2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þetta var bíllinn sem ég var keyrð í út á flugvöll og hann var svona vegna mín. Pabbi og mamma slösuð á gjörgæslu vegna mín“

  Katrín Mixa hafði ráðgert að fara í hjálparstarf í Palestínu og var nýlent í London þegar fréttir bárust að heiman af alvarlegu slysi. Báðir foreldrar hennar lágu slasaðir á gjörgæslu. Katrín flaug aftur heim og lenti í miðjum hvirfilvindi þar sem móðir hennar var nú lömuð frá öxlum og skortur á áfallahjálp varð til þess að fjölskyldan varð ekki söm.

   

  „Ég stóð á tímamótum með sjálfa mig í kringum 2008-2009,“ segir Katrín. „Ég hafði alltaf talað á þeim nótum að það væri ekkert í heiminum sem ég væri hræddari við en stöðnun. Kannski er dálítið rembulegt að tala svona en ég fann samt að þetta var að hitta mig fyrir og ég komin á bólakaf í stöðnunina. Ég vissi að ég þyrfti aðeins að herða mig og taka í yfirhalningu. Ég átti rúmlega tveggja ára gamla dóttur, var búin að slíta sambúð við barnsföður minn og þurfti jafnframt að skapa mér dálitla fjarlægð frá mínu nánasta umhverfi þar sem mér fannst ég dálítið aðþrengd. Margir sem finna sig knúna til að staldra við og horfast í augu við sjálfa sig þekkja hvað það getur verið þýðingarmikið að skapa sér vissa fjarlægð frá umhverfi sínu og aðstæðum. Ég vildi í þessu fari láta til mín taka og hætta að vera andvaralaus, það var kominn tími á mig.“

  Katrín hafði verið viðloðandi félagsskapinn Ísland-Palestína og þegar hugsunin að fara utan í hjálparstarf skaut upp kollinum var Palestína fyrsti kostur. Hún ræddi þetta við barnsföður sinn sem tók jákvætt í það. Faðir hennar auðsýndi kvíða yfir tímasetningu og því að hún væri að fara á átakasvæði en setti sig samt ekki á móti þessu. Móðir Katrínar varð hins vegar varð ævareið. „Henni fannst síðasta sort að ég ætlaði að bregðast móðurskyldum mínum og yfirgefa litla barnið mitt sem þyrfti mest á móður sinni að halda fyrstu þrjú æviárin. Þetta var grundvallarsynd að hennar mati og lengi eftir ríkti köld þögn milli okkar.“

  Andrúmsloftið erfitt

  AUGLÝSING


  Brottfarardagurinn, 27. mars 2009, rann upp. Katrín átti pantað flug eldsnemma um morguninn til London þar sem hún ætlaði að gista eina nótt áður en hún héldi áfram ferð sinni yfir til Palestínu. Foreldrar hennar ákváðu að keyra hana út á flugvöll um nóttina; faðir hennar sat við stýrið. „Ég lagðist í aftursætið og sofnaði og veit í dag að slíkt gerir maður ekki,“ segir Katrín hugsi. „Bílferð má ekki eingöngu vera á ábyrgð bílstjórans. Við vorum öll syfjuð og tætt. Ég hafði vakað alla nóttina og mamma og pabbi höfðu líka lítið sofið. Hann var kvíðinn og sú hugsun helltist yfir hann að dóttir hans væri að fara á þetta átakasvæði þarna úti. Ég veit minna um það hvað bærðist innra með mömmu en auðvitað duldist mér ekki að hún væri enn ósátt við þessa ákvörðun mína.“

  „Bílferð má ekki eingöngu vera á ábyrgð bílstjórans. Við vorum öll syfjuð og tætt.“

  Katrín kvaddi foreldra sína á flugvellinum og við tók ferðalagið til London. Þegar hún lenti á Heathrow-flugvelli kveikti hún á farsímanum sínum sem var sími þess tíma, takkasími, sem bauð ekki upp á meira en að tala í hann og senda smáskilaboð. Hún segir að um leið og hún hafi kveikt á símanum hafi borist nokkur SMS-skilaboð frá fólki sem spurði, að því er henni fannst varfærnislega, hvort það væri allt í lagi með hana. Auk þess hafi hún verið með ósvöruð símtöl, jafnvel frá fólki sem hún var ekki í miklu sambandi við öllu jafna.
  „Mér fannst þetta heldur mikil hystería í öllum að vera að tékka svona á mér, ég væri nú ekki enn stödd á neinu átakasvæði. Auk þess biðu mín skilaboð í talhólfinu þar sem elsta systir mín bað mig um að hringja í sig. Ég hringdi í hana og hún sagði mér að mamma og pabbi væru bæði á gjörgæslu.“

  „Fljótt flýgur fiskisagan“
  Foreldrar Katrínar höfðu lent í bílveltu á leið í bæinn frá Keflavík. Faðir hennar hafði sofnað undir stýri og bíllinn oltið út af veginum. Hann hlaut áverka en móðir hennar virtist hafa slasað öllu meira. Katrín segir systur sína hafa sagt í símann að móðir þeirra hvorki fyndi fyrir líkamanum né gæti hreyft sig.

  „Svo lýsti hann fyrir mér augnablikinu þegar slysið varð og hvernig hann hefði vaknað í bílveltunni.“

  „Systir mín var með langar frásagnir af áverkunum hjá þeim báðum en samt þannig að þau myndu örugglega ná sér. Ekkert óeðlilegt hafði fundist í rannsóknum eða sést í skanna svo þetta var talið vera svokallað mænusjokk. Systir mín var mjög yfirveguð og ég skildi það varla; ég fór að hágráta og áttaði mig nú á öllum þessum skilaboðum sem ég hafði verið að fá. Ég man að ég hugsaði: Flýgur fiskisagan. Á svona krísustundu finnur maður smæð samfélagsins og eftir þetta fann ég oft vel fyrir því. Ég man að ég greindi fljótt að fólk sæi skandala í þessu og seinna meir gerðist það stundum að bara nafnið mitt varð til að fólk vissi af því sem hafði gerst og afdrif mömmu. En sem ég var þarna í London að meðtaka fréttirnar varð mér ljóst að mjög margir vissu á undan mér hvað hafði gerst; til dæmis fólk sem vann á heilsustofnunum og rak augun í sjúkraskjölin og bar fréttirnar á milli. Kannski hélt fólk að ég hefði líka verið í bílnum en skilaboðin voru það varfærnisleg hjá öllum að það var eins og fólk hugsaði að ég væri kannski ekki búin að fá fréttirnar en vildi samt láta mig vita að það væri að hugsa til mín.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Katrín segist hafa verið á báðum áttum með næstu skref. Hún komst fljótlega í símasamband við pabba sinn sem dvaldi ekki lengi á gjörgæslu heldur var fljótt sendur til aðhlynningar á Hringbraut. „Pabbi talaði eins og þau mamma myndu sennilega bæði ná sér og ég ætti að halda mínu striki með ferðina. Svo lýsti hann fyrir mér augnablikinu þegar slysið varð og hvernig hann hefði vaknað í bílveltunni. Hann og mamma voru bæði í bílbeltum en mamma var auðvitað sofandi svo hún var skökk í sætinu og alveg slök í líkamanum og náði ekki að undirbúa sig fyrir veltuna. Þegar upp er staðið er það örugglega stóra ástæðan fyrir því hversu illa hún slasaðist. Pabbi sagði mér líka hvernig hann hefði kallað á mömmu en hún ekki svarað þar sem þau voru þarna föst í bílnum sem lá á hvolfi. Alveg get ég ímyndað mér að þessi minning komi til með að lifa í honum. Þar sem hann kallaði á mömmu án þess að fá svar og hélt að hún væri dáin …“

  Undarlegur léttir

  Katrín segir að ef til vill hljómi það kaldranalega en sér hafi á einhvern sérkennilegan hátt fundist léttir að heyra að pabbi hennar skyldi hafa sofnað undir stýri en ekki verið að keyra glannalega. „Það var meiri slysabragur á því en beinlínis gáleysi. Ég viðurkenni að sú hugsun hafði hvarflað að mér að hann hefði kannski verið að drífa sig svo hann kæmist heim að sofa eða einhverjar tilfinningar jafnvel verið að verki svo hann hefði sýnt glannaakstur. En þetta var einhver undarlegur léttir fyrir mig kannski af því að það var þá hægt að dreifa ábyrgðinni á milli þeirra. Mamma hefði auðvitað átt að vera vakandi og jafnvel átt að keyra. Hún var jú hraustari en pabbi og hafði aðeins náð að hvíla sig áður en þau keyrðu mig út á völl. Ég vil samt taka það fram að mamma leit aldrei á sjálfa sig sem blásaklaust fórnarlamb þessa slyss. Hún talaði um það með vissum þunga að hún hefði átt að vera við stýrið og hún vissi að úr því svo var ekki hefði hún átt að vera vakandi.“

  „Ég vil samt taka það fram að mamma leit aldrei á sjálfa sig sem blásaklaust fórnarlamb þessa slyss.“

  Mitt í þessum létti segist Katrín þó hafa áttað sig á því að hún væri sjálf ekki saklaus, hún hefði líka verið andvaralaus. „Af hverju tók ég því svona hljóðalaust að vansvefta hjón, sem farin voru að reskjast, væru að brölta þetta um miðja nótt fyrir mig? Af hverju mat ég ekki ástandið á þeim og af hverju bað ég þau ekki með þunga að fara varlega í bakaleiðinni? Af hverju sagði ég ekki upphátt og eindregið að ég vildi að skár hvíldi aðilinn keyrði? Ég hafði jafnvel sjálf sofið á leiðinni, sofnað á verðinum. Mér finnst það líka vanreifuð umferðarforvörn að brýna fyrir fólki að sofa ekki í bíl því sofandi farþegi á engan möguleika á að undirbúa sig ef eitthvað kemur upp á. Auk þess getur það líka haft þau áhrif að værð komi yfir bílstjórann með tilheyrandi afleiðingum.“

  Katrín segist ekki viss um að hún hefði sjálf hugsað út í þetta nema ef á hefði reynt og vill brýna fyrir fólki að vera aldrei sofandi farþegar í bíl. „Sérstaklega ekki í framsæti og allra síst sem makar bílstjóra. Vakið með bílstjóranum.“

  Fékk áfall við að sjá fréttamyndir af bílnum

  Eftir samtalið við föður sinn hélt Katrín áfram að hugsa hvort hún ætti að halda áfram eða snúa við. Að lokum hafi hún verið komin á þá skoðun að bíða áfram í London og sjá til hvernig málin heima myndu þróast. Þegar hún horfði á fréttatíma Stöðvar tvö á Netinu um kvöldið varð lokaákvörðunin skýr að sögn Katrínar.

  „Í fréttunum birtast myndir af bílnum og myndatakan er í nærmynd, allan hringinn í kringum bílinn sem lá á hvolfi og alveg í klessu. Svona fréttaflutningur finnst mér undarlegur og eiginlega óvandaður,“ segir Katrín ákveðin. „Þegar frétt er flutt með þessum hætti þá verður þetta svo ágengt og persónulegt. Ég hef rætt þetta við fólk, líka fjölmiðlafólk, og ekki eru allir sammála mér. Sumum finnst þetta vera umferðarforvörn og öðrum finnst þetta hafa fréttagildi. Ég er mjög ósammála þessu; það er fréttnæmt að fólk slasist í umferðinni en ekki það hvernig bílinn er útleikinn. Í minningunni lítur bíll foreldra minna út eins og hann hafi lent í brotajárni. Þegar ég hugsa um þetta augnablik þar sem ég horfði á fréttirnar finnst mér eins og bíllinn hafi verið eins og spriklandi dýr sem lá á bakinu og var um það bil að taka síðasta spriklið. Þarna fékk ég áfall. Fyrra áfall af tveimur. Þetta var bíllinn sem ég var keyrð í út á flugvöll og hann var svona vegna mín. Pabbi og mamma slösuð á gjörgæslu vegna mín, ég gerði þeim þetta,“ segir Katrín með áherslu.

  „Þannig leið mér þegar ég horfði á bílinn þarna á skjánum og þarna hætti ég ekki bara að velkjast í vafa heldur varð ég jafnvel sjálfri mér reið að hafa getað hugsað mér að halda bara áfram. Ég ákvað því að fara heim, að minnsta kosti tímabundið.“

  „Þetta var bíllinn sem ég var keyrð í út á flugvöll og hann var svona vegna mín. Pabbi og mamma slösuð á gjörgæslu vegna mín.“

  Katrín keypti flugmiða til Íslands með fyrstu vél sem bauðst. Barnsfaðir hennar sótti hana á flugvöllinn og keyrði hana á spítalann. „Þar lá mamma í rúminu á gjörgæslu og horfði upp í loft, enn þá hreyfingarlaus en með smáhúmor fyrir þessu öllu saman. Þetta var hálfsturluð sjón einhvern veginn, þarna voru slöngur, blikkandi ljós, píp í tækjum og fullt af fólki. Og ég fann strax að ég var að lenda aftur í mynstrinu sem ég var að fjarlægja mig frá. Þarna skall á einhver veruleiki og ég fékk áfall númer tvö sem var eiginlega stærra en hið fyrra. Áfall kemur ekki alltaf með öskrum og látum, eins og maður kannski sér það fyrir sér. Og kannski kemur það sjaldnast á vettvangi, jafnvel þótt við sýnum sterk viðbrögð og skælum og emjum. Ef til vill grundvalla sterk viðbrögð við slæmum tíðindum mótstöðuna gegn áfalli, kannski viljann til að berjast gegn orðnum hlut, baráttuhug, haldreipi veikrar vonar … Svo kemur stillan, mál skýrast og orðinn hlutur verður skarpari. Þá erum við kannski berskjölduðust og áfallið skellur á.“

  Stigvaxandi verri tíðindi

  Þarna segist Katrín hafa orðið svartsýnni á að mamma hennar myndi ná sér og jafnvel misst alla trú á því að það gæti gerst. Á sig hafi leitað hugsanir um hvernig framhaldið yrði, ofan á óhugnaðinn yfir stöðunni sem móðir hennar var skyndilega í; hvað yrði um sig, yngsta barnið og eina barnið sem foreldrar hennar áttu saman. „Ég fór heim með mínar kaotísku, trekktu hugsanir og enn í áfalli. Ég svaf eiginlega ekki neitt og gat ekki hætt að hugsa um þessa tryllingslegu aðkomu þarna á gjörgæslunni.“

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson

  Nokkrum dögum síðar var það staðfest að móðir Katrínar væri mikið lömuð en það tók læknana dágóðan tíma að komast að þeirri niðurstöðu og því hversu mikil lömunin væri. „Fyrst fannst eitthvað við sjötta hryggjarlið, sem hefði þýtt að lömunin væri minni, en að lokum endaði skaðinn við þann fjórða sem þýddi að lömunin var ofar og meiri en upphaflega var haldið,“ segir Katrín. „Í millitíðinni var tekin af okkur vonin um að hún héldi þó fullri stjórn á höndum og handleggjum og þessi stigvaxandi verri tíðindi kallaði pabbi að skemmta skrattanum.“

  Niðurstaðan var sú að móðir Katrínar var svo til lömuð alveg frá öxlum en þríhöfðinn í báðum handleggjum hélt velli þannig að hún náði að lyfta handleggjunum örlítið upp. „Hún hafði engar fingrahreyfingar eða neitt slíkt, hún hafði lítið annað en andlitshreyfingar og upphandleggi en vissulega var þá dýrmætt að röddin og andlitshreyfingar héldu velli og að hægt væri að vinna með þríhöfðann.“

  Katrín segir margt hafa bærst innra með sér á þessum tíma og hún segist gjarnan vilja sjá að skerpt sé á þýðingu áfallahjálpar og „verndar“ fyrir fólk sem lendi í flóknum aðstæðum sem þessum. „Mér finnst ég geta sagt að mín fjölskylda hafi verið í einslags áhættuhópi að komast ekki hjálparlaust frá þessu. Ekki þá síst ég, örverpið og eina sameiginlega barnið í samsettri fjölskyldu.“

  „Það er áfall þegar veruleikinn sem maður hrærist í tekur harkalega U-beygju og engin leið aftur til baka.“

  Aðstoð við að tækla orðinn hlut, áfallið, óhugnaðinn og kvíðann, var ábótavant að mati Katrínar. „Þetta var svolítið sérkennilegt. Mér vitanlega var ekkert hægt að setja út á læknisfræðilegu meðferðina sem mamma fékk, það sýnist mér hafa verið mjög faglegt og þakkarvert, en að sama skapi er átakanlegt hvernig sömu sögu var ekki að segja um sálræna þáttinn. Það voru vissulega haldnir einhverjir fundir og við hittum prest en við áttum von á að fá afgerandi hjálp fyrir fólk í svona aðstæðum. Við höfðum spurt að því hvort við fengjum hana og það var eins og við værum að spyrja eins og bjánar, auðvitað myndum við fá áfallahjálp. En hún kom aldrei. Það var eins og þau hafi álitið að áfallahjálpin fælist í því að vera nærgætin við okkur. Það er góðra gjalda vert að fá næði til að skæla í kjöltu sinna nánustu og frið til að jafna sig eða jafnvel þiggja faglega hjálp við að komast yfir afmarkaðan hlut. En það er annað en þær aðkallandi aðstæður sem grundvallaþörf fyrir áfallahjálp.

  Auðvitað hef ég enga þekkingu á hvernig eigi að koma því við en í okkar tilfelli var sannarlega um áfall að ræða. Bókstaflega var búið að kippa bæði fótum og höndum undan einum fjölskyldumeðlim og fótunum undan öllum í heilli fjölskyldu. Það er áfall þegar veruleikinn sem maður hrærist í tekur harkalega U-beygju og engin leið aftur til baka. Þarna voru hjónakorn á efri árum sem lenda í þessari aðstöðu að konan lamast þetta alvarlega eftir að eiginmaðurinn hennar veltir bíl. Hvernig tökumst við á við það af yfirvegun? Og ekki við sem heild heldur einstaklingarnir í stöðunni.

  Hún sem alltaf var einstaklega kvik og rösk, er skyndilega fullkominn langlegusjúklingur. Hann svo sjálfur búinn að vera mikil fjölskylduhjálparhella fjölmargra í sínu starfi, orðinn valdur að harmleik en ekki bakhjarl.Þau eiga eitt barn saman en áttu bæði börn fyrir. Þetta eina barn; hvernig er staða þess? Og hinna barnanna? Eru þau vís til að vega ómaklega að hinu foreldrinu eða vís til að hleypa út skaðlegum tilfinningum? Erum við líkleg til að vera alltaf málefnaleg og skynsöm í svona stöðu? Hvernig er staðan? Hvernig er fjölskyldan? Hvað er líklegt að fólk í áfallinu geri?“

  Katrín ítrekar að hún nefni þessar pælingar ekki að ástæðulausu því vissulega hafi allir ætlað að vanda sig. „Auðvitað hljóta allir að vilja gera rétt. En fólk í áfalli tekur oft rangar ákvarðanir og þótt það sé ekki ætlunin er rökhugsunin ekki alltaf til staðar og orð látin falla sem geri illt verra. Ég er ekki að segja að ég sé þráðbeint að tala um okkar aðstæður en ég hef á vegferðinni kynnst öðrum sem lent hafa í einhverju keimlíku og séð nóg til að vita að þannig getur staðan hæglega orðið. Og ég veit að félagslegar flækjur reyndust mömmu þungbærari heldur en sú staðreynd að hún hefði lamast, hún sagði það sjálf.“

  Mikið álag

  Móðir Katrínar dvaldi á gjörgæslu í nokkrar vikur og um það bil mánuð á almennri deild þar til hún fór á Grensás þar sem hún dvaldi í eitt ár. „Þá var gerð tilraun til að flytja hana inn á elstu systur mína, sem var fjögurra barna móðir með eigin rekstur, með þjónustusamningi við heilbrigðisstarfsfólk í misskilinni baráttu gegn því að hún flytti á hjúkrunarheimili,“ segir Katrín. „Tilraunina mun ég alltaf virða djúpt við systur mína og hennar fjölskyldu en þetta var æði meira álag en fólk sá fyrir. Þá flutti mamma í eigin íbúð og fékk til sín starfsfólk samkvæmt rútínu.“

  Á þeim tíma sem móðir Katrínar dvaldi á sjúkrahúsinu gekkst hún undir þó nokkrar aðgerðir og álagið var mikið. „Að slasast þýðir alls konar meðferð og langt bataferli,“ segir Katrín. „Þetta var mikið álag fyrir mömmu, bæði líkamlega og andlega. En einnig fyrir okkur hin og það sem líka pabbi burðaðist með. Lengst framan af var ég ánægð með það hvernig ég höndlaði ástandið og mér fannst ég standa styrkum fótum og vera til staðar þar sem mín var þörf. Ég held við megum passa okkur á að dæma fólk eftir því hvort það sé sterkt eða veikt. Við erum örugglega öll sterk á ákveðnum sviðum og veik á öðrum. Stundum erum við bara leiksoppar aðstæðna þar sem herjað er á okkur á okkar veikustu stöðum og styrkurinn nýtur sín ekki. Og þá njótum við ekki sannmælis.“

  „Það eru alveg ástæður fyrir þessu örorkumati og ég veit að í því er talað um áfallastreituröskun, kvíða og fleira sem rakið er til álagsins en ég ætla ekki að láta það grundvalla mig.“

  Að því kom að Katrín bugaðist. „Mér finnst ömurlegt að þurfa að viðurkenna það fyrir umheiminum og sjálfri mér að í dag er ég metinn 75% öryrki sem rekja má til slyssins og afleiðinga þess. Ég er ekki að halda fram að ég hafi verið í toppstandi áður en slysið átti sér stað, kvillar voru alveg til staðar fyrir. Ég var til að mynda þrettán ára greind með Tourette- heilkenni og því fylgir pakki. Áður fyrr stýrðu hins vegar greiningarnar og einkennin mér um of. Mér kann þó að vera viss vorkunn því ég var skilgreind fötluð í menntaskóla á grundvelli Tourette-greiningar. Ákvörðunin um að fara til Palestínu var tekin í miklum andstöðumóð gegn fyrri viðhorfum og allri „aumingjavæðingu“, þar með eigin sjálfsupptekt. Þá varð ég einnig staðráðin í að láta ekki kvillana þvælast fyrir því að ég kæmist með báða fætur á jörðinni í gegnum þennan harmleik foreldra minna. Þannig varð það persónulegur ósigur og bugun út af fyrir sig að allt havaríið skuli að endingu hafa skilað sér í 75% örorku en ekki einhverri sigurvegarans hetjuímynd.“

  Hver þóttu fyrstu ummerki um að þú værir að bresta?
  „Tourette-kækirnir urðu alvarlega stjórnlausir. Í dag eru þeir alla jafna viðráðanlegir en augljóst að orkan er skertari og andleg geta verri. Auk þess tók endómetríósa, sem var vandamál mitt í menntaskóla, sig aftur upp eftir slysið og við bættist vefjagigtargreining. Það er segin saga að fólk, sérstaklega konur, undir álagi fái vefjagigt. Og mér finnst dálítið sláandi hvað ég tengi vel við niðurstöður í Áfallasögu kvenna. Í mesta álaginu fór ég að framleiða brjóstamjólk sem gerist enn undir miklu álagi og mér finnst það segja sína sögu, því hvaða heilbrigði líkami fer að framleiða brjóstamjólk upp úr þurru án þess að ólétta komi þar til? Athyglisgáfan er ofboðslega slæm en ég vona að ég geti bætt hana með meiri virkni. Það eru alveg ástæður fyrir þessu örorkumati og ég veit að í því er talað um áfallastreituröskun, kvíða og fleira sem rakið er til álagsins en ég ætla ekki að láta það grundvalla mig,“ segir Katrín með ákveðnum róm.

  „Þótt ég byrji hægt og rólega þá vil ég fara að haldast í vinnu, það er ömurlegt að vera ekki í vinnu. Ég var svo lánsöm að komast í Starfsendurhæfingu Hafnarfjarðar en þar vinnur magnað fólk sem fann með mér leiðir til að njóta mín að nýju. Svo núna trúi ég því að þetta komi, hægt og bítandi.“

  Hefur átt sína lágpunkta

  Blaðamanni þykir greinilegt að heyra og sjá á Katrínu að atburðir síðustu tíu ára hafi haft mikil áhrif á hana. „Já, lágpunktarnir elta mann stundum og ég hef svo sannarlega átt mína lágpunkta í öllu þessu. Ég var orðin svo örvæntingarfull þegar ástandið var hvað verst, að ég lét læknana hafa mig út í það að taka lyf og lyfjaávísanir breyttust hratt, eftir því við hvern ég talaði og hvernig áraði hverju sinni. Þetta voru ein stærstu mistökin mín. Ofan í kaupið og í samræmi við rænuleysið sem var farið að einkenna mig var ég ekkert að neita mér um stöku vínglös. Ég hef alltaf þolað áfengi vel og aldrei innbyrt mikið af því en að sulla með það ofan í þessi lyf var afdrifaríkt. Ég varð í hreinskilni sagt kolvitlaus og hömlulaus, skandalíseraði talsvert og missti frá mér vini. Þetta hefur haldið mér á mottunni með að dæma annað fólk of hart. Ég vil gjarnan gera yfirbót hér og nú og loka þessum kafla,“ segir Katrín og þagnar um stund.

  „Ég vil líka ítreka mikilvægi áfallahjálpar og sálgæslu þegar það á sannlega við,“ heldur hún áfram. „Kannski má draga einhvern lærdóm af því hvernig skortur á faglegri aðstoð við að komast í gegnum svona flóknar aðstæður vindur hæglega upp á sig með slæmum afleiðingum fyrir flesta sem koma nærri. Ég tek skýrt fram að ég erfi ekki neitt við neinn, vonandi ekki lengur sjálfa mig heldur. Þegar upp er staðið erum við fyrst og fremst að tala um hræðilegt slys og sammannlegar afleiðingar þess.“

  Heldurðu að móðir þín hafi kennt þér um hvernig fyrir henni var komið?
  „Hún kenndi mér aldrei um slysið en það er óhjákvæmilegt að horfa til þess að þetta gerðist auðvitað í skugga þessarar gremju í minn garð og það tók sinn tíma að komast yfir það. Við náðum að ræða þetta að hluta en sambandið okkar mömmu var flókið áður; við vorum svo ofboðslega ólíkar. En að mörgu leyti náðum við gagnkvæmum skilningi á okkar ólíku sýn á hluti og þá skiptir litlu máli að stundum hafi soðið eitthvað upp úr.“

  Hélt reisn í mótlætinu

  Móðir Katrínar lést á heimili sínu í Sóltúni 2. janúar 2017 eftir stutt veikindi. Katrín segir móður sína alltaf hafa verið ákveðna í að búa í eigin húsnæði og það hafi verið í uppgjöf sem hún hafi fallist á að fara á hjúkrunarheimili. „Þegar upp er staðið reyndust árin í Sóltúni þau allrabestu. Starfsfólkið kemst enn við þegar mömmu ber á góma og mamma setti svo sannarlega sitt mark á staðinn, meðal annars með sinni sérlega fagurfræðilegu sýn á umhverfið og mildilegri stjórnsemi,“ segir Katrín kímin. „En mamma var rosalega hugrökk. Hún stóð ofsalega margt af sér og tók sinni aðstöðu með stóískri ró og sýndi ótrúlegt æðruleysi. Fólk talar svo oft um annað fólk í raunum sem hetjur en ég er ekki að því. Mamma lifði við þessar aðstæður í tæp átta ár og sýndi það að hún þoldi mótlæti vel. Hún stóð margt af sér og hélt mikilli reisn í mótlætinu. Ég vanmat hana mömmu hressilega, það sé ég eftir á.“

  „Ég er staðráðin í að reyna að tileinka mér þann hæglætislega og óhindraða lífstakt, reisnina og þá stóísku ró sem mamma bjó yfir.“

  Aðspurð hvort hún finni enn einhvern tíma til sektarkenndar yfir þeim aðstæðum sem spruttu upp út frá bílferðinni til Keflavíkur þennan örlagaríka dag í mars árið 2009, svarar Katrín að vissulega verði aldrei komist hjá sektarkennd að öllu leyti. „Stundum kemur upp sú hugsun að þetta hafi gerst vegna mín en það er í það minnsta stór munur að burðast þó ekki með það að hafa farið fram á eitt eða neitt við þau. Það hjálpar mér að vita að það hafi alfarið verið ákvörðun foreldra minna að keyra mig, ég hafði sagst geta tekið flugvallarrútuna.“

  Katrín segir að móðir hennar hafi spurt hana, skömmu áður en hún lést, hvort Katrín tryði því að hún nyti lífsins til fulls. „Mamma sagðist raunverulega gera það en ég var ekki alveg á því að gleypa það hrátt. Svo er hún skyndilega látin og ég sé skarðið sem hún skildi eftir sig, aðdáunina og söknuðinn allt í kring. Þá sá ég og skildi. Hún hafði tekið þessu nýja lífi með stæl og naut þess raunverulega. Ég er staðráðin í að reyna að tileinka mér þann hæglætislega og óhindraða lífstakt, reisnina og þá stóísku ró sem mamma bjó yfir.“

  Förðun / Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is