2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Styrktu stoðir hjónabandsins

  Margar hindranir standa í vegi fyrir varanlegri hamingju í hjónabandi og ekki eru allir jafn vel undir það búnir að mæta þeim. Sumir virðast vita af hyggjuviti sínu hvernig best er að stökkva yfir eða forðast hindranirnar en fyrir hina getur verið gagnlegt að skoða hvað gerist í hjónaböndum eftir vissan árafjölda.

   

  Allt fyrsta árið

  Hér áður fyrr var talað um fyrsta árið sem tíma hunangs og rósa og fólk hvatt til að nýta tímann vel og njóta. Þetta á tæplega við lengur því fæst pör gifta sig fyrr en eftir nokkurra ára sambúð og þá er bæði fyrsti rósrauði ástarblossinn farinn að dofna og búið að sníða af verstu agnúa í samstillingu stærstu mála. Þrátt fyrir það er líklegt að á þessum tíma séu góðu stundirnar mun fleiri en þær slæmu.

  Ef par hefur hins vegar rifist stöðugt strax á fyrsta ári samlífsins er mjög líklegt að hjónabandið verði erfitt og aðilarnir jafnvel ósættanlegir. Í byrjun sambandsins verða nefnilega oft til samskiptamynstur sem geta orðið varanleg. Fjölskylduráðgjafar hvetja mjög til þess að á þessum tíma reyni fólk að tala út um stóra ásteytingarsteina á borð við fjármál, barneignir, hvernig haga eigi starfsferli og verkaskiptingu á heimilinu. Margar konur gefa of mikið eftir á þessu tímabili ástar og hamingju og halda að karlmaður kunni að meta mýkt þeirra. Þetta getur verið hættulegt því karlinn heldur oft að þær vilji hafa hlutina svona og það henti þeim mjög vel. Slíkt getur valdið árekstrum síðar.

  AUGLÝSING


  Næstu tvö árin

  Ef hjónabandið er traust er hér búið að leggja grunninn. Fólkið þekkir hvort annað betur og hefur komið sér upp ýmsum sameiginlegum hefðum og siðum. Kannski finnst því hversdagsleikinn og rólegheitin of ráðandi á stundum en fæstir þurfa að hafa áhyggjur. Ástríðan kraumar enn undir niðri og vaknar í hvert skipti sem blásið er í glæðurnar. Þetta tímabil kalla sérfræðingar tíma umhyggjusemi. Kynlífið er ekki eins mikilvægt og í sumum tilfellum orðið að rútínu en umhyggjan og ástúðin allsráðandi. Þennan tíma nota flestir til að setja sér markmið og deila draumum sínum og væntingum.

  Hætturnar á þessu tímabili eru þær að festast í ákveðnu fari, bæði í samskiptum og í kynlífinu. Þetta er góður tími til að sýna að gamla ævintýraþráin er enn til staðar og halda áfram að krydda líf sitt með einhverju skemmtilegu og spennandi getur vel orðið límið sem heldur parinu saman síðar. Þótt samkomulagið sé gott er samt full ástæða til að ræða sambandið. Það er góð regla að spyrja maka sinn reglulega hvort hann sé ánægður og hjón ættu að velta því fyrir sér hvort þau telji sig vera á réttri leið í samlífinu. Þeir sem setja sér markmið ættu einnig að ganga úr skugga um að makinn sé samstiga og vilji fara sömu leið að markinu og maður sjálfur.

  Þrjú ár komin og allt í góðum gír

  Ætli fólk sér að eignast börn eru eitt eða fleiri oftast fædd þegar komið er á fjórða ár hjónabandsins. Sú saga að börnin færi hjón nær hvort öðru er ekkert annað en þjóðsaga. Jafnvel bestu sambönd eru þanin að þolmörkum meðan börnin eru lítil. Það er erfiður tími meðan börnin krefjast allrar athyglinnar og mikil vinna fylgir þeim. Hjón ættu að búa sig undir þá erfiðleika. Mikilvægt er að báðir aðilar taki fullan þátt í umönnuninni og uppeldinu. Til þess að það megi verða er nauðsynlegt að ræða verkaskiptingu og láta í ljós þreytu, óánægju og vanlíðan á uppbyggilegan hátt. Ekki öskra ásakanir á makann, mun vænlegra er að hrósa fyrir það sem vel er gert og benda kurteislega á það sem betur má fara.

  Gleymið heldur ekki að þið eruð manneskjur. Enginn getur verið foreldri alltaf, allan sólarhringinn. Takið ykkur af og til frí. Fáið barnapíu og farið út að skemmta ykkur, saman í ræktina eða í stutt ferðalög. Það er ótrúlegt hvað það getur munað miklu að losna við ábyrgðarhlutverkið svolitla stund. Börn geta einnig haft gífurleg áhrif á kynlífið því sjaldan gefst friður. Þá sjaldan að frjáls stund gefst notið þá tímann til að rækta samband ykkar. Foreldrar hafa oft mismunandi skoðanir á barnauppeldi og konum hættir til að gera ráð fyrir að karlinn sé þeim sammála í öllum meginatriðum. Það þarf ekki að vera og það er nauðsynlegt að ræða uppeldið og setja sér ákveðnar reglur og fylgja þeim síðan fast eftir.

  Fimm ár, trébrúðkaup

  Rannsóknir í Bandaríkjunum sýndu að 75% þeirra vandamála sem síðar leiða til skilnaðar koma fram á fyrstu fimm árum hjónabandsins og fara að verða áberandi á fimmta árinu. Að leiða vandamálin hjá sér leysir engan vanda. Það er alls ekki óalgengt að þeir sem á yfirborðinu virðast hamingjusamastir séu verst settir undir niðri. Þegar hjónabandið springur koma margir af fjöllum og spyrja sig hvernig standi á því að þessi fullkomnu hjón hafi skilið. Staðreyndin er sú að þetta fólk gaf sér aldrei tíma til að tala út um hlutina eða leysa málin. Peningar, börn og verkaskipting eru algengustu ágreiningsefnin. Oft er fólk svo upptekið við að halda skútunni á floti að það gefur sér engan tíma til að ræða saman. Það eru verstu mistökin. Lokaðir einstaklingar, konur og karlar, eru gjarnir á að þegja til að halda friðinn. Óánægjan kraumar engu að síður undir niðri og að lokum verður eitthvað til þess að allt springur í loft upp. Takið ykkur tíma einmitt á fyrstu árum hjónabandsins til að ræða hlutina og finna málamiðlanir. Finnið leið sem hentar ykkur.

  Sjö ára kláðinn

  Algengast er að fólk skilji eftir sjö ára hjónaband. Það er engin ýkjusaga. Bandaríkjamenn kalla þetta sjö ára kláðann, eða the seven year itch. Um þetta leyti er fólk farið að taka sambandinu svolítið sem gefnu. Makinn er til staðar og hann er tryggðatröll. Þess vegna telja menn sig ekki þurfa að leggja sig eins fram um að gleðja hann eða sinna honum. Þetta er einnig árið sem algengast er að fólk haldi fram hjá. Í flestum tilfellum segir það ástæðuna fyrir framhjáhaldinu vera þá að makinn sé hættur að taka eftir því og það hafi þurft á því að halda að finna að það hefði enn einhvern vott af kynþokka.

  Algengast er að fólk skilji eftir sjö ára hjónaband.

  Á þessum tíma er algengt að fólk fari að sýna af sér mjög leiðinlega hegðun. Einkum eru það fjórar gryfjur sem það fellur gjarnan í. 1. Kvart og nöldur: „Þú gerir bara það sem þér sýnist og svo sit ég uppi með hitt.“ „Þú hjálpar mér aldrei með krakkana.“ 2. Fyrirlitning: „Mér finnst þú viðbjóðslegur.“ „Þú ert sívælandi og kveinandi.“ 3. Farið í vörn: „Ég gerði það ekki. Þetta er ekki sanngjarnt.“ 4. Lokað á alla umræðu: „Ég stend ekki í þessu. Ég hef annað og betra við tímann að gera en að þrasa við þig.“

  Sambönd byggð á jafningjagrundvelli geta staðið af sér storma vegna þess að fólk bregst ekki við óánægju á þennan hátt. Jákvæð svörun, hrós og stuðningur kemur þér miklu lengra en nöldur og nagg.

  Ég þekki minn maka eftir tíu til fimmtán ár

  Aðalvandinn eftir tíu til fimmtán ára hjónaband er að fólki finnst það vita allt um makann og að ekkert geti lengur komið því á óvart. En það er ekki rétt. Enginn getur nokkru sinni gjörþekkt aðra manneskju. Aðstæður og utanaðkomandi áhrif hafa allt of mikið að segja fyrir okkur til þess. Á þessum tíma er auðvelt að festast í því að tala aldrei saman um annað en börnin og heimilið. Þetta er góður tími til að líta til baka og sjá hvað hefur áunnist og hvað þið eruð ánægð með. Ræðið vandamálin og setjið ykkur ný markmið að stefna að.

  Tuttugu ár og nú er að duga eða drepast

  Eftir tuttugu ára samband eru flest hjón nánari og sáttari hvort við annað en nokkru sinni fyrr. Í sumum tilfellum vakna þau þó upp við það að þau hafa þroskast hvort frá öðru og lítið eftir í sambandinu sem vert er að halda í. Yfirleitt einkennir þetta annaðhvort-eða-ástand tuttugu ára tímabilið. Sumir skilja og oftast í góðu en aðrir halda áfram og lifa hamingjusamir það sem eftir er. Mörg hjón sem höfðu lifað saman í þrjátíu ár eða meira voru spurð um hvað þau rifust. Yfir 40% þeirra svöruðu: „Við rífumst ekki.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is