2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Tilgangurinn ekki að verða fullnuma

  Orðið eilífðarstúdent hafði neikvæða merkingu hér á árum áður, enda þótti það til marks um stefnuleysi og leti að ljúka ekki námi í eitt skipti fyrir öll og taka til við að vinna fyrir sér. Nú eru hins vegar fáir sem telja að skella þurfi skóladyrunum í lás á eftir sér þótt prófi sé lokið. Fólk sækir sér nýja þekkingu alla ævi bæði tengda starfsgrein sinni og áhugamálum. Skoðum aðeins hvað er í boði fyrir þekkingarþyrsta.

   

  Myndlist

  Í mörgum bæjum og sveitarfélögum er að finna myndlistarskóla sem bjóða upp á námskeið fyrir bæði börn og fullorðna. Í Reykjavík, Mosfellsbæ, Kópvogi, Hafnarfirði og á Akranesi og Akureyri eru slíkir skólar. Klifið, fræðslusetur í Garðabæ, hefur boðið upp á skapandi námskeið í margvíslegum greinum og á namskeid.is er að finna upplýsingar um fjölbreytilega möguleika til að víkka sjóndeildarhringinn.

  Handverk

  AUGLÝSING


  En hægt er að skapa fallega hluti með fleiri tólum en pensli. Nálar voru í höndum listfengra kvenna mögnuð tæki. Annríki, þjóðbúningar og skart, og Heimilisiðnaðarfélagið hafa farið fremst í flokki þeirra sem halda við gömlum hefðum í útsaumi og handverki fyrri alda og ótalmargir sótt sér þangað aðstoð og þekkingu til að viðhalda búningahefð Íslendinga og að skapa eitthvað nýtt með hjálp gamalla aðferða. Upplýsingar um Heimilisiðnaðarfélagið má finna á slóðinni: http://www.heimilisidnadur.is/ en Annríki, þjóðbúningar og skart, er á Facebook.

  Ljósmyndun

  Víða er boðið upp á námskeið í ljósmyndun og nemendur geta valið allt frá því að læra að fara betur með sjálfvirku myndavélina sína að mynduppbyggingu, tækni við ljósmyndun og eftirúrvinnslu mynda. Þeir sem lengra eru komnir geta því þjálfað betur og skerpt næmt ljósmyndaauga sitt.

  Víða er boðið upp á námskeið í ljósmyndun.

  Tónlist og söngur

  Sífellt fleiri kjósa að hefja tónlistarnám á fullorðinsárum. Margir tónlistarskólar eru starfandi á landinu og hægt að nema bæði hljóðfæraleik og söng í þeim flestum. Í Reykjavík eru Söngskólinn, FÍH, Nýi tónlistarskólinn og Listaháskólinn stærstir. En á slóðinni: http://www.musik.is/Nok/Tskolar/tskolar.html  er að finna lista yfir alla tónlistarskóla á landinu og tengla inn á heimasíður þeirra þar sem finna má upplýsingar um námsframboð og fleira.

   Íþróttir og hreyfing

  Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem byrja að hreyfa sig með hópi félaga eða íþróttafélögum eru líklegri til að halda áfram og ná lengra en þeir sem gera þetta upp á eigin spýtur. Þess vegna er óhætt að mæla með að þeir sem ætla að standa upp úr sófanum í vetur og hreyfa sig meira fari á íþróttanámskeið. Hlaupanámskeið þar sem kennd er hlaupatækni og leiðir til að bæta þolið eru meðal þess sem boðið er upp á í flestum líkamsræktarstöðvum. Ballettfitness og fimleikar fyrir fullorðna hafa sömuleiðis ratað inn í dagskrá líkamsræktarstöðva og íþróttafélaga. Vatnsleikfimi, zumba, sjósund og jóga eru meðal spennandi valkosta sem bjóðast. Eftirfarandi eru gagnlegar vefslóðir fyrir þá sem vilja vera á iði í vetur: www.hreyfing.is, www.klifid.is, www.sporthusid.is, www.worldclass.is, www.jsb.is og www.reebokfitness.is.

  Regluleg hreyfing bætir líkamlega og andlega heilsu.

  Ferðast og fræðst

  Með hjálp ferðaskrifstofa eða Netsins er hægt að ferðast og fræðast. Tungumálaskólar, matreiðslunámskeið, myndlistarnámskeið, þjálfunarbúðir í íþróttum, vínsmökkun, ritlistartímar og fleira og fleira. Íslenskar ferðaskrifstofur hafa verið mörgum innan handar við að skrá sig á námskeið en það má líka gera í gegnum Netið.

  Margir kjósa líka að leita uppi fræðslu þegar komið er á staðinn og hvað getur verið skemmtilegra en að læra tyrkneska, marokkóska, ítalska eða spænska matargerð í fríinu.

  Ostagerð í Frakklandi og námskeið í hvernig gera á fullkomið kjötsoð, hjólabúðir á Mallorca þar sem fjallahjólagarpar stíga pedalana af krafti á leið upp brekkur eru líka meðal þeirra námskeiða sem íslenskir ferðamenn hafa tekið ytra.

  Með hjálp ferðaskrifstofa eða Netsins er hægt að ferðast og fræðast.

  Listunnendur geta sótt sér fræðslu um listir og listasögu en m.a. má nefna að í Cornwall og á Ítalíu er allt árið boðið upp á nám í margvíslegum listgreinum og þangað hafa Íslendingar sótt sér innblástur fyrir sköpunargáfuna.

  Ljósmyndaferðir njóta einnig sívaxandi vinsælda en lærður ljósmyndari leiðir jafnan hópinn og fer með hann um í leit að góðum myndefnum. Í leiðsögninni felst einnig fræðsla um tækni og úrvinnslu mynda.

  Íslensku ferðaskrifstofurnar bjóða einnig reglulega upp á ferðir með sérhæfðum fararstjórum sem ýmist fræða ferðlanga um listir, lífsstíl eða umhverfið. Þá eru oft fyrirlestrar og verklegir tímar á hótelinu en farið í skoðunarferðir sem tengjast þemanu þess á milli.

  Endurmenntun og enn meiri menntun

  Endurmenntun Háskóla Íslands og Opni háskólinn eru stofnanir sem hjálpa fólki að viðhalda þekkingu sinni og bæta við nýrri. Þar er hægt að sækja fjölbreytt námskeið á mörgum sviðum en einnig ljúka námsbrautum til aukinna starfsréttinda.

  Þeir sem hafa áhuga á að nýta sér möguleikana sem þar gefast geta leitað aðstoðar námsráðgjafa og starfsfólks og fundið leiðir til að skipuleggja nám sitt til að fá sem mest út úr því. Þeir sem hafa áhuga á frekari upplýsingum geta skoðað heimsíður Endurmenntunar og Opna háskólans.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is