„Þegar ég hugsa til baka veit ég ekki hvernig ég fór að þessu“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Berglind Hreiðarsdóttir, konan á bak við matarbloggið Gotterí og gersemar, var að senda frá sér spennandi uppskriftabók sem nefnist Saumaklúbburinn. Bókin hefur að geyma yfir 140 uppskriftir sem henta við ýmis tækifæri en eins og nafnið gefur til kynna þá eru uppskriftir að réttum sem henta vel í saumaklúbbinn í stóru hlutverki í bókinni.

Berglind segir að í bókinni séu fjölbreyttar uppskriftir sem nýtist ekki bara í saumaklúbbinn heldur við ýmis önnur tilefni.  Hún segir bókina vera fyrir alla þá sem hafa áhuga á gómsætum mat og vilja skapa gæðastundir fyrir fólkið í kringum sig með góðum veitingum.

„Þetta er alhliða uppskriftabók sem getur nýst fyrir saumaklúbbinn, fjölskylduboð í hversdagsleikanum og á almennum gæðastundum. Bókin hefur að geyma hátt í 100 stakar uppskriftir að alls konar réttum, meðal annars salötum, brauðréttum, aðalréttum, smáréttum, kökum og fleiru. Til viðbótar inniheldur bókin stóran kafla þar sem skyggnst er inn í matarboð nokkurra kvenna, þessi kafli gefur fólki góðar hugmyndir. Þar bætast við um 50 uppskriftir til viðbótar svo það má sannarlega segja að það sé úr nægu að velja í þessari dásamlegu bók,“ segir Berglind þegar hún er spurð út í innihald bókarinnar.

Berglind sá sjálf um að hanna 100 af þeim uppskriftum sem leynast í bókinni ásamt því að taka allar ljósmyndirnar sem prýða bókina. Hún sá einnig um uppsetningu og umbrot bókarinnar.

Mynd / Hallur Karlsson

Aðspurð hvernig hafi gengið að halda utan um svo marga þætti sem snúa að útgáfunni segir Berglind það hafa verið ansi krefjandi.

„Þetta tók langan tíma, miklu lengri en mig hafði órað fyrir í upphafi,“ segir hún og hlær. „Ég er auðvitað vön því að hanna uppskriftir og mynda veitingar en það var klárlega krefjandi að útbúa þær allar í vor á meðan Covid-faraldurinn stóð sem hæst hérlendis,“ segir Berglind sem á þrjár dætur. „Þær voru allar heima meðan á undirbúningi stóð og þegar ég hugsa til baka veit ég ekki hvernig ég fór að þessu, að útbúa hátt í 100 rétti og mynda þá samhliða því að vera kennari á öllum stigum náms, leikfélagi, mamma og ég veit ekki hvað og hvað.“

Bæði stressandi og spennandi

Berglind býr yfir mikilli reynslu á sviði matreiðslu en hönnun og umbrot bóka er alveg nýtt fyrir henni. Hún segir þann þátt hafa verið það sem reyndi mest á hana við gerð bókarinnar. „Umbrotið og samskipti við prentsmiðju varðandi alls konar tæknilega þætti er það sem hefur verið mest krefjandi. Það er nefnilega þannig að á meðan maður er að læra eitthvað nýtt og er ekki orðinn góður í því þá er það erfitt áður en það fer að verða gaman. Ég fékk hins vegar góða aðstoð frá fólki sem kann til verka og er því óendanlega þakklát fyrir að deila reynslu sinni með mér. Svo þegar ég fékk bókina í hendurnar gleymdi ég auðvitað öllu sem var krefjandi,“ segir Berglind.

Hún segir það vera bæði stressandi og spennandi að senda frá sér bókina. „Ég er með fiðring í maganum, það er svo gaman að sjá þetta verða að raunveruleika og gaman að geta deilt öllum þessum yndislegu uppskriftum og hugmyndum með alþjóð. Þetta er líka um leið stressandi, sérstaklega þegar maður er að gera þetta svona sjálfur með fjölskyldunni og hefur ekki beint reynslu af því að vera bókaútgefandi.“

„…það er svo gaman að sjá þetta verða að raunveruleika.“

Þegar hún er spurð hvort hún eigi sér uppáhaldsuppskrift úr bókinni segir hún vonlaust að gera upp á milli og velja eina. „Þær eru svo margar góðar svo ég segi pass.“

Mynd / Hallur Karlsson

Bókin er nú fáanleg á vef Berglindar, www.gotteri.is og víðar, meðal annars í helstu verslunum Pennans, í Fjarðakaupum og í helstu verslunum Hagkaups.

Myndir / Hallur Karlsson

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Blundar í þér ástarsaga?

Bókaútgáfan Króníka og Sparibollinn – bókmenntaverðlaun blása til samkeppni um handritið að bestu ástarsögunni.Sparibollinn er árviss viðurkenning...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -