• Orðrómur

Sveppatíminn er runninn upp

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Á þjóðveldisöld kunnu forfeður okkar sennilega að nýta sveppi. Landið var þá skógi vaxið milli fjalls og fjöru og annars staðar á Norðurlöndunum er hefð fyrir sveppatínslu og matreiðslu þeirra. Frásagnir af berserkjum og því æði sem á þá rann þegar þeir þurftu mest á að halda bendir einnig til að sveppategundir hafi verið nýttar og ekki eingöngu í þeim tilgangi að seðja hungur.

Nútímafólk kýs þó frekar að auðga og bragðbæta mat sinn með villisveppum, enda þörfin fyrir að auka bardagamóð sinn minni en áður var. Sveppatínsla er einnig skemmtilegt áhugamál og kjörin leið til að njóta útivistar á haustin. Hér á eftir fara nokkur góð ráð við sveppatínslu og geymslu uppskerunnar.

- Auglýsing -

Sveppatíminn byrjar um miðjan júlí og getur staðið langt fram á haust. Það ræðst fyrst og fremst af tíðarfari hversu lengi er hægt að tína sveppi. Að mörgu leyti gilda sömu lögmál um sveppi og ber, þ.e. að eftir fyrstu næturfrost eru sveppirnir ónýtir. Til að sveppir nái að vaxa og þroskast vel þurfa þeir vætu en miklar rigningar geta flýtt fyrir að þeir skemmist á haustin.

„Að mörgu leyti gilda sömu lögmál um sveppi og ber, þ.e. að eftir fyrstu næturfrost eru sveppirnir ónýtir.“

Mörg hundruð sveppategundir finnast hér á landi en aðallega eru hattsveppir hæfir til matar. Fansveppir og pípusveppir tilheyra hattsveppaflokknum. Pípusveppir hafa pípur neðan á hattinum, þær liggja misþétt saman og eru misvíðar eftir tegundum og þroskastigi. Auðvelt er að þekkja pípusveppi og því algengara að byrjendur kjósi að nýta þá en aðra. Pípusveppir eru auk þess mjög matarmiklir og finnast víða. Aðeins einn þeirra pípusveppa sem hér vaxa er ekki hæfur til neyslu en það er piparsveppur. Hann er ekki eitraður en er mjög sterkur á bragðið. Fansveppir hafa fanir en það eru blöð sem liggja út frá miðju undir hattinum. Þeir eru erfiðari í greiningu en pípusveppir og sumir þeirra eru óætir og nokkrir eitraðir.

Tínið varlega

- Auglýsing -

Sveppir hafa ekki blaðgrænu og þrífast aðeins þar sem lífræn efni eru til staðar. Sumir sveppir mynda sambýli við ákveðnar plöntur eins og furusveppur og lerkisveppur sem fylgja þessum trjátegundum en aðrar vaxa eingöngu í graslendi eða ræktarlandi og þurfa þar ákveðin skilyrði til að vaxa. Af sveppum getur verið sérstök lykt sem er missterk. Lyktin dofnar með aldrinum og breytist í rotnunarlykt.

Ása Margrét Ásgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur er mikil áhugakona um sveppi og sveppatínslu og hún er höfundur bókarinnar Villtir matsveppir á Íslandi. Fyrir byrjendur er bráðnauðsynlegt að hafa bók hennar við höndina til að auðvelda þeim að þekkja æta sveppi frá óætum. Rétt er að fara yfir nokkur algeng orð sem notuð eru í lýsingum á sveppum. Efsti hluti þeirra er kallaður hattur og það er yfirleitt augljóst hvers vegna. Undir hattinum eru pípurnar eða fanirnar og í flestum tilfellum er auðvelt að átta sig á lýsingum á þeim. Kjötið inni í sveppunum er nefnt hold og stöngullinn stafur.

„Takið neðarlega um stafinn og snúið varlega í hring þar til sveppurinn losnar.“

- Auglýsing -

Þegar sveppir eru tíndir er best að losa þá varlega niður við rótina. Óþarfi er að rífa þá upp, enda getur það skemmt rótina og sveppir gegna mikilvægu hlutverki í lífríkinu. Takið neðarlega um stafinn og snúið varlega í hring þar til sveppurinn losnar. Margir nota hnífa eða önnur áhöld til að losa sveppina en það er óþarfi þótt það geti komið í veg fyrir að stafurinn merjist. Nauðsynlegt er að hafa hníf og bursta með í för þegar farið er að tína sveppi og nota þau áhöld til að grófhreinsa sveppina á staðnum. Algjör óþarfi er að tína aðra sveppi en þá sem maður veit að eru ætir og full ástæða til að fara varlega þótt fáir sveppir séu eitraðir.

Grein þessi er m.a. byggð á bókinni Villtir matsveppir á Íslandi og grein Ásu Margrétar Ásgrímsdóttur í Gestgjafanum.

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -