Þráin til að takast á við náttúruna og sigra

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Myndir þar sem maðurinn stendur andspænis ofsakröftum náttúrunnar.

Í manninum býr einhver djúpstæð þrá til að takast á við náttúruna og sigra. Sumir láta sér reyndar nægja að rölta upp á næsta hól en aðrir þurfa meira krefjandi áskoranir. Stundum fer allt úrskeiðis sem hugsast getur í slíkum ferðum og úr verða ævintýralegar sögur sem gjarnan rata á hvíta tjaldið, enda á ferðinni efniviður sem er bæði spennandi og spilar á hjartastrengina. Hér eru nokkrar óvenjulega góðar slíkar myndir.

Leiðin heim
The Way Back fjallar um fanga í sovéskum fangabúðum sem tekst að flýja. Hún er byggð á bók eftir Janusz Wieszczek, pólskan liðsforingja sem handtekinn var af sovésku leyniþjónustunni er Sovétríkin réðust inn í Pólland og sendur til Síberíu fyrir njósnir. Hann tekur höndum saman við hóp annarra fanga og saman leggja þeir á ráðin um flótta. Ferðin er löng og ströng og áður en yfir lýkur gengur hópurinn í gegnum ótrúlegar mannraunir, kulda, ógreiðfær fjallendi og eyðimerkur.

Hæsta fjall heims
Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks segir sögu nokkurra ævintýramanna sem árið 1996 reyndu að klífa hæsta fjall heims. Óveður og önnur óhöpp setja strik í reikninginn og ekki allir eiga afturkvæmt. Inn í þetta fléttast einkalíf þessa fólks og aðstandenda sem bíða heima. Þetta er spennandi mynd og þótt fjallamenn hafi fundið að ýmsu er hún spennandi og heldur áhorfendum í helgreipum allan tímann.

Einmanalegur staður
A Lonely Place to Die gerist í skosku hálöndunum þar sem hópur fjallgöngumanna finnur stúlku á flótta undan mannræningjum. Þeir reyna að bjarga henni en setja sjálfa sig í gríðarlega hættu því glæpamennirnir eru ekki á því að sleppa takinu á fórnarlambi sínu. Hetjurnar þurfa á öllum sínum styrk og þekkingu á fjallamennsku að halda en nota jafnframt klókindi til að komast undan. Þessi mynd er nánast óbærilega spennandi á köflum.

A River Runs Through It dregur upp raunsanna lýsingu á veiðitúrum við árbakkann.

Við ána
A River Runs Through It lýsir lífi áhugasamra fluguveiðimanna í Montana-fylki í Bandaríkjunum. Nokkrar kynslóðir manna úr sömu fjölskyldu hafa stundað veiðar í Blackfoot River og myndin dregur upp raunsanna lýsingu á veiðitúrum við árbakkann. Inn í söguna fléttast svo sambönd mannanna, líf þeirra og örlög. Myndin er byggð á skáldsögu Norman McLean og var leikstýrt af Robert Redford. Þetta er hugljúf og áhrifamikil mynd.

Í snertingu við hyldýpið
Touching the Void er áhrifamikill hetjusaga (sjá mynd að ofan). Myndin var gerð árið 2003 eftir bók Joe Simpson þar sem hann lýsir leiðangri sínum og vinar síns Simon Yates á tind Siula Grande. Þetta hættulega perúska fjall er 6.344 m hátt og margir hafa látið lífið í hlíðum þess. Joe hrapar og slasast og Simon gerir það eina sem honum er fært í stöðunni, hann sker á taugina á milli þeirra. Joe hrapar ofan í sprungu í jöklinum og þarf að skríða margra kílómetra leið til baka í búðir þeirra félaga. Thouching the Void er stórkostleg blanda af heimildarmynd og leikinni kvikmynd og fáir geta horft ósnortnir á hana. Joe Simpson kom til Íslands og hélt fyrirlestur um hvað hann hefði lært af reynslu sinni en hann klífur fjöll enn í dag þrátt fyrir að annar fótur hans hafi verið mjög illa farinn eftir slysið.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira