„Tími valdamikilla hrotta er liðinn“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Oprah Winfrey flutti tilfinningaþrungna ræðu á Golden Globe verðlaunahátíðinni.

Oprah Winfrey hélt tilfinningaþrungna ræðu á Golden Globe verðlaunahátíðinni. Mynd / www.commons.wikimedia.org

Kona stundarinnar er án efa Oprah Winfrey. Mögnuð og innblásin ræða hennar á Golden Globe verðlaunahátíðinni hefur orðið ótal konum um allan heim hvatning til að láta #metoo-byltinguna verða upphaf að breyttum tímum á vinnumarkaði.

„Það veit ég fyrir víst að segja þinn sannleika er sterkasta vopn okkar allra. Og ég er sérstaklega hreykin af og innblásin af öllum þeim konum sem hafa fundið sig nægilega sterkar og valdefldar til að hefja upp raust sína og deila sínum persónulegu sögum.“

Hún sagði svo: „Í kvöld vil ég láta í ljós þakklæti mitt til allra kvenna er þolað hafa áralanga misnotkun og árásir, vegna þess að þær, eins og móðir mín, áttu börn sem þurfti að fæða, reikninga sem biðu borgunar og drauma að fylgja eftir.“

Oprah sagði í ræðu sinni sögu Recy Taylor sem var nauðgað af sex hvítum mönnum á leið heim úr messu. Þetta var á tímum aðskilnaðar og rasísma í Bandaríkjunum og lítið hægt að gera. „Mennirnir sem reyndu að brjóta hana niður voru aldrei sóttir til saka. Recy Taylor lést fyrir tíu dögum, rétt fyrir 98 ára afmæli sitt. Hún lifði eins og við höfum öll lifað í menningu brotinni af valdamiklum hrottum. Of lengi hefur hvorki verið hlustað á konur né þeim trúað hafi þær dirfst að segja sannleikann í andlit valds þessara manna. En þeirra tími er liðinn. Þeirra tími er liðinn.ׅ“ Líklega geta allar konur alls staðar tekið undir og vonað að þessi spá Opruh verði að áhrínsorðum.

Oprah sjálf á að baki sára lífsreynslu og hefur kynnst kynbundnu ofbeldi af eigin raun. Frændi hennar misnotaði hana níu ára gamla og eftir að hún varð fullorðin var hún í ofbeldissambandi um nokkurra árabil. Sá maður gerði lítið úr henni og beitti hana andlegu ofbeldi. Hún sendi heitar bænir til himnaföðurins og bað þess að ástandið batnaði og það rynni upp fyrir ástmanninum að hún væri einhvers virði. En svo uppgötvaði hún sannleikann. „Ég vissi að sannleikurinn var sá að meðan ég beið hjálpar guðs beið guð eftir að ég tæki ákvörðun. Hann beið þess að ég ákveddi að lifa því lífi sem mér stóð til boða eða kafna í þeim aðstæðum sem ég var föst í. Ég skildi að sannleikurinn var sá að ég er fín eins og ég er og að ég get verið sjálfri mér næg.“ Á þessu augnabliki skildi hún að ástin á ekki að vera sár, hún á að vera góð. Í framhaldi af þessari hugljómun hélt Oprah til Chicago og hóf að stjórna eigin spjallþætti en fram að því hafði hún unnið hjá lítilli stöð í Baltimore. Síðar fann hún svo þann kærleika sem hún þráði í Stedman Graham en þau hafa búið saman frá árinu 1986.

Smátt og smátt varð Oprah að stórveldi í bandarísku sjónvarpi. Hún er ein auðugasta kona heims og rekur í dag eigið framleiðslufyrirtæki OWN. Hún framleiðir kvikmyndir, gefur út tímarit, heldur úti vefsíðu og netsjónvarpi auk ótal góðgerðaverkefni sem hún stendur fyrir víða um heim. Oprah trúir að ef menn horfist í augu við sannleikann og lifi lífinu með heiðarleika og einlægni að leiðarljósi öðlist þeir allt sem þeir vilji.

Texti / Steingerður Steinarsdóttir

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira