2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Þið verðið að skilja að ég get ekki lifað bara fyrir ykkur“

  Sigurveig Þórarinsdóttir var stórglæsileg, ung kona, læknir á leið í sérnám í öldrunarlækningum. Þeir sem ekki þekktu til hennar hafa sjálfsagt haldið að lífið brosti við henni. Sem það gerði vissulega. En hún sá það ekki. Og brosti sjálf ekki við lífinu.

  „Þið verðið að skilja að ég get ekki lifað bara fyrir ykkur. Ég hef gert það meira en ykkur grunar. Ég elska ykkur meira en ykkur grunar – en ég er vansælli en þið getið skilið,“ skrifaði Sigurveig til fjölskyldu sinnar í bréfi dagsettu 9. júní 2013. Tæpu ári síðar var hún látin.

  Þriðjudaginn 4. mars 2014 mætti Sigurveig til vinnu á Landspítalanum í Fossvogi. Þegar hún kvaddi vinnufélagana í lok dags benti ekkert til þess að hún ætlaði sér ekki að mæta í vinnuna næsta morgun. Móðir Sigurveigar, María Loftsdóttir, segist hafa hringt í Sigurveigu um fimm-leytið og það hafi legið vel á henni.

  En þá var hún greinilega búin að ákveða að kveðja þetta líf.

  „Hún var svo kát að ég hugsaði að hún hlyti að vera að fara að gera eitthvað skemmtilegt. Það hvarflaði að mér að kannski væri hún bara að fara á stefnumót,“ segir María. „En þá var hún greinilega búin að ákveða að kveðja þetta líf.“

  Næsta dag, þegar Sigurveig svaraði ekki símhringingu frá föður sínum grunaði hann strax að eitthvað væri að. „Sigurveig var svo nákvæm,“ segir María. „Ef hún sagðist ætla að hringja, þá hringdi hún. Og þegar hún svaraði ekki og hringdi ekki til baka þá var eitthvað ekki eins og það átti að vera.“

  AUGLÝSING


  María ákvað því að tala strax við lögregluna. „Þeir sögðust vanalega ekki gera neitt í svona málum fyrr en eftir ákveðið langan tíma en ég útskýrði aðstæður og sagði þeim að það væri líklegt að dóttir mín væri farin eitthvert með mikið magn af lyfjum. Þeir ákváðu því að miða út símann hennar Sigurveigar.“

  Sigurveig var mjög listræn og skildi eftir sig margar fallegar myndir. María segir að fljótlega eftir andlát dóttur sinnar hafi hún ákveðið að halda sýningu á verkum hennar. „Ég var búin að ganga með hugmyndina í maganum að þessari sýningu frá því Sigurveig fór en fannst það einhvern veginn ekki tímabært fyrr en nú. Og þetta er ekki bara sýning á myndunum hennar heldur viljum við sem stóðum henni næst líka opna umræðuna um sjálfsvíg kvenna. Sigurveig hafði alla þessa hæfileika, var dugleg að læra, leit vel út, hafði góð laun, hafði góða menntun… Hún hafði í rauninni allt. En samt leið henni svona illa inni í sér og sá ekkert ljós.“

  Sigrún segir að sér virðist sem umræðan um sjálfsvíg kvenna sé svolítið feimnismál. „Það hefur verið mikil umræða um sjálfsvíg ungra karla en staðreyndin er sú að eldri menn fremja líka sjálfsvíg rétt eins og ungar konur og eldri konur.“ Hún þagnar augnablik og bætir svo við að mikilvægt sé að umræðan um sjálfsvíg einkennist ekki af skömm. „Við ákváðum strax að vera opinská um þetta, án þess að fara í einhver smáatriði.

  Eftirlifendur eiga ekki að sitja uppi með einhverja skömm.

  Maður fann að fyrst var fólk svolítið á tánum og vissi ekki alveg hvernig það ætti að haga sér en af því að við ræddum hlutina tiltölulega opinskátt þá létti það svolítið á. Fólk var jafnvel að spyrja okkur, áður en kom að jarðarförinni, hvort Sigurveig yrði jörðuð í kyrrþey. Maður verður auðvitað að virða það ef fólk vill ekki ræða dánarorsök sinna nánustu en það má ekki verða þannig gagnvart okkur sem lifum af að hafa misst einstaklinga úr sjálfsvígi að það megi ekki ræða það. Eftirlifendur eiga ekki að sitja uppi með einhverja skömm.“

  María og Sigrún minnast dóttur og tvíburasystur í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Sýningin Myndirnar hennar Sigurveigar verður opnuð laugardaginn 2. mars í Gróskusalnum að Garðatorgi 2 í Garðabæ. Sérstök opnun verður þann dag frá klukkan 14:00-16:00 en sýningin verður opin áfram dagana 3. til 10. mars frá klukkan 14:00-17:00. Hægt verður að kaupa eftirprentanir af útvöldum myndum Sigurveigar og mun allur ágóði renna til Píeta samtakanna sem sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

  Viðtalið við Maríu og Sigrúnu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

  Mynd / Hákon Davíð Björnsson
  Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is