• Orðrómur

Tilbúin að gera hvað sem er til að fá að lifa lengur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Elín Sandra Skúladóttir greindist með brjóstakrabbamein árið 2017. Hún nýtti sér þjónustu allra þeirra sem hún taldi að gætu hjálpað, bæði hefðbundið og óhefðbundið, og ákvað að gerast vegan. Þrátt fyrir að krabbameinslæknirinn hennar segðist telja líklegt að æxlin myndu ekki minnka nema um helming, hurfu þau.

 

„Konur hafa oft spurt mig hvernig maður viti að þetta sé æxli sem maður er að þreifa á en ég segi að þegar maður finni það, þá viti maður. Um leið og ég fann æxlið í brjóstinu hugsaði ég með mér að nú væri ég í vandræðum,“ segir Elín sem greindist með brjóstakrabbamein í apríl 2017. Bæði brjóstin voru fjarlægð sem og eitlar úr holhönd.

„Eins og maður sé í þvottavél og þeytist á milli“
Elín, sem starfar hjá Fjármálaeftirlitinu og sem jógakennari, segist hafa verið hraust kona og taldi sig undanskilda krabbameinsógninni. „Ég veit það hljómar furðulega að ég taldi mig bara sleppa, en ég held samt að margir tengi við það. Ég hélt einfaldlega að ég gæti ekki fengið krabbamein og greiningin kom eins og þruma úr heiðskýru lofti. Meira að segja þótt bæði amma mín og móðurbróðir minn hafi dáið úr krabbameini og langamma mín fengið krabbamein,“ segir Elín. „Ég bara hélt að þetta myndi ekki koma fyrir mig. Mér skilst að þetta sé mjög algengur misskilningur en við erum bara útsett fyrir þessu, því miður.“

- Auglýsing -

Elín segist hafa talið sig lifa heilbrigðu lífi. „Ég hreyfði mig annað slagið en ég hafði unnið sem íþróttakennari og var að kenna jóga og borðaði þokkalega hollt, en lifði samt bara svona hefðbundnum vestrænum lífsstíl, sem er auðvitað óhollur. En ég átti engan veginn von á þessu. Þetta var eins og að fá blauta tusku í andlitið og ég upplifði alveg sjúklega hræðslu og ofsakvíða.“

„Ég hélt einfaldlega að ég gæti ekki fengið krabbamein og greiningin kom eins og þruma úr heiðskýru lofti.“

Hún segist hafa þurft að bíða í um það bil tvo mánuði eftir að fá nákvæma greiningu og biðin hafi verið erfið. „Ég vissi ekkert hverju ég ætti von á. Og þetta greiningartímabil frá því að maður uppgötvar að maður er í vandræðum þangað til maður fær í rauninni að vita hversu miklum vandræðum, er langur og erfiður tími. Það er eins og maður sé í þvottavél og þeytist á milli án þess að vita hvað er að fara að gerast. Það kom í ljós að þetta voru tvö illkynja æxli og þau voru orðin svolítið stór. Þetta var hormónatengt og hraðvaxandi þannig að þetta var alvarlegt. Og svona til að bæta gráu ofan á svart var maðurinn minn, Haukur Sigurðsson, í rauninni að upplifa þetta í annað sinn því hann hafði misst eiginkonu sína úr krabbameini árið 2009 og sonur hans móður sína. Hún fékk sjaldgæft krabbamein sem byrjaði í munnvatnskirtli og var fyrst greind átján ára.“

Hlutverk aðstandenda erfitt
Elín og Haukur kynntust þegar Elín vann að meistararitgerð sinni í íþrótta- og heilsufræðum í Hjartavernd. „Hann var með skrifstofu á Hjartamiðstöðinni fyrir ofan mig. Stjúpsonur minn ráðlagði pabba sínum að finna sér konu og hann hélt að það væri best fyrir hann að finna hana á bílastæðinu í vinnunni. Hann fór nánast eftir ráðum hans en við hittumst fyrst í lyftunni,“ segir Elín og brosir.

Mynd / Hallur Karlsson
- Auglýsing -

Hún segir að Haukur hafi tekið fréttunum af krabbameininu af yfirvegun en sér hafi sjálfri liðið gríðarlega illa fyrir hans hönd. „Mér fannst of mikið á þá feðga lagt. En hann lagði áherslu á að við myndum halda áfram að lifa lífinu. Við settum það ekki á bið heldur reyndum að minna okkur á að lífið er núna. Það reyndist mér afskaplega vel. Ég held að hlutverk aðstandenda sé mjög erfitt. Þeir þurfa að sýna mikinn styrk fyrir þann sem er veikur en eru sjálfir að ganga í gegnum jafnmikla óvissu og hræðslu. Við höfum verið mjög samstíga í þessum lífsstílsbreytingum og rætt hlutina fram og til baka, kosti og galla. En ég neita því þó ekki að þetta hefur haft mikil áhrif á líf okkar og maðurinn minn eðlilega búinn að fá frekar mikið nóg af krabbameini og áföllum.“

Elín segist hafa áttað sig á því hvað þetta hafði mikil áhrif á alla þá sem stóðu henni næst þegar grunur lék á að meinið væri búið að dreifa sér í eitlana. „Þegar þeir komu út hreinir var léttirinn mikill fyrir okkur öll. En þegar ég fékk greininguna fór ég úr flight mode yfir í fight mode og var ákveðin í að gera allt sem í mínu valdi stæði til að fá að lifa.“ Hún segist hafa ákveðið að hætta að borða mjólkurvörur og sykur um leið og greiningin var orðin ljós.

„Ég neita því þó ekki að þetta hefur haft mikil áhrif á líf okkar og maðurinn minn eðlilega búinn að fá frekar mikið nóg af krabbameini og áföllum.“

„Bróðir hennar mömmu fékk ofboðslega slæmt heilaæxli. Hann var matvælafræðingur og upptekinn af alls kyns rannsóknum. Ég man eftir stund þar sem krabbameinið var rosalega langt gengið og hann orðinn mjög veikur, þar sem hann talaði um hættuna sem stafaði af mjólkurvörum og sykri og áhrifum þess á krabbamein. Það sat í mér og þegar ég greindist ákvað ég strax að hætta að borða þessar matvörur. Síðan, eftir því sem ég fór að lesa mér til um efnið, tók út ég fleiri vörur, eina í einu.“

- Auglýsing -

Fannst hún þurfa að taka þetta föstum tökum
Elín segist hafa ákveðið að líta svo á að lífið væri að rétta henni þetta verkefni og hún yrði að taka því eins og manneskja, þótt verkefnið væri bæði stórt og hræðilegt. Hún hafi því sest niður og hugsað hvað hún gæti gert meira en njóta aðstoðar lækna og heilbrigðisstarfsfólks.

„Ég hellti mér því út í að lesa alls kyns bækur og rannsóknir og þótt þetta sé vissulega allt heilbrigð skynsemi sem maður hefur heyrt aftur og aftur þá bara nær það ekki alveg inn, því miður. Og það sem er talað um að hafi áhrif á krabbamein, sem er lífsstílssjúkdómur, eru þættir sem við þekkjum: Áföll í lífinu, streita, hreyfingarleysi, umhverfismengun, þ.e. umhverfismengunarvaldar í stóru samhengi eins og plast og loftmengun, en stóri þátturinn er svo mataræðið. Ég hugsaði að mér væri alveg sama hvað ég þyrfti að gera; ef ég hefði þurft að þyngja mig þá hefði ég gert það. Ef ég hefði þurft að borða bara kjöt, þá hefði ég gert það. En með því að lesa mér til sá ég fljótlega að það að draga úr kjötneyslu væri það sem skipti mestu máli og svo auðvitað það að auka við þetta holla, grænmeti og ávexti. Svo eftir því sem ég rannsakaði þetta meira fór ég alltaf lengra og lengra, mér fannst ég þurfa að taka þetta föstum tökum.“

„Ég óska engum þess að ganga í gegnum það að fá krabbamein. Því þetta er auðvitað bara andstyggð.“

Og Elín gerði það svo sannarlega. Hún hætti að borða mjólkurvörur, allt kjöt, fisk og sykur. Aðspurð hvort það hafi ekkert verið erfitt að gera svona miklar breytingar á mataræðinu svarar hún að hún hafi tekið þetta í skrefum. „En þetta róaði mig líka. Ég hef verið kvíðin frá því ég var barn og ég fann vel fyrir kvíðanum þegar ég greindist. Það róaði mig í þessu öllu saman að geta sest niður þrisvar á dag og haft stjórn á einhverju. Svo leið mér líka svo vel; meira að segja lyfjameðferðin, sem er mjög mikil og harkaleg þegar um brjóstakrabbamein er að ræða, fór vel í mig; ég þoldi hana vel. Svo léttist ég í henni en konur með brjóstakrabbamein þyngjast að meðaltali um átta kíló í lyfjameðferðinni. Það er algengur misskilningur að fólk verði svo horað þegar það fær krabbamein. Kannski þegar um er að ræða mjög langt gengið krabbamein í meltingarfærunum eða eitthvað slíkt, en fólk almennt tútnar út enda er maður að taka stera sem hafa þær aukaverkanir í för með sér. Svo eru líka komin svo góð stoðlyf þannig að maður er að missa matarlystina í skamman tíma.“

Fór hraust í gegnum meðferðina
Blaðamaður hefur á orði að oft sé talað um að krabbameinsmeðferðin sjálf sé erfið og taki jafnvel meira á en veikindin sjálf. „Já, lyfjameðferðin er í raun að að drepa hraðvaxandi frumur í líkamanum og fólk verður veikt af henni,“ segir Elín. „Maður er kýldur niður og svo þarf líkaminn að byggja sig upp aftur. Mér fannst það svo rökrétt að setja eitthvað rosalega gott í líkama minn á meðan ég væri að byggja mig aftur upp og ég var sannfærð um að uppbyggingin myndi taka skemmri tíma með heilbrigðum og hollum mat.“

Elín segist hafa upplifað sig hrausta í krabbameinsmeðferðinni og að læknarnir hafi aldrei dregið úr henni með þessar breytingar hennar á mataræðinu. „Það var líka fylgst vel með mér og allar blóðprufur komu vel út.“

Að lyfjameðferðinni lokinni kom í ljós að bæði æxlin voru horfin með öllu. Elín segir lækninn hafa sagst eiga von á að þau myndu minnka um fimmtíu prósent af því að tegund þeirra brygðist ekki betur við lyfjameðferðinni en svo. Hann hafi sagt hana heppna þegar í ljós kom að æxlin voru horfin. „Hann sagði að ég væri rosalega heppin,“ segir Elín og brosir.

„Börnin mín voru ekki beint heppin í genalottóinu“

Í miðri lyfjameðferð segist Elín hafa fengið þá hugmynd að halda ráðstefnu sem haldin var í október á síðasta ári. „Það er ekki minn stíll að troða upplýsingum upp á neinn. En ég er í Krafti og sótti mikið í Ljósið í veikindunum og það hafa leitað til mín konur eftir bakaleiðum til að fræðast um mína sögu. Og mig langaði að koma þessu á framfæri; segja fólki frá því hvað virkaði svona vel fyrir mig. Svo fékk ég bara þessa hugmynd að halda ráðstefnu; segja fleirum frá. Þannig að ég byrjaði í rauninni að skipuleggja ráðstefnuna í miðri lyfjameðferð. Mér fannst mér bera siðferðileg skylda til þess. Og þetta á auðvitað ekki bara við um krabbamein, heldur alla þessa langvinnu lífsstílssjúkdóma sem herja á okkur. Móðir mín ákvað til dæmis að fylgja mér í breytingunum. Hún var búin að vera slæm af gigt í mörg ár og var sjálf farin að taka krabbameinslyf við henni. Hún hefur ekki þurft nein lyf síðan hún breytti mataræðinu. Svo fylgdi systir mín okkur líka, hún er umhverfisverkfræðingur og hennar sjónarmið fyrir breytingunum var eingöngu umhverfissjónarmið. Hún var búin að reyna árangurslaust að eignast barn í langan tíma og svo gekk það. Sem var dásamlegt. Ég veit líka um mann með ristilsjúkdóm sem hefur ekki fundið fyrir neinum bólgum í ristlinum frá því hann breytti mataræðinu. Kannski er þetta rétt hjá lækninum, að þetta sé allt svona mikil heppni. Og allir verða svona heppnir af því að umgangast mig,“ segir Elín og skellir upp úr.

En Elín verður alvarleg á svip stuttu síðar og segir að hún sé ekki síst að hugsa um börnin sín með þessu breytta mataræði.

„Börnin mín voru ekki beint heppin í genalottóinu; stjúpsonur minn búinn að missa mömmu sína úr krabbameini, pabbi hans er með ristilsjúkdóm og ég með krabbamein. Þannig að ég verð að gera mitt til að verja börnin mín. Jafnvel þótt talað sé um að líkurnar séu litlar, það séu um fimm til tíu prósent þeirra sem eru með genatískar undirliggjandi stökkbreytingar sem fá krabbamein, eru líkurnar þó til staðar. Og það keyrir mig áfram. Ég vil ekki að börnin mín þurfi að ganga í gegnum þetta. Ég óska engum þess að ganga í gegnum það að fá krabbamein. Því þetta er auðvitað bara andstyggð.“

Býr allan mat til frá grunni
Elín segist fylgja svokölluðu plöntumiðuðu heilfæði (e. whole-foods, plant-based diet) sem er veganfæði þar sem ekki er búið að taka neitt úr fæðunni eða bæta neinu við hana. Hún kaupi mestmegnis ferskt hráefni og búi til allan mat frá grunni. „Þetta er ekki eins óyfirstíganlegt og það hljómar,“ segir hún og hlær, líkt og hún lesi hug blaðamanns.

„Þetta snýst bara um að læra ný handtök. Ég var kannski svolítið heppin, því ég var ekki flink í eldhúsinu fyrir þannig að ég þurfti hvort eð er að læra. Ég reyni að skipuleggja mig vel; geri oftast matseðla fyrir vikuna, bý til innkaupalista og kaupi allt inn í einu til að spara tíma. Skipulagning er lykilatriði, sérstaklega með stóra fjölskyldu. Og þótt það séu komnir margir sniðugir kostir fyrir vegan þá forðast ég allt tilbúið og það sem er óhollt. Ég borða til dæmis lítinn eða engan sykur og forðast matvæli sem eru með háan sykurstuðul.“
Hún segir breytingarnar vissulega hafa tekið á í byrjun því með svona breytingum verði maður að læra svo margt nýtt. En það hafi kannski verið erfiðast að gera breytingar hjá börnunum sínum.

„Síðan ég byrjaði á þessu mataræði hef ég í fyrsta skipti getað hætt að pæla endalaust í hvað ég er að borða og hvort ég þyngist af því.“

„Fólk hafði meiri skilning gagnvart mér; af því að ég var að gera þetta fyrir heilsuna, út af krabbameininu,“ segir Elín. „En það stakk mig með börnin mín. Ég treysti mér til dæmis ekki til að breyta því að dóttir mín borðaði það sem var í boði í leikskólanum hennar. En svo kom hún bara heim einn daginn, fjögurra ára, og tilkynnti okkur foreldrunum að hún væri hætt í leikskólanum út af matnum,“ segir Elín og hlær. „Hún var bara hætt. Sem betur fer var einn leikskólakennarinn búinn að vara mig við því að hún væri búin að vera að kvarta yfir því að þurfa að borða þennan mat og ég mætti alveg eiga von á því að hún myndi hætta að borða hann. Svo við buðum henni að taka með sér nesti sem hún var alveg sátt við. Og jafnvel þótt einhver félaga hennar í leikskólanum tali um að hún sé með ljótan mat heldur hún sínu striki og lætur það ekki hafa nein áhrif á sig.“

Gamli góði vinur, sykurinn
Elín segist einskis sakna úr gamla mataræðinu. Nema sykursins. „Það hefur aldrei komið fyrir að ég sakni þess til dæmis að fá mér steik. Og ég hélt ég hefði ekki verið að borða af einhverjum tilfinningalegum ástæðum. En ég hef fundið fyrir miklum söknuði eftir sykrinum. Mínum gamla vini,“ segir hún og skellir upp úr.

Mynd/Hallur Karlsson

„Þetta er alveg merkilegt. Það er bara eins og einhver náinn vinur hafi dáið þegar ég hugsa til sykursins. Ég hef oft hugsað með mér hvað það væri nú notalegt að fá sér eitthvað sykrað núna. En ég nota döðlur til að fá sætuna eða ávexti; við borðum mikið af ávöxtum á heimilinu. Svo get ég notað agave og hrásykur en það er talað um að stilla því í hóf þar sem það er svo ávanabindandi. Þetta er líka bara óhollt. En maturinn sem ég borða núna er miklu betri en sá sem ég borðaði áður. Hann er bæði bragðbetri og bragðmeiri. Bragðlaukarnir eru í raun eins og vöðvarnir í líkamanum, maður þarf að þjálfa þá. Sykur og salt mengar svo bragðlaukana og þegar maður tekur þetta alveg út fer maður bara að finna öðruvísi bragð af mat og manni fer að finnast öðruvísi hlutir sætir.“

Elín segist hafa verið í vandræðum með þyngdina frá því hún var tólf ára. „Ég var þrettán ára þegar ég fór í fyrstu megrunina sem var þá undir handleiðslu heilsugæslunnar. Þá borðaði ég 900 hitaeiningar á dag. Síðan ég byrjaði á þessu mataræði hef ég í fyrsta skipti getað hætt að pæla endalaust í hvað ég er að borða og hvort ég þyngist af því. Nú held ég bara mínu striki með hugann við heilsuna. Borða líklega tvöfalt magn af mat og líður betur en nokkru sinni fyrr. Og er jafnþung og þegar ég var ellefu ára,“ segir hún og brosir.

Myndir // Hallur Karlsson
Förðun // Emilíanna Valdimarsdóttir, förðunarfræðingur hjá Urban Decay
Föt // AndreA

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Samfélagsleg sóun á hæfileikum kvenna

Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé er einn eigenda ráðgjafarfyrirtækisins Empower sem sérhæfir sig í jafnréttismálum. Fyrirtækið hefur m.a. þróað...

Nýtt í dag

Þórdís Kolbrún gjörsigraði:- Haraldur sagðist hætta

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sigraði í próf­kjöri flokks­ins í Norðvest­ur­kjör­dæmi....

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -