• Orðrómur

„Það var bara þögn“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Leikkonan María Thelma Smáradóttir íhugaði að ganga til liðs við slökkviliðið rétt eftir útskrift úr Listaháskólanum árið 2016 en þá gripu alheimsöflin í taumana með hringingu frá Þjóðleikhúsinu og boði um hlutverk í kvikmynd á móti stórleikaranum Mads Mikkelsen. 

María Thelma segist hafa verið feimin sem barn og inn á við. Hún hafi þurft að leggja hart að sér við námið þar sem hún hafi átt erfitt með að leggja staðreyndir á minnið og þurft að hafa mikið fyrir því að læra utanbókar. Enda hafi síðar komið í ljós að hún væri lesblind. Hún hlær þegar hún rifjar upp þegar hún þurfti að læra ljóð utan að í grunnskóla og segist þá hafa heitið sér því að fá aldrei vinnu þar sem hún þyrfti að læra einhvern texta utan að.

„Ég fékk það nú aldeilis í hausinn,“ segir hún hlæjandi. „Ég ólst upp í Kópavogi en þegar kom að því að velja framhaldsskóla ákvað ég að fara í Fjölbrautaskólann í Garðabæ, FG, sem var þá að byrja með leiklistarbraut. Mér fannst það tilvalið fyrir mig og hugsaði með mér að það gæti ef til vill hjálpað mér að losna við feimnina og gert mig aðeins opnari. Þannig að já, það má segja að ég hafi farið út á leiklistarbrautina fyrir mig persónulega til að byrja með. En mér fannst strax rosalega gaman í náminu og það leið ekki á löngu þar til ég fór að hugsa að ég gæti vel hugsað mér að leggja leiklistina fyrir mig.“

Sótti um í slökkviliðinu en þá svaraði kosmósið

- Auglýsing -

María Thelma útskrifaðist úr Listaháskólanum í júní 2016 og fékk þá hlutverk í sjónvarpsseríunni Fangar sem Nína Dögg Filippusdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir framleiddu og léku í undir leikstjórn Ragnars Bragasonar. En svo lauk tökunum og þá vissi María Thelma ekki hvað tæki við.

„Ég fékk ekki símtalið sem allir eru að bíða eftir með óþreyju eftir útskrift; símtalið frá Þjóðleikhúsinu eða Borgarleikhúsinu. Það var bara þögn,“ segir hún og skellir upp úr.

„Tíminn eftir útskrift fór ekki eins og ég hafði búist við; ég vildi bara fara að vinna og man að ég hugsaði með mér að kannski ætti það ekki fyrir mér að liggja að verða leikkona. Svo ég ákvað að sækja um hjá slökkviliðinu og komst áfram eftir fyrsta þrepið sem var alveg gríðarlega erfitt þrekpróf. Það var samt dálítið fyndið að ég sendi það líka út í kosmósið að ég ætlaði að fara í inntökuprófið hjá slökkviliðinu en ef ég ætti að vera leikkona þá mætti kosmósið gjöra svo vel að senda mér eitthvað verkefni í leiklistinni.“

- Auglýsing -

Mads Mikkelsen niðri á jörðinni

Í janúar 2017 fór María Thelma með fyrsta hlutverkið sitt í Þjóðleikhúsinu, í barnaleikritinu Ég get og í leikritinu Risaeðlurnar. Í apríl og maí sama ár  tókst hún á við hlutverk í kvikmyndinni Arctic þar sem hún lék á móti danska stórleikaranum Mads Mikkelsen. Aðspurð hvernig hafi verið að hitta Mads Mikkelsen í fyrsta sinn, leikarann sem margar konur taka andköf við að sjá birtast á skjánum, svarar María Thelma að hún hafi strax fundið að hann væri niðri á jörðinni.

„Þegar við hittumst í fyrsta skipti vorum við í mátun fyrir myndina, þetta var svona viku áður en tökur hófust. Hann kynnir sig og segir: Hæ, ég er að fara að draga þig í mánuð,“ segir hún og hlær.

- Auglýsing -

Lestu viðtalið við Maríu Thelmu í heild sinni í 32. tölublaði Vikunnar.

Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

Texti / Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir / Hallur Karlsson
Förðun: Hildur Emilsdóttir
Fatnaður / Kvenfataverzlun Kormáks & Skjaldar

María Thelma Smáradóttir prýðir forsíðu 32. tbl. Vikunnar

 

 

 

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -