2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Tískukóngurinn Karl Lagerfeld kveður

  Hönnuðurinn Karl Lagerfeld lést þann 19. febrúar síðastliðinn. Hann var áttatíu og sex ára. Sennilega er óhætt að fullyrða að fáir eða engir hafi haft jafnvíðtæk áhrif á tískuna og hann.

   

  Karl var ótrúlega skapandi hönnuður og endurnýjaði sig sífellt alla ævina. Hann var einnig að alveg fram í andlátið og síðustu teikningar hans lágu á borðinu þegar hann dó.

  Hann var þýskur að uppruna og ólst upp í Hamborg. Hann var viðkvæmur fyrir uppruna sínum og aldri en foreldrar hans, Otto og Elisabeth, voru miðstéttarfólk og honum fannst það frekar litlaust. Þess vegna spann hann upp þá sögu að móðir hans hefði heitið Elisabeth af Þýskalandi eða Elisabeth of Germany og faðir hans hefði verið af sænskum ættum. Hvorugt var satt. Hann hélt því einnig lengi fram að hann væri fæddur 1938, breytti því síðar í 1935 en kirkjubækur í Hamborg taka af öll tvímæli um að kappinn var fæddur árið 1933.

  Karl Lagerfeld skapaði alveg fram í andlátið og síðustu teikningar hans lágu á borðinu þegar hann dó.

  AUGLÝSING


  Meginhluta ævinnar bjó hann þó í París en þangað kom hann tvítugur. Hann sló í gegn þegar hann vann samkeppni um best hönnuðu yfirhafnirnar en meðan á keppninni stóð kynntist hann bæði Yves Saint Laurent og Balmain. Árið 1958 var hann ráðinn til Fendi til að gera loðfeldalínu þeirra nútímalegri og hann var viðloðandi það fyrirtæki allar götur síðan.

  Það var svo árið 1982 að hann var ráðinn yfirhönnuður og listrænn stjórnandi Chanel. Fyrirtækið var þá í mikilli lægð og hafði verið síðan Coco Chanel lést áratug fyrr. Karl blés nýju lífi í hönnunina og þótti einkar lagið að halda í þær línur og form sem Coco hafði átt frumkvæði að en gæða þær lífi, frumleika og nútímalegu yfirbragði.

  Frá tískuvikunni í New York árið 2017.

  Karl Lagerfeld var mikill vinnuþjarkur. Hann vann frá því snemma á morgnana og þar til seint á kvöldin. Þótt hann bæri ábyrgð á öllum vörulínum Chanel gaf hann sér tíma til að hanna fyrir mörg önnur fyrirtæki líka, meðal annars H&M, Long Tall Sally og fleiri merki.

  Karl Lagerfeld fyrir H&M.

  Hann var alltaf tilbúinn að styðja góðan málstað og var þekktur fyrir að leggja margvíslegum góðgerðastofnunum lið. Að auki var hann mjög fær teiknari og skopmyndir hans þykja sérstaklega snjallar. Eftir að hann lést urðu margir til að spá því að áhrifa hans muni gæta í tískuheiminum lengi enn og líklega er það ekki ofmælt.

  Sjá einnig: Karl Lagerfeld er látinn

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is