2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þegar ég vaknaði um morguninn áttaði ég mig strax á því að mamma væri dáin þarna við hliðina á mér“

  Elín Sigríður Grétarsdóttir, eða Ella Sigga eins og hún er alltaf kölluð, vaknaði átta ára gömul við hlið móður sinnar sem lá þar látin. Lífið hélt áfram eins og ekkert hefði ískorist og Ella Sigga varð í raun að segja sér það sjálf að móðir hennar væri dáin, enginn settist niður með henni og ræddi málin. Móðurmissirinn og rof sem varð á fjölskyldunni í kjölfarið átti eftir að setja sitt mark á líf hennar.

   

  „Ég hef alltaf hugsað að svona sé þetta bara, þetta sé bara mín saga,“ segir Ella Sigga og yppir öxlum þar sem við sitjum á kaffihúsi í Reykjavík einn góðviðrisdag í febrúar. „En auðvitað var þetta hræðilegt og verst að enginn talaði um neitt, tilfinningarnar voru aldrei ræddar og enginn tók utan um mann og hjálpaði manni í gegnum þetta. Það hefur aldrei neinn sest niður með mér og sagt að þetta hafi í raun verið skelfilegt. En þetta var það einfaldlega. Skelfilegt.“

  Líf Ellu Siggu hefur ekki verið neinn dans á rósum, það verður manni ljóst við að hlusta á sögu hennar. En hún heldur í húmorinn og kaldhæðnin er heldur ekki langt undan, til dæmis þegar hún segist alla vega ekki þurfa að hafa áhyggjur af öldruðum foreldrum og glíma við alls konar hindranir vegna þeirra í íslenska heilbrigðiskerfinu.

  Hélt niðri í sér andanum til að sjá hvort brjóstkassinn á mömmu hennar lyftist
  Við hefjum viðtalið þar sem allt byrjaði, í október árið 1982, þegar Ella Sigga var átta ára. „Ég er langyngst; bræður mínir eru níu, sextán og átján árum eldri en ég. Mamma, sem var alltaf kölluð Laulau, var algjör kjarnakona og ól strákana í raun voða mikið upp ein því pabbi var alltaf á sjó en hann var stýrimaður og skipstjóri hjá Eimskip. Svo kom pabbi í land, hætti á sjónum, og stuttu eftir það fæddist ég og ég veit, eftir að hafa lesið dagbækur frá pabba, að komu minnar hafði lengi verið beðið. Við bjuggum í raðhúsi í Garðabæ og lífið var bara harla gott; ég á að minnsta kosti ekki aðrar minningar en þær að þetta hafi verið fínt.“

  AUGLÝSING


  Föstudagskvöldið 15. október 1982 komu Ella Sigga og móðir hennar heim eftir heimsókn til vinkonu og samstarfskonu Laulauar en faðir Ellu Siggu var í veiðiferð. „Elsti bróðir minn var fluttur að heiman og átti von á sínu fyrsta barni með eiginkonunni, miðbróðir minn var í Boston í námi og ég bjó heima ásamt yngsta bróður mínum. Hann var ekki heima þetta kvöld, gisti sjálfsagt hjá kærustunni sinni, svo við mamma vorum bara tvær og ég svaf í rúminu hans pabba. Ég heyrði í mömmu brasa eitthvað frammi áður en ég fór að sofa. Svo rumskaði ég einhvern tíma um nóttina og heyrði að mamma svaf við hliðina á mér. Seinna um nóttina rumskaði ég aftur. Mamma lá á hliðinni og sneri að mér. Ég man að mér fundust hendurnar á henni vera svo kaldar svo ég setti þær undir sængina hjá mér til að hlýja henni. Þegar ég vaknaði svo einhvern tíma um morguninn áttaði ég mig strax á því að mamma væri dáin þarna við hliðina á mér. Hún var alveg friðsæl og ég sá að hún var farin að blána í framan,“ segir Ella Sigga og þagnar um stund.

  „Ég held ég hafi samt reynt að vekja hana,“ heldur hún áfram, „og ég man eftir því að hafa haldið niðri í mér andanum til að sjá hvort brjóstkassinn á henni lyftist; hvort hún andaði. Í dag skil ég ekki hvernig ég, átta ára gömul, gat brugðist svona við. Þegar ég gerði mér grein fyrir því að mamma væri dáin fór ég fram, sótti símaskrána og fletti upp símanúmerinu hjá vinafólki foreldra minna sem bjó í sömu götu. Dóttir þeirra, sem var vinkona mín, svaraði í símann og ég sagðist þurfa að tala við mömmu hennar. Mín minning er sú að ég hafi ekki viljað gera þessa vinkonu mömmu hrædda svo ég sagðist halda að það væri eitthvað að, mamma andaði ekki og hún væri blá í framan.“

  „Meira að segja settist aldrei neinn niður með mér og sagði að mamma mín væri dáin.“

  Vinkona Laulauar kom strax yfir til Ellu Siggu ásamt eldri dóttur sinni. „Dóttir hennar tók mig út úr aðstæðunum og fór með mig heim til þeirra. Og síðan þá var bara ekkert meira með það,“ segir Ella Sigga lágri röddu. „Ég fékk ekkert að sjá mömmu aftur, fékk ekki að fara í kistulagninguna og fékk ekki að kveðja hana. Þannig var náttúrlega bara tíðarandinn, börnum var haldið utan við þetta allt saman, en auðvitað var það bara hræðilegt. Og meira að segja settist aldrei neinn niður með mér og sagði að mamma mín væri dáin. Ég sagði mér það bara einhvern veginn sjálf. Ég man að þegar ég kom heim eftir að hafa verið hjá nágrönnunum sat pabbi inni í stofu með prestinum ásamt einhverjum fleirum og pabbi grét. Þá áttaði ég mig á því hvernig staðan væri. Mamma væri dáin. En ég man ekki eftir því að presturinn hafi talað neitt við mig um þetta.“

  Alls konar hlutir látnir flakka
  Ella Sigga segist muna eftir því að hafa farið til dyra og þar hafi lögreglan verið komin að spyrja eftir föður hennar, sem hún viti í dag að sé eðlilegt þegar andlát verður í heimahúsi en sem lítil stúlka hafi hún furðað sig á því. „Þegar ég spurði pabba út í það sagði hann að það væri bara verið að rannsaka hvort þetta hefði verið morð eða eitthvað. Þessu var bara slengt svona fram og alls konar hlutir voru látnir flakka sem myndi varla gerast í dag. Ég hef oft verið rosalega sár og bitur út af þessu en ég veit að svona var þetta bara á þessum tíma og ekkert við því að gera. Nema bara læra af þessu og láta svona hluti ekki viðgangast í dag. Ég fékk að fara í jarðarförina sem var í Fossvogskirkju og kirkjan var troðfull, enda var mamma kornung kona í blóma lífsins, bara 46 ára, og þetta var allt svo sorglegt.“ Það er greinilegt að Ella Sigga kemst við og hún tekur sér stutt hlé á máli sínu.

  „Það er skrýtið, ég hef oft talað um þetta og ekki fundist það neitt mál en núna verð ég meyr. Ég held samt að það sem hafði mest áhrif á mig hafi verið þetta rof sem varð á fjölskyldunni í kjölfarið. Fjölskyldunni hefur aldrei gefist það að setjast niður og tala um þetta og pabbi hafði því miður ekki getu til að taka utan um okkur systkinin og þjappa okkur saman. Pabbi var auðvitað líka í sínum vanmætti og átti rosalega erfitt því það var líka hræðilegt fyrir hann að missa konuna sína, en hann gat ekki talað um þetta og tilfinningar sínar. Mér fannst alltaf svo erfitt að sjá pabba gráta þannig að ég reyndi alltaf að vera bara til friðs og passa upp á hann svo hann færi ekki að gráta. Ég held það sé dæmigert fyrir börn í svona aðstæðum að taka þessa ábyrgð. Og mér hefur reynst það þrautin þyngri að vinna mig út úr því.“

  „Margt sem hrærist í kollinum á litlu barni“
  Ella Sigga segist hafa fitnað töluvert eftir að mamma hennar dó og huggaði sig með mat. „Ég held reyndar að óeðlilegt samband mitt við mat hafi verið byrjað áður, en ekki í svona miklum mæli. En það að ég skyldi fitna svona sem barn, varð rosalega mikið mál á heimilinu og ég varð fyrir ótrúlega mikilli höfnun heima hjá mér út af því, bæði frá stjúpu minni og pabba.“

  Ella Sigga ásamt foreldrum sínum, Guðlaugu Pálsdóttur og Grétari Hjartarsyni.

  Hún segir að það sé einmitt þessi höfnun sem hafi reynst henni erfitt að vinna úr. Höfnunin sem hún hafi orðið fyrir á eigin heimili þar sem hún þótti ekki nógu góð af því að hún var of þung og borðaði of mikið. „Það er fáránlegt að segja það en ég fann meira að segja líka fyrir höfnun þegar mamma dó. Ég veit auðvitað að hún var ekki að hafna mér, hún bara dó, en ég var náttúrlega bara átta ára og það var enginn sem útskýrði fyrir mér hvað hefði gerst. Og það var enginn sem sagði mér að þetta væri ekki mér að kenna. Fyrsta hugsunin sem brennir sig í huga manns er: Já, hún mamma mín er náttúrlega bara farin frá mér. Það er svo margt sem hrærist í kollinum á litlu barni. Þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að halda utan um þessi börn sem við eigum og því miður hef ég ekki alltaf verið börnunum mínum sú mamma sem ég vildi vera. En það eru bara afleiðingar af því að ég er með þessa röskun, sem ég kalla tengslaröskun. Ég átti ofboðslega erfitt með að tengjast, sérstaklega dóttur minni. Undirmeðvitundin mín sagði mér bara að það borgaði sig ekki að mynda of mikil tengsl við hana, því ekki ef, heldur þegar,“ segir Ella Sigga með áherslu á þegar, „ég dey svo frá henni … þá verður þetta ekki eins erfitt fyrir hana. Geturðu ímyndað þér streituvaldinn? Árið sem elsti sonur minn, Jóhann, varð átta ára, var líka alveg skelfilegt því ég var svo hrædd um að ég væri að fara að deyja frá honum átta ára eins og ég var þegar mamma dó.“

  Hún segir að innan nokkurra vikna verði hún sjálf 46 ára, jafngömul og mamma hennar var þegar hún dó og hún sé hreinlega að vinna með það hjá sálfræðingi. „Ég óttast það ofboðslega að verða bara bráðkvödd einhvern tíma þegar ég verð orðin 46 ára. Innst inni veit ég að það eru rosalega litlar líkur á því en það breytir því samt ekki að þessi hugsun er þarna og hefur alltaf verið.“

  Þöggunin var algjör
  Í dag er sem betur fer tekið öðruvísi á málum sem snúa að sorg og sorgarviðbrögðum barna en á þeim tíma sem Ella Sigga missti móður sína. Þá var lítið hugsað um að börn fengju að ræða um tilfinningar sínar og samtök eins og Ný dögun voru ekki til. Í tilfelli Ellu Siggu var þöggunin algjör og lífið hélt bara áfram eins og ekkert hefði ískorist, þrátt fyrir að sorgin væri alltumlykjandi. Ella Sigga byrjaði að reykja tólf ára og drekka þrettán ára og segist hafa drukkið við hvert tækifæri sem gafst. Hana hafi vantað eitthvað til að fylla upp í tómarúmið í hjartanu. Matarfíknin var líka aldrei langt undan.

  „Þegar ég var undir áhrifum áfengis var ég ekki þessi litla, óttaslegna, feita stelpa. Við það að fá mér í glas lengdist ég um tíu sentimetra og léttist um þrjátíu kíló,“ segir Ella Sigga og skellir létt upp úr. „En svo brást það mér líka. Ég drakk ekki oft, því ég varð alltaf svo veik af drykkjunni og timburmönnum. Ég reyndi alltaf að minnka drykkjuna eða hætta sem gekk ekki upp því ég er auðvitað alkóhólisti og hef ekkert val. Svo ég fór í áfengismeðferð í byrjun árs 2002. Ég bara varð.“

  Mynd/Hallur Karlsson

  Ella Sigga var þá nýflutt aftur í bæinn eftir að hafa búið úti á landi í tvö ár. „Ég hafði flutt út á land til að flýja undan barnsföður mínum en málið er að á svona flótta er það maður sjálfur sem kemur fyrstur upp úr kössunum. Ég varð algjörlega stjórnlaus næstu rúmlega tvö árin og var eiginlega á stanslausu fylliríi með nýju fólki í nýjum bæ þennan tíma, og þótt það hafi svo sem verið gaman á meðan á því stóð gerði ég mig að algjöru fífli og þetta var bara alveg agalegt. Þegar ég flutti aftur í bæinn hélt ég áfram að drekka en vanlíðanin varð alltaf meiri og meiri. Jóhann, sonur minn, var þá fjögurra ára og ég man að þegar ég datt í það í síðasta sinn var hann í pössun hjá föðurömmu sinni og -afa. Ég hafði fengið smávegis pening lánaðan hjá pabba, sem ég sagðist þurfa af því að ég ætti, sannleikanum samkvæmt, engan pening en væri að fara í veislu. Ég eyddi peningnum auðvitað bara í fyllirí og dagurinn á eftir var algjörlega ónýtur. Ég átti að fara að vinna og ætlaði að biðja stelpuna sem var á vaktinni á undan að leysa mig af í nokkra klukkutíma svo ég gæti náð að sofa aðeins lengur en hún neitaði og sagði mér að ég skyldi bara mæta.“

  Ella Sigga brosir út í annað og segir að henni hafi nú fundist þetta kannski aðeins of gróft hjá samstarfskonunni en hún hafi þó mætt í vinnuna og þennan dag hafi hún ákveðið að panta sér viðtal við áfengisráðgjafa hjá SÁÁ. Í framhaldinu hafi hún farið í meðferð á Vogi og síðan séu liðin átján ár. „Ég fór samt ekki á Vog af því að ég væri alkóhólisti heldur af því að ég skuldaði svo mikið og var komin út í horn á svo mörgum stöðum. Ég ætlaði nú bara að vera þar í tíu daga og hressa mig aðeins við. En svo var ég þar í fjórtán daga meðferð og fór í framhaldsmeðferð á Vík.“

  Þegar Ella Sigga var í meðferðinni á Vogi fékk hún þær fréttir að faðir hennar, sem hafði verið á Spáni með konu sinni, hefði verið fluttur heim í skyndi með sjúkraflugi. Í ljós kom að hann var með heilaæxli og rúmum þremur mánuðum síðar var hann látinn. „Þetta gerðist alveg ofboðslega hratt. Ég veit að fjölskylda mín var ekki endilega sátt við það að ég væri í meðferð þegar hann veiktist og mörgum fannst ég rosalega eigingjörn. En af því að það talaði aldrei neinn um neitt bar ég það ekkert á torg að ég glímdi við áfengisvanda, svo fólk hreinlega vissi bara ekki betur. Þarna fékk ég hugrekki til að standa með sjálfri mér og það hefur ekki alltaf verið auðvelt en það er nauðsynlegt að þykja nógu vænt um sjálfan sig til að leyfa sér að vera í fyrsta sæti.“

  Matarfíknin öllu sterkari
  En þrátt fyrir að hafa náð að setja tappann í flöskuna, eins og Ella Sigga orðar það, var matarfíknin ekki langt undan. „Ég held að grunnurinn minn sé í matarfíkninni og þótt fíkn sé alltaf fíkn þá er matarfíknin, af tvennu illu, hundrað sinnum verri en alkóhólisminn. Ég horfi á það þannig að fíkn sem slík er eins og eldspúandi dreki. Þegar ég hætti að drekka þá var málið ekki svo flókið í sinni einföldustu mynd. Ég bara læsi þennan dreka inni í skáp og hendi lyklinum, því þessi dreki getur lifað góðu lífi inni í búrinu. En svo kemur drekinn sem matarfíknin er og ég geri nákvæmlega það sama, nema í stað þess að setja tappann í flöskuna tek ég þessar matartegundir sem eru mér skaðlegar út úr mínu mataræði. Svo læsi ég þennan dreka inni í skáp en nú get ég ekki hent lyklinum; ég verð að vera með hann um hálsinn til að hleypa drekanum út og viðra hann, því ég borða þrisvar á dag. Í þessum þremur göngutúrum þarf ég svo að passa að hann éti mig ekki með húð og hári.“

  Í dag hefur Ella Sigga verið í svokölluðu fráhaldi í næstum fimmtán ár. Hún vigtar og mælir matinn sinn þrisvar á dag og borðar ekki matartegundir sem eru henni skaðlegar. Á hverju kvöldi tilkynnir hún til sponsors hvað hún ætlar að borða næsta dag og segir að þar með sé málið úr sínum höndum.

  „Það tilkynnti mig aldrei neinn til Barnaverndar þegar ég drakk en ég var tilkynnt þegar ég var búin að vera edrú í þrjú og hálft ár því sonur minn var vanræktur, svangur og með ofboðslega hegðunarerfiðleika.“

  „Ég læt sponsorinn minn vita af matarplaninu fyrir næsta dag og svo þarf ég bara að elda og borða. Áður fyrr fór allur minn tími í að hugsa um hvað ég ætti að borða næst og plana næstu megrun. Ég var eilíflega með samviskubit og hausinn alltaf á fullu að pæla í fáránlegustu hlutum. Ég borðaði upp úr ruslinu því ég henti stundum einhverju sem ég hafði keypt og var ætlað gestum, sem reyndar aldrei komu því ég var búin að einangra mig svo mikið, en vildi ekki eiga í skápunum þegar ég tæki næstu megrun með trompi. Svo gat ég auðvitað ekki hent mat, verandi einstæð móðir og sótti hann bara í ruslið. Það tilkynnti mig aldrei neinn til Barnaverndar þegar ég drakk en ég var tilkynnt þegar ég var búin að vera edrú í þrjú og hálft ár því sonur minn var vanræktur, svangur og með ofboðslega hegðunarerfiðleika. Síðustu jólin mín í ofáti, þegar ég var búin að vera edrú í rúmlega þrjú ár, fóru vinkonur mínar með hann í Kringluna til að kaupa jólaföt á hann og jólagjafir frá honum til mín og til ömmu og afa. Ég bara var búin á því og gat ekki sinnt einföldustu verkefnum. Matarfíkn mín var öllu yfirsterkari.“

  Skömmin versti óvinur þess sem glímir við fíkn
  Ella Sigga segir að fólk átti sig ekki á því hvað matarfíkn sé ógeðslegur sjúkdómur. „Ég upplifði mig sem annars flokks af því að ég var of feit, samt náði ég aldrei að komast í sjúklega offitu. Í sinni einföldustu mynd er þetta ekki flókið. Ef kaloríur sem maður borðar eru fleiri en þær sem maður brennir þá þyngist maður. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði nýverið að í kjörheimi væri tekist á við hættuna á offitu með því að láta fólk hreyfa sig, borða hollan mat, og hugsa ekkert nema tærar, fallegar hugsanir. Ég get alveg tekið undir þessi orð Kára því mín skoðun er sú hjer sú að offita af völdum ofáts sé geðverndarmál og hömlulaust ofát sjálfskaðandi hegðun. Mín æska er mörkuð því að hver einasti matarbiti var talinn ofan í mig og ég fékk endalausar aðfinnslur varðandi þyngd mína og matinn sem ég borðaði. Þaðan kemur skömmin og leiðir af sér sjálfshatrið sem verður svo til þess að ég hugsa að ég eigi ekki neitt betra skilið svo til hvers ætti ég að reyna að borða hollari mat? Þetta hefur rosaleg áhrif á sjálfsmyndina til lengri tíma litið. Það var alltaf verið að skamma mig og þar með stimplaðist skömmin inn í mig en hún er versti óvinur þess sem dílar við fíkn. Þá byrjar feluleikurinn. Ég man til dæmis eftir því að hafa læðst inn í eldhús á kvöldin þar sem ég fyllti peysuvasana af smákökum til að fara með inn í herbergi þar sem ég gæti borðað þær í laumi.“

  Hún segir að til séu margar aðrar leiðir en sú sem hún hafi valið fyrir sína matarfíkn en hún geti varið það fram í rauðan dauðann að vandamál ofáts hafi ekkert með magann að gera. „Minn vandi með mat liggur ekki í maganum á mér og þess vegna hefur það ekkert upp á sig að krukka í hann. Nýir hausar liggja ekki svo mikið á lausu svo ég þarf að leita mér hjálpar með minn gamla. Hömlulaust ofát er geðverndarmál og við verðum að fara að sinna betur geðheilsu og umbreyta því hvernig við hugsum um okkur sjálf, til þess að finnast við vera nóg. Það eru ekki allir feitir með fíknisjúkdóm. Þetta er allt alls konar. En einhvers staðar liggur spurningin hvers vegna maður velur sér mat sem veldur manni vanlíðan og skaða. Hvers vegna leyfir maður sér ekki að borða það sem er gott fyrir mann til lengri tíma litið? Ég get því miður ekki valið það sem er betra fyrir mig á mínum eigin forsendum, þannig að ég vel að vera í mjög stífum ramma með matinn minn og þiggja hjálp frá öðrum varðandi það. En alveg eins og allt sem snýr að líkamlega þættinum, borða minna og hreyfa sig meira, þá bara er það ekki nóg. Ég vildi óska þess að það væri nóg fyrir mig að vigta matinn minn eins og ég er búin að gera í öll þessi ár, en það er fullt annað sem ég þarf að gera til að halda huglægu þráhyggjunni í skefjum, röddinni sem segir að þetta verði öðruvísi núna, að núna taki ég bara einn mola og að á morgun muni ég byrja í megrun. Sjálfsást er svarið og kærleikur annarra kemur okkur þangað.“

  „Það deyr enginn á minni vakt“
  Þegar við Ella Sigga hittumst er hún að undirbúa sig fyrir að byrja aftur að vinna eftir rúmlega árs hlé en hún er hjúkrunarfræðingur að mennt. „Ég bara krassaði. Ég hafði verið í stjórnunarstöðu í vinnunni þar sem var rosalega mikið að gera og svo hafði líka margt gengið á í einkalífinu. Það kom að því að ég gat ekki sinnt börnunum, heimilinu, vinnunni, hjónabandinu og ég vissi bara ekkert hvað ég ætti að gera. En nú er þetta allt að koma og ég komst loks á þann stað að geta farið að byggja mig upp.“

  Árið 2013 var Ella Sigga heima að þrífa þegar Jóhann sonur hennar, þá fimmtán ára, kom til hennar og sagðist vera með sáran verk í öðru eistanu og hann héldi að eitthvað væri að. „Hann sagðist eiginlega ekki hafa getað sofið neitt síðustu fjóra sólarhringa. Ég mundi eftir því að læknir hafði einhvern tíma sagt að strákum sem væri illt á þessu svæði segðu ekki mömmu sinni frá því fyrr en verkurinn væri orðinn algjörlega óbærilegur. Ég fór því með hann niður á bráðamóttöku og við þreifingu fannst strax eitthvað óeðlilegt. Í ómun kom í ljós að þetta væri illkynja æxli í eista og í sneiðmyndatöku sáust fimmtíu meinvörp í lungunum.“

  Er þetta ekki óvenju ungur aldur til að greinast með krabbamein í eista?
  „Jú, yfirleitt greinist það hjá körlum sem eru komnir yfir tvítugt. Jóhann fór nokkrum dögum síðar í aðgerð þar sem eistað var tekið og svo fór hann í lyfjameðferð sem hann varð rosalega veikur af en hann var hrikalega duglegur. Hann er algjör nagli og ég er alveg rosalega stolt af honum. Við fengum ómetanlegan stuðning frá Vigfúsi Bjarna sjúkrahúspresti sem var yndislegur og hjálpaði okkur rosalega mikið, bæði meðan á þessu öllu stóð og líka í langan tíma á eftir.“

  Ella Sigga segir þó að eðlilega hafi þetta verið hræðilegur tími og hún hafi margoft verið hrædd, þótt hún hafi vitað að þetta væri auðlæknanlegt krabbamein. „Fyrst hann þurfti að fá krabbamein, var þetta skársti kostur, ef svo má segja. En Jóhann spurði mig einu sinni hvort hann væri að fara að … Hann átti erfitt með að segja það svo ég spurði hvort hann meinti að deyja. Ég sagði að hann myndi deyja þegar væri orðinn svona 85 ára, það væri ekki í boði að deyja núna, ekki úr þessu krabbameini. Það deyr enginn á minni vakt, sagði ég, eins og ég segi gjarnan við sjúklingana mína. Ég var samt alveg ofboðslega hrædd en við komumst í gegnum þetta. Það reyndar kom aftan að mér um jólin þegar ég las eitthvað viðtal við móður barns sem hafði fengið krabbamein og allt í einu rann upp fyrir mér að það hefði í raun getað verið þannig að ég hefði ekki haft öll börnin mín hjá mér um jólin. Ég hefði getað misst barnið mitt. En það voru gleðitár sem runnu þá, af þakklæti yfir að hafa öll börnin mín hjá mér.“

  Æðri mátturinn fannst ekki án hjálpar
  Í dag segist Ella Sigga horfa björtum augum til framtíðarinnar og nefnir sérstaklega eiginmanninn, Guðmund Karl, sem hafi staðið við hlið hennar og hvatt hana áfram í sjálfsvinnunni. Hún segist einnig vera þakklát fyrir að hafa á sínum tíma, í algjörri uppgjöf með sjálfa sig, farið í meðferð á Vogi í stað þess að fara til dæmis á geðdeild.

  „Þótt ég sé alls ekki að gera lítið úr því og ég hefði örugglega þurft á því að halda á sínum tíma. Það hefði svo vel verið hægt að greina mig, leggja mig inn og setja mig á alls konar lyf en þá hefði ég ekki fengið allt það sem ég er búin að fá. Eins og til dæmis þau tengsl sem ég hef myndað við aðra í tólf spora samtökunum. Ég kem auðvitað úr brotinni fjölskyldu, með áfallastreitu, brjálæðislegt tengslarof, sjálfshöfnun og alls konar eftir mína æsku. Auðvitað var það dæmigert fyrir tíðarandann þegar mamma dó að pabbi gat ekki tekið utan um börnin sín og dílað við þetta allt saman. Sem betur fer hefur margt breyst síðan þá en fólk verður að fá hjálp og stuðning. Við erum öll með eitthvað gat inni í okkur og leitum að einhverri fyllingu fyrir það; spurningin er bara hvort hún sé í laginu eins og kleinuhringur, eins og tekílaskot, eins og spilakassi … Bara nefndu það. Svo er það einfaldlega í laginu eins og einhver æðri máttur sem var aldrei neins staðar nema inni í okkur sjálfum en við gátum bara ekki fundið hann hjálparlaust.“

  Myndir: Hallur Karlsson
  Förðun/Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is