2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þegar ég var orðin sem veikust snerist þetta ekki lengur um að verða mjó“

  Katrín Þóra Sigurbjörnsdóttir ætlaði að ná af sér nokkrum kílóum áður en hún færi að taka inntökupróf í erlendum ballettskólum. Megrunin þróaðist fljótt út í átröskunina anorexíu og undir það síðasta, áður en hún komst í bata, segist Katrín hafa verið orðin eins og gangandi beinagrind.

   

  „Ég var einhvern veginn aldrei ánægð með sjálfa mig og viðurkenning mín fór að felast í því hvað ég gæti borðað lítið,“ segir Katrín þar sem við sitjum saman á kaffihúsi í Smáralind.

  „Fyrst ætlaði ég bara að missa örfá kíló en þetta þróaðist fljótlega út í þráhyggju. Sjálf sá ég ekki alveg strax hvað var að gerast. Fyrst var ég bara rosalega ánægð með það að vera að léttast. En síðan var sama hvað ég grenntist mikið, mér fannst ég aldrei flott. Undir það síðasta, áður en ég náði að komast í bata, fannst mér ég vera orðin allt of grönn og fannst ég ógeðsleg en gat samt ekki hætt. Ég sá enga undankomuleið frá sjúkdómnum.“

  „Það fór líka ekkert fram hjá mér hvernig fólk horfði á mig.“

  Katrín segist alltaf hafa verið mikill matgæðingur og fundist gott og gaman að borða góðan mat.

  AUGLÝSING


  „Þess vegna er svo fáránlega mikil þjáning að þurfa að neyða sig til að sleppa því sem maður hefur svo mikla ánægju af. En ég fékk mat á heilann þegar ég var lasin af anorexíunni. Ég las alls konar uppskriftir og gat ekki hætt að hugsa um mat því ég var svo svöng. Og það er ömurlegt að vera alltaf svangur og vita að maður geti ekki fullnægt hungrinu því maður má aldrei borða nógu mikið til að verða saddur. Ef ég fann fyrir minnstu seddutilfinningu leið mér hræðilega og fannst ég ekki hafa staðið mig, fannst ég ömurleg og búin að klúðra öllu, því ef ég varð södd var ég auðvitað búin að missa stjórnina. Og þetta snerist fyrst og fremst um að hafa stjórn.“

  „Viðurkenning mín fór að felast í því hvað ég gæti borðað lítið.“

  Katrín segir að eftir því sem vanlíðan hennar hafi orðið meiri hafi hún farið að átta sig á því að þetta gæti ekki gengið.

  „Ég vissi að ég leit alls ekki út fyrir að vera heilbrigð, ég áttaði mig alveg á því að ég væri orðin allt, allt of mjó.“

  „Og þegar ég var orðin sem veikust snerist þetta ekki lengur um að verða mjó því ég vissi að ég leit alls ekki út fyrir að vera heilbrigð, ég áttaði mig alveg á því að ég væri orðin allt, allt of mjó og mér fannst ég ógeðsleg. Það fór líka ekkert fram hjá mér hvernig fólk horfði á mig. Alls staðar. Í skólanum, í fjölskylduboðum, í verslunum … Ég gleymi aldrei vorkunninni sem skein úr augunum á einni afgreiðslukonu í verslun þegar ég var að máta hjá henni kjól.“

  Í dag er Katrín hreystin uppmáluð og starfar sem einkaþjálfari hjá Reebok fitness. Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Myndir / Unnur Magna
  Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is