• Orðrómur

„Þekki þó nokkuð marga plöntunörda“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kristín Snorradóttir hefur unnið við garðyrkju í 14 ár, eða frá því að hún var 16 ára. Hún hefur alltaf haft áhuga á garðyrkju en líka tölvum og listum. Henni hefur tekist að sameina áhugamálin þar sem hún býr til falleg plaköt með plöntum og samhliða lætur hún gott af sér leiða.

Íslenskur gróður prýðir plakötin sem Kristín gerir. Spurð út í hugmyndina á bak við myndirnar segir Kristín að hugmyndin hafi kviknað í fyrrasumar.

„Mig hefur lengi langað til að ná að læra að greina íslensk tré, runna og blóm auðveldlega og þar sem ég er með svo myndrænt minni þá langaði mig til að geta verið með allar tegundirnar beint fyrir framan mig til þess að læra þetta almennilega,“ útskýrir Kristín.

- Auglýsing -

„Það eru engin takmörk fyrir því hvaða tegundir ég vinn með og markmiðið er að koma með nýjar tegundir á hverju ári og bæta hægt og rólega í safnið,“ segir Kristín.

Hún segir myndirnar ekki bara vera hugsaðar sem námsefni fyrir sig heldur geta þær lífgað upp á hvaða heimili sem er. „Ég vildi ekki að þessar myndir væru einungis fyrir mig, þess vegna setti ég þær í sölu og þannig geta fleiri átt möguleika á að læra af þeim. Svo eru þær líka bara flottar inn á hvert heimili.“

Stressandi að greina plönturnar

- Auglýsing -

Aðspurð hvernig verkin eru unnin segir Kristín fyrsta skrefið vera að finna hentuga plöntugrein. „Ég byrja á því að finna flotta grein sem hefur einhverja af þeim eiginleikum sem plantan er þekktust fyrir. Ég stilli greininni síðan upp án þess að hafa of mikil áhrif á náttúrulegt vaxtarlag hennar, þannig að allir eiginleikar hennar njóti sín sem best. Síðan tek ég myndir af greinunum og vinn myndirnar í tölvu,“ útskýrir Kristín.

„En ég breyti myndunum ekkert, heldur snýst tölvuvinnslan aðallega um litastillingu og uppsetningu, þar nýtist vel nám mitt í margmiðlun,“ segir Kristín um myndvinnsluna.

„Að lokum þarf ég auðvitað að greina tegundina til þess að rétt nafn fari alveg pottþétt á hverja mynd. Það er að mest stressandi parturinn en ég þekki þó nokkuð marga plöntunörda til að spyrja ef ég er ekki 100% viss.“

„Ég er svo enn með safn af alveg æðislegum plöntutegundum sem ég á eftir að setja í sölu.“

- Auglýsing -

Kristín á erfitt með að velja sína uppáhaldsmynd úr myndaröðinni sem hefur núna að geyma 10 myndir og fer ört stækkandi. „Ég held upp á allar myndirnar en ef ég yrði að velja eina þá myndi ég velja Stóraburkna. Það er vegna þess að hugmyndin að þessu verkefni kviknaði út frá því að ég var að dunda mér við að teikna burknaplöntur, fótbrotin heima hjá mömmu og pabba. Ég er svo enn með safn af alveg æðislegum plöntutegundum sem ég á eftir að setja í sölu.“

Ein mynd samasem eitt tré

Fyrir hverja mynd sem Kristín selur verður eitt tré gróðursett til uppbyggingar skógarauðlindum Íslands.

„Mig langaði að gefa eitthvað af mér og mér fannst þessi lausn vera viðeigandi fyrir verkefnið. Pabbi minn kemur að þessu verkefni með mér og á hverju ári munum við gróðursetja jafnmörg tré og við höfum selt í samstarfi við skógræktarfélög. Þetta árið munum við gróðursetja fyrir Skógræktarfélag Hveragerðis en ég hef fundið fyrir miklum áhuga hjá viðskiptavinum gagnvart þessu,“ segir Kristín sem selur myndirnar á vef sínum og í Flóru í Hveragerði og Garðheimum.

„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Það er komið rúmlega ár síðan ég bjó til fyrstu myndirnar og fólk er að frétta af þessu hægt og rólega. Til að byrja með var ég með alla söluna á vefversluninni minni en núna nýlega eru myndirnar komnar í sölu bæði í Flóru í Hveragerði og Garðheimum, sem en náttúrlega bara æðislegt.“

Áhugasamir geta fylgst með þessu verkefni Kristínar á samfélagsmiðlum undir @torfkofinn.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -