.

  Slepptu símanum …
  … við borðhaldið. Þú nýtur matarins og félagsskaparins betur og upplifunin af borðhaldinu verður mun skemmtilegri fyrir alla ef þú einbeitir þér frekar að líflegum samræðum yfir matnum og minna að símanum. Ef þú verður að svara símtali eða skilaboðum farðu þá afsíðis. Ef þig langar mjög mikið að deila myndum af matnum með vinum þínum geturðu tekið mynd og sett hana inn á samfélagsmiðlana þegar þú ert komin/n heim. Myndir þarf nefnilega ekki að skoða í rauntíma.

  … í brúðkaupum og jarðarförum. Brúðhjónin eiga að vera aðalatriðið á stóra daginn en það er magnað hvað athyglin er fljót að beinast að þeim sem eru í símanum, hvort sem þeir eru að tala í hann eða skoða eitthvað á skjánum. Brúðhjónin buðu þér af því þau vildu deila með þér þessum sérstaka degi svo sýndu þeim þá virðingu að vera á staðnum. Bókstaflega. Við jarðarfarir ætti enginn að vera í símanum af því að … Það þarfnast ekki frekari útskýringa.

  … í leik- og kvikmyndahúsum. Áhorfendur borguðu heilmikið fyrir sýninguna og þú væntanlega líka svo þú ættir að njóta þess að horfa. Ljósið af skjánum er truflandi fyrir alla þá sem eru í kringum þig. Og tíminn sem fer í að setja myndbrotin inn á samfélagsmiðlana ásamt texta og broskörlum er heilmikill.

  … á tónleikum. Ástæðan er sú sama og hér fyrir ofan, í leikhúsi og bíó, en það er líka ekkert sérlega skemmtilegt að horfa á mörg myndbrot af tónleikum. Hljóðið er oft bjagað og maður getur alveg eins horft á live-upptökur á YouTube.

  Slökktu á hljóðinu á símanum þegar þú ert með vinum þínum og reyndu að líta sem sjaldnast á hann. Ef þú hefur áhyggjur af því að missa af einhverju mikilvægu, til dæmis símtali frá barnapíunni, geturðu látið símann titra án þess að hafa kveikt á hljóðinu.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is