2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Til útlanda án ferðafélaga

  Undanfarin ár hefur færst í vöxt að fólk ferðist eitt. Til dæmis einhleypar manneskjur sem kjósa að binda sig ekki við vini eða vandamenn heldur fara þangað sem hugur þeirra stendur til án ferðafélaga.

  Margir segja að þetta sé mun skemmtilegra vegna þess að þeir stjórni algjörlega sjálfir hvenær þeir hafa félagsskap og hvenær ekki og að menn kynnist mun betur heimamönnum eða öðru ferðafólki heldur en þegar ferðast er í hópi.

  Ferðalög eru líf og yndi stór hóps fólks sem er glatt og áhugasamt þegar gengið er inn á flugvöllinn með ferðatöskuna í eftirdragi og aldrei hamingjusamara en í 30.000 feta hæð. Jafnvel þótt setið sé í þröngu flugvélarsæti, engin leið að sofa og ekkert í boði nema óætar rándýrar samlokur. Ástæðan er sú að þessi hópur er þegar kominn á áfangastað í huganum. Búið er að gúgla bestu veitingastaðina, merkustu kennileitin og áhugaverða staði utan alfaraleiða. Draumur er að rætast og ævintýri fram undan. Fæstir eru þó uppteknir af sessunautum, ferðafélaganum, hvernig hefur hann það? Er hann jafnspenntur? Nema þið séuð í hópi þeirra sem kjósa að ferðast einir en sú tegund ferðamennsku er í mjög örum vexti um þessar mundir og margir ferðaþjónustuaðilar farnir að gera beinlínis út á þennan hóp.

  Eflir sjálfstraust
  Þetta þýðir ekki að fólk hafi eitthvað á móti því að hafa félaga, alls ekki. Hér er meira um að ræða að vera ekki háður öðrum. Ef fólki dettur í hug að skella sér í bátsferð um Amazon-fljótið eða í vínsmökkun í Suður-Ameríku bókar það ferð. Þá þarf ekki að hringja ótal símtöl í von um að einhver vinur hafi áhuga á því sama og fara yfir dagbækur margra misupptekinna manneskja til að finna rétta tímann.
  Stundum eru þessir sóló-ferðalangar með smekk fyrir framandi slóðum sem ekki er alveg víst að allir aðrir treysti sér til að heimsækja, það kann einnig að vera að þeir kjósi að ferðast utan óhefðbundinna sumarleyfistíma og í enn öðrum tilfellum er einfaldlega praktískt að fara einn. Sá sem ekki þarf að taka tillit til annarra en sjálfs sín getur gist þar sem honum líkar best, borðað hvar sem honum sýnist og jafnvel hoppað upp í næstu lest og farið til annarrar borgar ef sú sem hann lenti í er ekki eins skemmtileg og hann átti von á. Það fylgir því frelsi að vita að enginn er til að hefta þig og allur heimurinn er opinn. Auk þess eflir það sjálfstæði og sjálfstraust að finna og vita hversu auðveldlega þú leysir úr öllum þeim vandamálum sem upp koma og að þú getur fundið út úr öllu á eigin spýtur.

  AUGLÝSING


  Ný kynni hefjast
  Fyrir utan þetta er alltaf sá möguleiki að gefa sig á tal við aðra, stundum aðra einstaklinga en þess á milli hópa fólks. Þannig skapast oft ný vinátta eða ómetanlegar upplýsingar fást um staðinn. Stundum er fólk líka opnara fyrir nýjum uppgötvunum og stígur frekar út fyrir þægindarammann þegar það er eitt á ferð. Vinkona mín var ein á ferð í Asíu og gaf sig á tal við nokkrar konur sem biðu eftir áætlunarbíl. Þær sögðust vera á leið á blómasýningu í þorpi í nokkurri fjarlægð. Hún ákvað á staðnum að taka rútuna með þeim og sá ekki eftir því. Nokkru síðar var sama kona á ferð um Ítalíu og var sagt að króatísku eyjarnar væru ævintýralega fallegar. Það þurfti ekki meira, hún fann leið til að heimsækja þær. Ef hún hefði verið á ferð með eiginmanni sínum, börnum og eða vinum í það sinnið hefði þetta verið mun flóknara í framkvæmd. Að lokum má svo benda á að stundum snúast ferðalög um að rækta áhugamál sín. Það er ekki alveg víst að ástvinir þínir hafi sömu ástríðu fyrir golfi, matreiðslu, jóga eða fjallgöngum og þess vegna er stórkostlegt að allir geti notið þess að ferðast þegar þeir vilja og á þann stað sem freistar mest.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is