2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þetta er alltaf spurning um að tilheyra“

  Félagsráðgjafinn Ragnheiður Lára Guðrúnardóttir hefur alla tíð brunnið fyrir málefnum barna, sérstaklega þeirra barna sem eiga foreldra á tveimur heimilum, en sjálf var hún barn í flóknum umgengnisaðstæðum og man vel eftir tilfinningunum sem tengdust því að fara frá móður sinni á Akranesi til föður síns í Reykjavík.

   

  Ragnheiður Lára hefur undanfarin fjögur ár starfað sem sérfræðingur í málefnum barna hjá sýslumanni og er nú að fara af stað með sértæka þjónustu fyrir foreldra og börn sem búa á tveimur heimilum. Hún hefur góða innsýn í málefnið því auk starfsreynslu sinnar og eigin reynslu úr æsku hefur sonur hennar búið á tveimur heimilum síðustu sjö árin.

  „Þegar fólk skilur er svo margt í gangi,“ segir Ragnheiður Lára. „Foreldrar eru að reyna að gera sitt besta og vilja raska lífi barnsins sem minnst og margir velja þess vegna að hafa umgengni nokkuð jafna svo barnið geti verið með báðum foreldrum. En skilnaðurinn sjálfur er bara byrjunin og upphafið að öllu því sem koma skal. Fólk þarf að finna út úr því hvernig það er hægt að sinna foreldrahlutverkinu saman án þess þó að vera í parasambandi. Foreldrar þurfa að hafa innsæi í upplifun barns við þessar aðstæður og vanda vel til verka. Svo geta aðstæður barnsins breyst með tímanum og eitthvað sem var ákveðið hjá sýslumanni við skilnaðinn hentar kannski ekki einhverjum árum síðar. Það getur verið mismunandi eftir þroskaskeiði barnsins og aðstæðum foreldra.“

  „Skilnaðurinn sjálfur er bara byrjunin og upphafið að öllu því sem koma skal.“

  Ragnheiður Lára segist sjálf hafa farið svolítið á hvolf þegar hún skildi fyrir átta árum síðan. „Og sonur minn sýndi alls konar hegðun í aðstæðunum sem ég áttaði mig ekki á að var einfaldlega hans leið til að losa sig við spennuna sem fylgdi því að fara á milli heimila. Hann þurfti að fá staðfestingu á því að við pabbi hans elskuðum hann enn þrátt fyrir skilnaðinn. Ég er reyndar svo ótrúlega lánsöm að eiga frábæran barnsföður og okkur hefur tekist að haga foreldrasamstarfinu okkar vel. Við ákváðum strax í byrjun að barnið okkar ætti heima í ákveðnu hverfi og við þyrftum að haga okkar lífi út frá því. Við skuldbundum okkur að gera þetta saman; að ala upp barnið okkar í sameiningu. Það hefur skilað sér í því að í dag erum við góðir vinir, búum í sömu götu átta árum síðar og ég er þakklát fyrir það að hafa hann í lífi mínu. Við erum bæði komin í önnur sambönd. Ég er gift á ný og með tvö börn til viðbótar þessu þriðja sem flakkar á milli heimila.“

  AUGLÝSING


  Flóknar aðstæður
  Ragnheiður Lára þekkir það sjálf af eigin raun að fara sem barn á milli tveggja heimila. Hún fæddist á Akranesi árið 1986 en þangað hafði móðir hennar flust frá Reykjavík þegar hún fékk starf þar sem grunnskólakennari. Á Akranesi kynntist móðir Ragnheiðar Láru barnsföður sínum sem var líka kennari en sambandið stóð stutt.

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  „Ég hef alltaf sagt að ég sé svona árshátíðarbarn,“ segir Ragnheiður Lára kímin, „en ég held að vísu að það hafi nú verið eitthvað aðeins meira á milli þeirra en það. Mamma var 29 ára þegar hún varð ófrísk að mér og ég veit að hana hafði alltaf langað að eignast barn en hún þurfti þó svolítinn umhugsunartíma áður en hún tók ákvörðun um að ég skyldi fæðast. Mér hefur verið sögð sagan af því þegar hún lagðist undir feld heila helgi hjá ömmu í Reykjavík til að íhuga hvort hún ætti að eignast mig. Fjölskyldan hennar mömmu bjó öll í Reykjavík svo hún átti ekki bakland á Akranesi þannig lagað séð þótt hún ætti reyndar góða vini og samstarfsfélaga sem áttu eftir að reynast henni og okkur vel. Þetta voru flóknar aðstæður. En mamma var mjög sjálfstæð, drífandi og ákveðin kona og tók þá ákvörðun að eiga mig og ala mig upp.“

  Ragnheiður Lára segist telja að faðir hennar hafi viljað standa sína plikt en móðir hennar hafi sem sjálfstæð kona eflaust ekki séð fyrir sér að hafa hann með í myndinni. Og það sé líklega grunnurinn að því að ekki hafi verið mikið samstarf milli foreldranna í uppeldi dótturinnar. „Kannski var pabbi heldur aldrei alveg viss um sitt hlutverk í þessu öllu saman. Hann var ekki viðstaddur fæðinguna, móðuramma mín var viðstödd, og fór ekki með mömmu í neinar mæðraskoðanir eða neitt slíkt, en kom í heimsókn. Ég held að þetta hafi bara verið dálítið flókið og þau bæði að reyna að feta sig áfram í þessu nýja hlutverki undir þessum sérstöku, og jafnvel dálítið óþægilegu, kringumstæðum. Þá hafi tíðarandinn ekki boðið upp á fjölskyldumynstur foreldra sem ekki búa saman og því lítið hægt að sækja í reynslu annarra um hvernig best væri að haga hlutunum.“

  Man helst skörpu skilin á milli heimilanna
  Faðir Ragnheiðar Láru bjó fyrst um sinn í Keflavík og hún segir hann því ef til vill ekki hafa haft tök á því að annast hana eins mikið og hann hefði kannski viljað fyrstu mánuðina. Hann fluttist svo til Reykjavíkur og eignaðist konu og börn. Ragnheiður segir fjarlægðina milli Akraness og Reykjavíkur hafa verið heilmikla fyrir lítið barn á þeim tíma, enda engin Hvalfjarðargöng komin og hún þurfti að taka Akraborgina á milli Akraness og Reykjavíkur.

  „Auk þess var ég alveg skelfilega sjóveik sem var hvorki að auðvelda hlutina né gera upplifunina jákvæðari. En það sem ég man einna helst er hversu skörp skilin á milli heimilanna voru. Það var svo greinilegt hjá pabba að þar tengdist mamma heimilinu ekki neitt þannig að þegar ég var að fara frá henni þurfti ég einhvern veginn að slíta tengslin við hana. Og það var erfitt. Ég var mjög háð mömmu og gæti mögulega greint sjálfa mig með einhvers konar aðskilnaðarkvíða. Ég vildi til dæmis bara sofa upp í hjá henni; ég vildi alltaf vera hjá henni og aldrei fara í sumarbúðir eða neitt svoleiðis. Ef ég átti að fara í pössun á meðan mamma var að fara á fund þá vildi ég frekar fara með henni á fundinn og sitja þar og þegja í tvo klukkutíma heldur en fara í pössun.“

  Erfitt að upplifa sig ekki tilheyra heimilinu og fjölskyldunni
  Ragnheiður Lára segir tilfinninguna að fara á milli heimila móður sinnar og föður helst minna á það hvernig sé að byrja að vinna á nýjum vinnustað. „Maður veit ekki alveg hvernig hlutirnir eru og verða á nýja staðnum, hvar maður á að vera, við hvern maður á að tala og hefur ekki þessa öryggistilfinningu. Ég var þess vegna alltaf dálítið óörugg þegar ég var að fara til pabba. Samt þótti mér vænt um pabba minn og hann var alltaf mjög góður við mig. Konan hans var líka góð við mig og stundum var ég spennt fyrir að fara til hans en stundum vildi ég það bara alls ekki, því það var svo gott að vera hjá mömmu. Öryggið mitt var hjá mömmu.“

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Auk þess segir Ragnheiður Lára það hafa verið erfitt að upplifa sig ekki tilheyra heimili og fjölskyldu föður síns. Hún hafi fundið að hún hafi ekki átt stað þar þótt faðir hennar hafi alltaf gefið henni skýrt til kynna að hún væri barnið hans og henni hafi ekki liðið eins og hann elskaði hana minna en systkini hennar. „En ég átti ekki rúm hjá honum, kannski eðlilega því ég kom svo sjaldan, ég átti ekki stað við matarborðið og það voru engar myndir af mér í ramma með þeim. Ég veit að þetta var ekki illa meint en þetta er mjög dæmigert í svona aðstæðum og það sem barn dregur inn; það hugsar að það sé ekki hluti af þessari heild og hvað það sé þá? Ég, eins og önnur börn í þessari stöðu, var alltaf að reyna að staðsetja mig þarna inni á heimilinu. Ég man að ég fékk einhvern tíma náttkjól sem ég átti að eiga hjá pabba og ég man ennþá hvað mér fannst það geggjað.“ Hún þagnar um stund áður en hún heldur áfram: „Þetta er alltaf spurning um að tilheyra. Mér fannst ég líka skera mig úr á heimilinu. Systkini mín voru svo fínleg og sæt á meðan ég upplifði mig stóra og þybbna, þau áttu alltaf afgang af laugardagsnamminu sínu á meðan ég kláraði mitt strax og þau sóttu sunnudagaskólann og blótuðu ekki á meðan ég gerði það,“ segir Ragnheiður Lára og brosir út í annað.

  „En það sem gerist hjá barni í svona aðstæðum er að það fer að leita skýringa fyrir aðstæðum sínum hjá sjálfu sér. Þannig upplifði ég að ég væri ekki nógu góð eða nægjanlega verðug til að vera partur af þessari fjölskyldu. Mér fannst eins og ég hlyti bara að vera verri manneskja af því að ég var öðruvísi, skar mig úr og fann fyrir höfnun. Það fylgdi mér mjög lengi að finnast ég einhvern veginn ekki nógu góð. Þegar ég var yngri var ég með lítið sjálfsálit og ég var oft lítil í mér. Ég tengi það við þessa upplifun þótt maður viti auðvitað ekki hvort kom á undan; eggið eða hænan. En það er vont að alast upp við þessa höfnun og fá ekki að taka fullan þátt í lífinu með fjölskyldunni sinni. Ég tek það samt fram að ég kenni engum um. Þetta voru bara aðstæðurnar sem sköpuðust, samfélagsgerðin og blanda af alls konar hlutum á þessum tíma.“

  Bauð pabba sínum að láta þetta gott heita
  Aðspurð hvernig samband þeirra feðgina sé í dag svarar Ragnheiður Lára að það sé ekkert samband á milli þeirra. „Ég breytti eftirnafninu mínu í Guðrúnardóttir þegar ég var tvítug og byrjaði í Háskólanum. Mér fannst það nokkurs konar leiðrétting fyrir mig; ég er vissulega dóttir hans pabba rétt eins og ég var dóttir hennar mömmu áður en ég breytti nafnu. En mamma eignaðist bara mig og við vorum alltaf tvær, þangað til ég eignaðist stjúppabba seinna meir. En eftir nafnabreytinguna urðu samskiptin okkar pabba dálítið flókin og árið 2012 lést föðuramma mín og samskiptin urðu eitthvað skrýtin í kringum það svo ég bauð honum bara að láta þetta gott heita. Og svoleiðis hefur það verið síðan. En vissulega er þetta eitthvað sem situr alltaf í manni; þetta er auðvitað manneskja sem mér þykir ótrúlega vænt um en grunntengingin er því miður ekki meiri en þetta.“

  „Ég tek það samt fram að ég kenni engum um.“

  Ragnheiður Lára segist vera mömmu sinni ótrúlega þakklát fyrir að hafa ekki látið undan þegar hún bað um að fara ekki til pabba síns. „Mömmu þótti mikilvægt að ég héldi tengingunni við hann og það er auðvitað gríðarlega mikilvægt. Ég fékk tækifæri til að kynnast pabba og fjölskyldunni hans; ég fékk að sjá hvaðan ég kem, ég er lík pabba mínum í útliti og margt í fari okkar er líkt, ég veit hver hann er og að hann er góður maður. Það eru engin særindi eða neitt slíkt. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort það ætti ekki að vera einhver sársauki við að það að vera ekki í samskiptum við foreldri sitt og hef reynt að grafa eftir einhverju en það er ekki svo. Það hefur bara verið mikill kærleikur og væntumþykja; til pabba, konunnar hans og systkina minna.“

  Myndirðu vilja breyta einhverju í dag?
  „Ef ég gæti farið til baka og breytt einhverju þá hefði ég viljað að pabbi hefði haft tök á því að vera meiri þátttakandi í mínu lífi. Að hann hefði farið með í mæðraskoðanir, sónar og hann hefði verið með í fæðingunni ef mamma hefði viljað það. Ég hefði líka viljað að pabbi hefði getað verið meira á heimilinu að annast mig fyrstu vikurnar og hann hefði þekkt minn félagslega hring, hann hefði þekkt vini mína, keyrt mig í skólann, farið í kennaraviðtöl og tekið þátt í bekkjarkvöldum og þessum hversdagslegu hlutum. Hann hafði litla sem enga tengingu við hversdagslega lífið mitt. Allt mitt líf var hjá mömmu en ég rétt fór í heimsókn til pabba og á meðan rauf ég tengslin við minn hversdagslega raunveruleika, skilurðu? Ég vildi líka óska að ég hefði fengið að kynnast vinum systkina minna og getað tekið meiri þátt í þeirra lífi. Það hefði verið frábært og þá hefði ég kannski átt þessi tengsl við þau sem ég þráði. Þetta var líka flókin staða að því leyti að ég vildi ekki fara eða vera lengi hjá pabba, hann hafði þá heldur ekki kost á því að mynda meiri tengsl við mig því ég bauð ekki upp á það. Það má því segja að þetta hafi verið orðin hringrás; ég vildi ekki fara til pabba því mér fannst ég ekki tilheyra en ég tilheyrði kannski ekki því ég vildi ekki vera hjá honum.“

  Barn fái tækifæri til að þekkja foreldri sitt og uppruna
  Ragnheiður Lára hefur síðastliðin fjögur ár starfað sem sérfræðingur í málfefnum barna og sem sáttamaður hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og segir það vissulega sérstakt að vinna í þessum geira með sína reynslu úr æskunni. „Eitt af mínum hlutverkum er að hafa eftirlit með umgengni og þegar ég kem að máli þar sem barn hefur ekki hitt foreldri sitt í langan tíma og ég er að undirbúa barnið undir það, þá spyr ég sjálfa mig hvernig ég geti verið að styðja barn í að hitta foreldrið þegar ég sjálf kýs að hitta ekki mitt. En það er mikilvægt að barn fái tækifærið til að þekkja foreldri sitt og uppruna sinn en geta svo seinna valið um það hvað það vilji gera.“

  „Sonur minn sýndi alls konar hegðun sem ég áttaði mig ekki á að var einfaldlega hans leið til að losa sig við spennuna sem fylgdi því að fara á milli heimila.“

  Hún segir rannsóknir sýna að eftir skilnað séu foreldrar mikið til að lenda í sömu gryfjunum, til dæmis varðandi ákvarðanatöku, samskipti og eigur barnanna. „Fólk leitar til sýslumanns þegar það óskar eftir breytingu á til dæmis umgengni, lögheimili eða forsjá en oft er það bara yfirborðsvandi. Vandamálið er ekki endilega að umgengni eigi að vera frá föstudegi til þriðjudags en ekki frá föstudegi til mánudags. Vandamálið eru samskiptin og hvernig fólki líður með hinn aðilann sem foreldri. Auðvitað eru foreldrar að reyna að leita lausna en oft tengist vanlíðan fólks í foreldrasamstarfi hræðslu og óöryggi gagnvart aðstæðum sínum og vantrausti til hins foreldrisins. Sambandsslit breyta upplifun manns af raunveruleikanum og það getur verið erfitt að sjá stóra samhengið og treysta. Þá kannski finnst fólki það leysa allan vanda að umgengnin verði stytt um einn dag en það er mikilvægt að fólk velti því fyrir sér hvort það muni virkilega breyta einhverju fyrir barnið að umgengni sé breytt eða lögheimilið fært og oft er svarið nei. Vandamálið er eitthvað allt annað og snýr frekar að samskiptum foreldra og líðan barnsins í aðstæðunum.“

  Mikilvægt að geta skoðað aðstæður út frá sjónarhorni barnsins
  Ragnheiður Lára segir að ef fólk treysti sér til að vera einlægt í samskiptum og horfa á stóru myndina þá sé það yfirleitt tilbúið að leysa vandamálin. „Það er líka mikilvægt að geta skoðað aðstæður út frá sjónarhorni barnsins, ekki sínum eigin. Núvitund getur líka nýst vel þar sem hún snýst um að átta sig á hugsunum og tilfinningunum sem virkjast í ákveðnum aðstæðum. Með henni er auðveldara að taka meðvitaða ákvörðun um hvernig maður ætlar að fara inn í foreldrasamstarfið, ekki bara hlaupa af stað og bregðast við með látum. Ég vil ítreka að nú er ég að tala um aðstæður þar sem umhverfið er nokkuð heilbrigt og eðlilegt og enginn að meiða neinn eða skaða á nokkurn hátt.“

  „Það getur verið vond upplifun fyrir barnið þegar það má ekki taka dótið sitt á milli heimila, þótt auðvitað þurfi að stýra því upp að vissu marki.“

  Eitt af þeim málum sem Ragnheiður Lára segir að algengt sé að foreldrar deili um séu eigur barnanna eftir skilnað. „Hver á dótið? Ég rak mig sjálf á það þegar ég skildi við barnsföður minn árið 2012. Við höfðum í okkar sambúð keypt rúm handa syni okkar en við skilnaðinn skildi ég nánast allt innbúið eftir, þar á meðal rúmið, því ég vildi hrófla við sem minnstu á heimili barnsins. Einhverju síðar var svo barnsfaðir minn að breyta á heimilinu og bauð mér að kaupa rúm drengsins því ég var enn með bráðabrigðarúm hjá mér og þetta varð svona dálítill úlfaldi úr mýflugu,“ segir hún kímin.

  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  „Við rifumst alveg um þetta í nokkra daga, hvort og hvað ég ætti að borga fyrir rúmið sem ég var sjálf svo nýlega búin að kaupa með honum og þurfti þá að fara að borga fyrir þetta sama rúm í annað sinn. Það var ekki fyrr en samstarfskona mín, sem er félagsráðgjafi, benti mér á það að við hefðum í raun ekkert leyfi til að vera að selja eignir barnsins okkar á milli því það væri drengurinn sjálfur sem ætti rúmið og ætti að fá að hafa það hjá mömmu ef hann vildi það. Og þetta opnaði augu mín. Það getur verið vond upplifun fyrir barnið þegar það má ekki taka dótið sitt á milli heimila, þótt auðvitað þurfi að stýra því upp að vissu marki. Það er betra að leyfa barninu að tengja bæði heimilin saman og fara með þá hluti sem það á sjálft á milli heimilanna. Það er ótrúlega mikilvægt fyrir barnið að hafa samfellu í lífinu og ég mæli með því að barnið fái að hafa dótið sitt og myndir af mömmu og pabba á báðum heimilum. Mörgum börnum finnst til dæmis mikilvægt að sjá og eiga myndir af foreldrum sínum með sig frá fyrstu dögunum. Auðvitað getur þetta ýft upp alls konar tilfinningar hjá foreldrum og verið flókið, sérstaklega ef sambandsslitin voru erfið, en maður verður bara að bíta í það súra epli og hugsa að þetta sé gert með hagsmuni barnsins í huga.“

  Tvö heimili er vettvangur fyrir foreldra og börn
  Það er auðheyrt á Ragnheiði Láru að hún nýtur starfs síns hjá sýslumanni. „Þetta er draumastarfið mitt,“ segir hún brosandi, „en það er þó margt í fræðunum sem maður kannski getur ekki gert innan stjórnsýslunnar því þar þarf auðvitað að vinna innan mjög afmarkaðs lagasviðs. Og auðvitað eiga ekkert öll vandamál fólks í foreldrasamstarfi að vera stjórnsýslumál.“ Svo nú er Ragnheiður Lára búin að setja á laggirnar ráðgjöf og sáttamiðlun fyrir fjölskyldur á tveimur heimilum sem ber nafnið Tvö heimili.
  „Ég hef lengi haft gríðarlegan áhuga á þessum málum og áður en ég byrjaði hjá sýslumanni var ég farin að pæla í ýmsum atriðum sem tengjast umgengnismálum og þvíumlíku eftir skilnað og las mér heilmikið til í fræðunum. Og auðvitað hef ég líka ágætis innsýn í þessi mál vegna minnar eigin reynslu, bæði sem barn í þeirri aðstöðu að eiga tvö heimili og eftir að hafa skilið sjálf og átt barn sem fer á milli okkar foreldranna, auk starfsreynslunnar frá sýslumanni.“

  Hún segir að sér hafi fundist vanta vettvang fyrir foreldra þar sem hægt væri að koma og vinna úr sínum vandamálum innan foreldrasamstarfs, ræða málin með þriðja aðila og fá aðstoð við að taka ákvarðanir og finna hvað hentar best þörfum barnsins út frá aldri þess og þroska. „Mér fannst líka vanta vettvang fyrir börn að fá að segja hvað þeim finnst og hjálpa foreldrum að heyra skoðun barnsins og breyta, bæta eða gera eitthvað öðruvísi ef þörf er á. Þótt börnin eigi ekki að ráða er mikilvægt að þau fái að segja sína skoðun og upplifa að þau hafi einhverja stjórn á aðstæðum sínum, þótt foreldrarnir eigi lokaorðið. Ég man eftir að hafa upplifað það að vera send á milli heimila; ég átti að fara og koma og hafði ekki mikið um það að segja. Vissulega er það gott því maður á ekki að stýra lífi sínu of mikið þegar maður er barn, en mér hefði þótt mjög gott að geta talað við hlutlausan aðila og sagt mína skoðun og hvernig mér liði án þess að eiga á hættu að særa mömmu og pabba. Börn eiga stundum erfitt með að segja hvað þeim finnst því þau vilja ekki særa og þau segja líka nákvæmlega það sem þau halda að foreldrar vilji heyra. Sum börn eru svo heppin að eiga ömmur og afa sem þau geta talað við, sem mér finnst dásamlegt, en ömmur og afar eru líka stundum að passa sín eigin börn og eru ekki hlutlaus, sem er samt alveg eðlilegt.“

  Fólk þarf að ákveða í sameiningu uppskriftina að foreldrasamstarfi
  Ragnheiður Lára segir mælt með því að fólk geri með sér sáttmála um foreldrasamstarf (e. parenting plan) þar sem ákveðið sé hvernig eigi að haga samstarfinu. Og fólk þurfi að ákveða í sameiningu hvernig uppskriftin að því eigi að vera. „Ég líki þessum stundum við það að vera dregin í hóp með öðrum aðila í ritgerðarskrif í námi. Við þyrftum alltaf að byrja á því að gera ákveðna verklýsingu á því hvernig við ætluðum að vinna verkefnið. Við gætum ekki bara sleppt því að hittast og tala saman og skrifað kaflana til skiptis og púslað verkefninu saman eins og bútasaumsteppi. En þannig ætlar fólk oft að afgreiða málin þegar börnin eru annars vegar; sem eru stærsta verkefnið í lífinu. Það þarf að ákveða hvernig foreldrarnir ætla í sameinginu að vinna í sameingu að hagsmunum barnsins síns. Hvar á barnið að búa, hvaða skóla á það fara í, hvernig ætla foreldrar að eiga í samskiptum, hvaða ákvarðanir á að taka í sameiningu og hverjar hvort í sínu lagi?“

  „Það er ótrúlega mikilvægt fyrir börn að upplifa þessa blöndu á milli heimila.“

  Það er kominn tími til að slá botninn í viðtalið. Í þann mund sem við erum að fara að pakka saman eftir spjallið segir Ragnheiður Lára að það sem hún taki mest úr reynslu sinni, og það sem hún sé mjög upptekin af í þessum fræðum, séu tengslin og tengslamyndunin. „Og það hvernig við getum hjálpað börnum sem eru að fara á milli heimila og foreldra með að aðlagast og yfirfæra tengsl. Ég er sannfærð um það að hefði eitthvað úr lífi okkar mömmu verið inni á heimilinu hans pabba, til dæmis bara mynd af henni og mér, eða það hefði stundum verið talað um hana, þá hefði raunveruleikinn minn hjá mömmu blandast svolítið betur við raunveruleikann hjá pabba. Það hefði hjálpað mér mjög mikið að þurfa ekki að slíta svona á tengslin við mömmu þegar ég fór til pabba. Það er nefnilega ótrúlega mikilvægt fyrir börn að upplifa þessa blöndu á milli heimila. Börn sem alast upp á einu heimili með báðum foreldrum sínum læra ákveðið flæði á geðtengslum; þau eru bæði hjá mömmu og pabba og það eru engar flækjur við að svissa tengslunum á milli. En börn sem fara á milli foreldra og heimila þurfa að rjúfa tengslin við foreldrið og tengja til hins sem getur verið ótrúlega mikið álag á barn. Þegar maður svo starfar við þessi mál þarf maður að geta farið til baka í eigin sögu og skoðað allt í samhengi til að skilja, sjá og átta sig á þessu öllu. Ég ber fulla virðingu fyrir því að svona voru aðstæður foreldra minna og þau gerðu sitt besta í þeim. Enda er þetta ekkert einhver hræðileg lífsreynsla, ég hef alveg hitt fólk með verri sögu en mína og þegar ég lít til baka var æskan mín góð, en þetta er samt eitthvað sem maður þarf að vera svolítið meðvitaður um.“

  Frekari upplýsingar um Tvö heimili er að finna á vefsíðunni www.tvoheimili.is

  Myndir // Hákon Davíð Björnsson
  Förðun // Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur YSL á Íslandi

   

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is