Miðvikudagur 17. apríl, 2024
3.1 C
Reykjavik

„Þeir finna alltaf leiðir til að áreita mig og beita mig ofbeldi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, segir fjölmiðla bera ábyrgð á því hvernig þeir setja æsifréttir upp og hverjar afleiðingar æsifréttanna verða. Gagnrýni sem Tara setti fram á Twitter í tengslum við forsíðuviðtal DV við Auðunn Blöndal um síðustu helgi olli fjaðrafoki þegar Hringbraut sló henni upp sem frétt á vef sínum undir fyrirsögninni Tara brjáluð yfir helgarviðtali DV við Audda Blö. Í kjölfarið fékk Tara yfir sig holskeflu fúkyrða í kommentakerfi miðilsins þar sem sett var út á útlit hennar, fötlun og holdafar. Hún segir að eðlilega líði henni ekkert alltof vel með að lesa ummælin sem hafa verið látin falla en þau staðfesti fyrir heiminum að barátta hennar eigi rétt á sér.

Eftir að Tara fór að benda á hvernig fitu- og útlitsfordómar gegnsýra samfélagið og hvernig staðalímyndum er haldið á lofti hefur hún orðið fyrir alls kyns áreiti, jafn vel aðkasti. Hún lætur það hins vegar ekki brjóta sig niður. Mynd / Hallur Karlsson

„Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að sumir líta á mig sem hlut en ekki persónu með tilfinningar,“ segir Tara, þegar hún er spurð hvernig líðan hennar sé eftir ummælin sem voru látin falla um hana á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfinu við frétt Hringbrautar áður en fjölmiðilinn lokaði á það.

„Yfirleitt leiði ég þetta hjá mér en stundum verður þetta stjórnlaust eins og um helgina og það hefur auðvitað áhrif. Það var gróflega ráðist að persónu minni, útliti, fötlun og holdafari og þegar það er svona stór hópur fólks sem leggur sig fram um að áreita mig og níða þá hefur það áhrif á öryggistilfinningu mína. Ef þú ert tilbúinn til að tala um mig af svona mikilli heift hvað gerist þá ef ég mæti þér úti á götu? Þetta er ekki bara hegðun sem á sér stað einungis á netinu þó fólk vilji halda það.“

Hefur ekkert á móti Pétri Jóhanni eða Audda Blö

En út á hvað gengu þessi umdeildu ummæli sem Tara lét falla? „Ég tjáði mig um það á Twitter að ég væri þreytt á að sjá alltaf sama forréttindafólkið aftur og aftur í helgarviðtölum fjölmiðla í stað þess að reyna að leita upp fjölbreyttari flóru fólks og fá nýja vinkla inn í umræðuna. Bara eitthvað tuð í mér eins og fólk gerir oft á Twitter,“ segir hún og andvarpar.

„Það sem gerðist í kjölfarið var að Hringbraut tók þess færslu og fjallaði um hana á vef sínum undir fyrirsögninni Tara brjáluð yfir helgarviðtali DV við Audda Blö, þrátt fyrir að ég hefði ekkert verið að tala sérstaklega um DV né þetta tiltekna helgarviðtal við Auðunn.

„Ef þú ert tilbúinn til að tala um mig af svona mikilli heift hvað gerist þá ef ég mæti þér úti á götu?“

- Auglýsing -

Ég tók það vissulega fram í umræddri færslu að menn eins og Auðunn Blöndal og Pétur Jóhann tækju mikið pláss í fjölmiðlum,“ viðurkennir hún, „en það eru svo sem engar fréttir. Ég hef ekkert persónulega á móti þeim, en mér finnst áhugaverðara fólk þarna úti til að fá í helgarviðtöl og ég hlýt að mega hafa og tjá þá skoðun.“

Fordæmir vinnubrögð Hringbrautar

Tara fer ekki leynt með þá skoðun að með fréttinni og framsetningunni á henni hafi Hringbraut gert hana að skotspóni reiðra netverja. Fjölmiðillinn hafi snúið út úr orðum hennar og leyft „viðbjóðnum að grassera í kommentakerfinu“, eins og hún orðar það. Þegar Tara benti á þetta í Facebook-grúppunni Fjölmiðlanördar voru margir sem tóku undir með henni í athugasemdum, á meðan öðrum fannst viðbúið og eðlilegt að hún fengi á sig harða gagnrýni. Það væri bara fylgisfiskur þess að tjá sig opinberlega.

- Auglýsing -

„Þetta er bara fyrirsláttur til að réttlæta það ofbeldi sem ég og margar aðrar jaðarsettar konur verðum fyrir,“ bendir hún á. „Þetta tvít hafði ekkert fréttagildi né átti það eitthvað sérstakt erindi við almenning. Þetta voru bara mínar pælingar og skoðanir. Ég er ekki í ábyrgðarstöðu innan fjölmiðils né í stjórnmálum þar sem ég get haft áhrif á ritstjórnir fjölmiðla eða hvaða viðmælendur þeir velja í helgarviðtöl. Ég hef ekkert ritstjórnarvald neins staðar. Ef svo væri hefði þetta svo sannarlega verið fréttnæmt og gagnrýnisvert af mér. Ég var ekki heldur að tala fyrir þá hópa eða félagasamtök sem ég tala stundum fyrir,“ segir hún og vísar þar í Samtök um líkamsvirðingu sem hún er í forsvari fyrir.

„Eini tilgangur Hringbraut var að fá smelli því það er hópur fólks þarna úti sem veit fátt skemmtilegra en taka mig fyrir og áreita mig annaðhvort beint í einkaskilaboðum eða símtölum eða óbeint á samfélagsmiðlum og í kommentakerfinu. Með því að túlka tvítið og setja fyrirsögnina upp á þann veg sem þeir gerðu var þessi hópur æstur upp í beita mig ofbeldi,“ segir hún ákveðin, „og með því að gefa kommentakerfið frjálst á þann veg sem var gert þarna eru Hringbrautarmenn meðsekir með ofbeldismönnunum.“

Tara hefur um árabil barist gegn fordómum og mismunun á grundvelli holdafars. Hún er í forsvari fyrir Samtök um líkamsvirðingur og heldur meðal annars úti svokölluðu Fitufordómaalbúmi á Facebook, albúmi með skjáskotum af ýmiskonar fitufordómum og fordómafullum athugasemdum sem hafa orðið á vegi hennar um internetið. Mynd / Hallur Karlsson

Fjölmiðlar beri ábyrgð

Tara segir að fullt af fólki lesi einungis fyrirsagnir og myndi sér skoðun út frá þeim og fyrirsagnir hafi mikil áhrif í að móta upplifun og túlkun lesanda af fréttum. Fjölmiðlar séu vel meðvitaðir um þetta vald sitt. „Í því samhengi vill ég taka fram að á því tímabili frá því að ég sendi út tvítið á laugardags-morgni og þar til Hringbraut gerði fréttina um tíuleytið sama kvöld vakti það alveg athygli á Twitter en ekkert bar á skítkasti. Það var ekki fyrr en eftir að fréttin birtist sem það byrjar og enn er lítið sem ekkert um athugasemdir við tvítið sjálft heldur var það mest í kommentakerfinu við fréttina. Þetta var í alvörunni ekkert merkilegt tvít eða einu sinni merkileg skoðun þar til Hringbraut setur það í þann búning.“

Hún telur fjölmiðla líka bera ábyrgð á sínum „platformum. Þeir beri ábyrgð á því hvernig þeir setja æsifréttir upp og hverjar afleiðingar æsifréttanna verða. Þeir beri líka ábyrgð á að hafa „hemil á kommentakerfum sínum“ ef ákveðið er að hafa þau opin á annað borð. „Opin kommentakerfi eru ekki náttúrulögmál,“ bendir hún á. „Að ætla að setja ábyrgðina á mig er ekkert annað en þolenda-skömmun.“

Ekki viðkvæm fyrir því að vera minnt á eigin forréttindi

Ekki nóg með að einhverjir telji að Tara hafi réttilega kallað yfir sig reiði netverja með fyrrnefndri Twitter færslu, heldur finnst sumum að hún hafi sjálf gerst sek um fordóma, fordóma í garð hvítra miðaldra karla með því að segjast vera orðin „þreytt á hvítum, miðaldra forréttindaköllum sem fá forsíðuplássið hverja helgina á fætur annarri hjá öllum fjölmiðlum“. Hvað finnst henni um þá túlkun? „Ég skil það vissulega að einhverju leyti en það er vegna þess hve skammt við erum á veg komin með umræðu um forréttindi og jaðarsetningu. Það að segja að einhver hafi forréttindi er ekki móðgun eða skot á viðkomandi,“ segir hún og nefnir í því samhengi að sjálf njóti hún mikilla forréttinda í sínu lífi og sé ekki viðkvæm fyrir því að vera minnt á það. Þvert á móti finnst henni það nauðsynlegt.

„Opin kommentakerfi eru ekki náttúrulögmál. Að ætla að setja ábyrgðina á mig er ekkert annað en þolenda-skömmun.“

„Sem samfélagshópur njóta hvítir, miðaldra karlmenn hvað mestra forréttinda af öllum samfélagshópum. Sem samfélagshópur hafa þeir langmest völd og þeir hafa dagskrárvaldið í nútímasamfélagi,“ heldur hún áfram en tekur fram það sé ekki þar með sagt að karlar úr þessum hópi hafi aldrei gengið í gegnum erfiðleika eða orðið fyrir fordómum og jaðarsetningu. „Þeir hafa bara ekki orðið fyrir fordómum og jaðarsetningu á grundvelli kyns síns eða litarafts. Til þess að einhver geti orðið fyrir mismunun þarf að ríkja valdaójafnvægi þar sem annar aðilinn er valdameiri en hinn og beitir því valdi í þeim tilgangi að mismuna. Ég sem fötluð, feit kona hef ekki það vald og hef engan áhuga á að hafa það.“

Skotspónn dæmdra nauðgara og glæpamanna

Tara hefur um árabil barist gegn fordómum og mismunun á grundvelli holdafars og er einn forsprakki Samtaka um líkamsvirðingu. Samtökin voru stofnuð árið 2012 af hópi kvenna sem kynntust í gegnum skrif á netinu og höfðu svipaðar skoðanir á almennri orðræðu um líkamsímynd og líkamsvirðingu. Eftir að Tara fór að tjá sig opinberlega um þessi málefni og meðal annars benda á hvernig fitu- og útlitsfordómar gegnsýra samfélagið og hvernig staðalímyndum er haldið á lofti hefur hún orðið fyrir alls kyns áreiti, jafn vel aðkasti. Spurð hvort henni hafi beinlínis borist hótanir vegna baráttu sinnar segir hún að beinar hótanir hafa hingað til einungis verið í formi hótana um lögsóknir sem síðan aldrei berast. „Ég upplifi þó að vegið sé verulega að öryggistilfinningu minni þegar stór hópur fólks, aðallega karlar, safnast saman á þennan hátt til að tala um hvað þeim finnst ég ógeðsleg og mikið úrhrak og að ég eigi allt illt skilið,“ segir hún og á þar við umræðuna sem hefur skapast um hana á netinu.

„Þessir karlar læka og deila á milli sín kommentunum og hreykja sér af þeim. Sumir hafa sagt beint við mig að þeir hafi gaman af því að áreita mig. Einn sagðist til dæmis vera stoltur þegar ég benti honum á að internettröll sýni tilhneigingu til siðblindu.“

Tara segir að oft gangi þetta svo langt að dæmi séu um að þessir karlar hafi jafn vel velt fyrir sér hvað þeir vilji gera við hana og það fyrir allra augum í kommentakerfum fjölmiðla. „Ég hef séð hóp af dæmdum nauðgurum og glæpamönnum tagga hvorn annan og mig í umræðu á Facebook-síðu Vísis um að þeir vilji taka mig í Bukkake, sem er athöfn þar sem margir karlar sprauta sæði yfir konu,“ lýsir hún.

„Annar hefur talað um að vilja „face-fokka“ mig til að fá mig til að þegja. Í gær var enn komment á Facebook-síðu Hringbrautar við fréttina um viðbrögð mín við forsíðuviðtali DV þar sem maður nokkur sagði að ég þyrfti að fá lim og aðrir karlar hlógu að því að það fyndust ábyggilega ekki sjálfboðaliðar til þess.“

Fékk óhugnanlegt símtal

Tara segir að þetta virki stundum á hana sem einhverskonar leið til tengslamyndunar karla á milli þegar þeir deila færslum af þessu tagi inni á grúppum á netinu og eiga þar samræður um hana. „Þetta kemur svo sterkt inn á málefni sem er mér svo hugleikið og ég skrifaði grein um í Flóru í síðustu viku, en hún fjallar um ofbeldið sem feitar konur verða fyrir vegna þeirra hlutgervingar sem þær verða fyrir af hálfu samfélagsins og að feitum þolendum kynferðisofbeldis sé síður trúað því að þær séu of óaðlaðandi til að nokkrum dytti í hug að nauðga þeim.“

Tara segist fá endalaus neikvæð skilaboð á Facebook sem hún reyni að hunsa eftir fremsta megni. Áreitið byggist þó ekki eingöngu á netníði. „Í maí náði maður undir nafnlausum prófíl að hringja í mig í gegnum Messenger og öskraði á mig í tvær mínútur um hvað ég væri ógeðsleg, viðbjóðsleg og mikil byrði á skattkerfinu,“ nefnir hún sem dæmi. „Ég ætti allt illt skilið því hann vissi ekki um neitt ógeðslegra.“

„Þrátt fyrir að ég sé einhver „opinber persóna“ þýðir það ekki að ég sé þar með bara einhver hlutur fyrir fjölmiðla til að brúka fyrir smelli.“

Áreitið sé búið að vera svo mikið að hún hafi ekki þorað öðru en að láta fjarlægja allar persónulegar upplýsingar um sig á netinu. Hún vilji ekki taka neina sjensa. „Ég lét afskrá mig á já.is svo að það er ekki hægt að finna símanúmer mitt né heimilisfang og ég lét líka taka bílnúmerið mitt af skrá svo það sé ekki hægt að fletta því upp og finna heimilisfangið mitt í gegnum það,“ segir hún. „En það dugir ekki til. Þeir finna alltaf leiðir til að áreita mig og beita mig ofbeldi. Það eru raunverulegar og áþreifanlegar afleiðingar af þessari orðræðu og við getum ekki lengur litið fram hjá þeim.“

Ekki bara hlutur til að brúka smelli

Tara telur að þarna hafi fjölmiðlar mikilvægu ábyrgðarhlutverki að gegna og þeir geti klárlega bætt sig. „Ekki spurning. Til að byrja með má kannski spyrja sig hver tilgangurinn er með svona æsifréttum,“ nefnir hún, „hvort þær hafi raunverulegan tilgang og eiga erindi við almenning? Ef sú er niðurstaðan þá finnst mér lágmark að haft sé samband við einstaklinginn sem um ræðir.“

Hún segir að sem dæmi hafi Hringbrautarfréttin um fyrrnefnd ummæli hennar á Twitter verið í loftinu í 18 klukkustundir áður en hún vissi yfirhöfuð af henni. „Ef það hefði verið haft samband við mig hefði þessi fyrirsögn aldrei orðið til ásamt ógeðinu sem henni fylgdi. Það má líka aðeins staldra við og íhuga hverjar afleiðingarnar eru fyrir einstaklinginn. Þrátt fyrir að ég sé einhver „opinber persóna“ þýðir það ekki að ég sé þar með bara einhver hlutur fyrir fjölmiðla til að brúka fyrir smelli.“

Talað fyrir daufum eyrum

Tara segir að fjölmiðlar sem stundi svona vinnubrögð viti nákvæmlega hvað þeir séu að gera enda séu þessar „fréttir“ ávallt undir nafni ritstjórnar. „Fjölmiðlar hafa meira að segja gengið svo langt að bjóða einum áreitara mínum í útvarpsviðtal í þeim eina tilgangi að tala um mig og það þrátt fyrir að ég hafi áður átt prívat samtal við einn þáttastjórnandann um viðkomandi einstakling þar sem hann fordæmdi hegðun hans.“

Að mati Töru er ekki í boði að „leiða þetta bara hjá sér“ þegar hlutirnir eru komnir á þetta stig, eins og svo margir hafi ráðlagt henni að gera í góðri trú. „Ég og fleiri þolendur þessar tegundar ofbeldis höfum margoft reynt að vekja upp umræðu um afleiðingarnar af svona háttalagi og að þær hafi áþreifanleg áhrif á okkur,“ bendir hún á. „Hingað til höfum við talað fyrir daufum eyrum.“

Óskaði svara frá Hringbraut

Hvað varðar aftur fréttina á Hringbraut, þá segist Tara hafa sent stjórnendum vefsíðunnar skilaboð og spurt hver pælingin væri með því að birta frétt um tvítið hennar með „villandi og gildishlaðinni fyrirsögn“, eins og hún orðar það. Fékk hún einhvern tímann svör við þeirri spurningu? „Nei, ég hef ekkert heyrt frá þessum aðilum. Þeir upplifa mig og fleiri konur sem þeir taka svona fyrir sem jafn mikla hluti og virkir í kommentakerfunum. Við þjónum eingöngu þeim tilgangi að hala inn smellum.“

Hún tekur fram að á endanum hafi Hrinbraut lokað fyrir kommentakerfið við fréttina. „En það liðu tveir sólarhringar frá því fréttin var sett í loftið og næstum heill sólarhringur frá því ég hafði beint samband við umsjónarfólk síðunnar þar til það var gert. Það var ekki fyrr en umræða hafði myndast inn á Fjölmiðlanördum sem næg pressa myndaðist til að þeir lokuðu.“ Hún bætir við að enn sé þó hægt að kommenta við fréttina á Facebook-síðu Hringbrautar og þar fái viðbjóðurinn að grassera.

„En það sem þessir karlar átta sig ekki á er að þeir eru að staðfesta fyrir öllum heiminum að baráttumál mitt á rétt á sér.“ Mynd / Hallur Karlsson

Staðfesting á því að baráttan eigi rétt á sér

Tara er búin að standa í sinni baráttu í nokkurn tíma, mörg ár svo farið sé með rétt mál og því er ekki úr vegi að spyrja í lokin hvort hún sé aldrei að því komin að missa móðinn, hvort hún sé hreinlega aldrei að því komin að gefast upp á þessu öllu saman? „Ég fæ alltaf nóg inn á milli,“ játar hún, „og tek mér þá hvíld.

En það sem þessir karlar átta sig ekki á er að þeir eru að staðfesta fyrir öllum heiminum að baráttumál mitt á rétt á sér. Flest fólk sem hefur kannski efast um minn málstað þarf ekki nema að renna einu sinni yfir kommentakerfin til að sjá hvernig fitufordómar og kvenhatur lifir góðu lífi,“ segir hún ákveðin. „Kommentakerfið er því ekki að fara að stöðva mig í bráð.“

Myndir / Hallur Karlsson
Förðun / Elín Hanna förðunarfræðingur Urban Decay

Sjá einnig: Hefur ekkert á móti Pétri Jóhanni eða Audda Blö

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -