„Það er alltaf hægt að læra meira“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Förðunarfræðingum eru iðulega settir í það verkefni, ekki bara að fegra fólk heldur skapa nýjar persónur eða nýta andlit og líkama fólks sem vettvang sköpunar. Það er vissulega eitthvað heillandi við þessa hlið starfsins og var meðal annars það sem varð til þess að Ásta Margrét Jónsdóttir ákvað að leggja fyrir sig förðun.

Ásta Margrét er fædd og uppalin í Mosfellsbænum, umkringd fjölbreytilegri og lifandi náttúru. Kannski hefur það haft sín áhrif á ást hennar á litum og notkun þeirra. En hvenær kviknaði áhuginn á förðun?

„Ætli hann hafi ekki alltaf verið til staðar,“ segir hún. „En það kviknaði eitthvað innra með mér þegar ég byrjaði í menntaskóla. Þá fór ég að farða allar vinkonur mínar fyrir böll og fleira, svo opnuðust margar dyr þegar ég byrjaði í Mask Makeup Academy og maður fór að skoða allar þær leiðir sem maður getur mögulega valið sér.“

Spennt að flytja til Bretlands
Já, förðunarfræði er fjölbreytt fag og vissulega hægt að sérhæfa sig á ýmsa vegu. Þú tókst leiklistarförðun líka er það kannski þar sem áhugasvið þitt liggur umfram annað?
„Leiklistarförðun er rosalega skemmtileg og ýkt og aldrei að vita nema maður komi sér inn á það svið, en annars er planið að reyna að komast inn í kvikmyndirnar.“

Úti í heimi starfar fólk sem hefur sérhæft sig í að skapa gervi, sumir jafnvel í einu tilteknu. Það festist í ákveðnum sjónvarpsseríum eða framhaldskvikmyndum. En Ásta Margrét hefur ekki áhuga á slíku. Hún ætlar sér að flytja út til Bretlands ásamt kærasta sínum, Olli Bradbury, og reyna fyrir sér þar. Það stendur líka til að bæta enn meira námi við sig.

„Að fara til Bretlands er ekkert smávegis spennandi og opnar miklu fleiri möguleika fyrir mig, ég ætla að sækja mér fleiri diplómu í förðun. Það er alltaf hægt að læra meira,“ segir hún og ljómar af áhuga og tilhlökkun.

Gaman að umbreyta fólki
Ásta Margrét hefur gaman af fólki og fjölbreytileika þess. Hún hefur unnið á sambýli um tíma og þegar henni bauðst að farða leikhópinn Perluna fyrir myndatöku fannst henni það mjög spennandi verkefni. Hvað er það sem helst heillar þig við að farða?

„Ætli það sé ekki bara hvað þetta er ofboðslega mikil list, þú getur gjörsamlega umbreytt einni manneskju í eitthvað allt annað. Svo er líka bara svo gaman að sjá hvað fólk fyllist af sjálfstausti og ánægju þegar maður gerir eina litla kvöldförðun.“

Auðheyranlega er áhuginn á starfinu brennandi og ástríðufullur en áttu þér önnur áhugamál?
„Ég hef alla tíð stundað hestamennsku og spilað handbolta, ég er aðeins að setja það til hliðar núna og einbeita mér að förðun,“ segir hún að lokum en deilir með lesendum Vikunnar myndum af nokkrum af þeim skemmtilegu gervum sem hún hefur skapað í gegnum tíðina.

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -