Alma D. Möller var fyrst kvenna til að gegna embætti landlæknis hér á landi og er glæsilegur fulltrúi þeirra í öllu tilliti. Hún hefur staðið í eldlínunni allt frá því að COVID-19 kom til landsins, fyrir rúmlega ári, en hefur einnig mætt öðrum erfiðum og krefjandi verkefnum í starfi. Hún hefur látið til sín taka gæða- og öryggismál í heilbrigðiskerfinu, gert úttektir og sent skýr skilaboð til stofnana um þau mál. Alma segist fagna allri umræðu um öryggi sjúklinga en minnir á að að hún þurfi að fara fram af yfirvegun.
„Það er talað um ,,The other victim“. Augu manna hafa opnast fyrir því í seinni tíð að það þarf líka að styðja við starfsmanninn, það getur verið ólýsanlega erfitt að vera í þessari stöðu,“ segir hún með áherslu og tekur undir með blaðamanni að lítið hafi farið fyrir þeirri hlið umræðunnar. Hún telur að á langflestum stofnunum fái starfsmaður stuðning í slíkum aðstæðum en tekur fram að hún hafi áhyggjur af einyrkjum í starfi. „Ef við vitum af slíkum málum hjá starfsmanni þá leggjum við áherslu á að hann leiti sér hjálpar.“ Hún bendir á að Læknafélag Íslands sé einnig með stuðningsþjónustu undir heitinu Læknar fyrir lækna og að þangað sé hægt að leita.
Lestu viðtalið við Ölmu í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem fæst á næsta sölustað eða í áskrift.