2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Tröll sem stela jólunum

  Ný teiknimynd eftir hinni vinsælu sögu Dr. Seuss, The Grinch Who Stole Christmas, er nú sýnd í bíóhúsum. Sennilega eru í öllum fjölskyldum ígildi hans eða Ebenezers Scrooge í jólasögu Dickens. Í opinberu lífi hefur einnig verið að finna nokkra slíka er gert hafa sitt besta til að eyðileggja jólin fyrir öðrum.

  Fyrsti forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, hét Brock Chisholm. Hann var kanadískur læknir og mikill mannvinur. Samt gat hann ekki stillt sig um að ýta aðeins við börnum og foreldrum þeirra árið 1945 þegar hann lýsti því yfir að hverju því barni sem leyft væri að trúa á jólasveininn væri veruleg hætta búin. Brock taldi að svoleiðis hjátrú og vitleysa eyðilegði varanlega hæfni barnanna til gagnrýninnar hugsunar og raunsærrar rökfærslu. Úps! Eins og hann benti á: „Hver sá sem trúir því að jólasveinninn geti farið um alla jörðina og deilt gjöfum til allra á einni nóttu er líklegur til að fá magasár fyrir fertugt, verða bakveikur og vera ófær um að hugsa á raunsönnum nótum kæmi til stríðs í heimalandi hans.“ Já, svo mörg voru þau orð.

  Danski presturinn Paul Nedergaard gerði allt vitlaust í Kaupmannahöfn árið 1958 þegar hann fordæmdi fjáröflun danska velferðarráðneytisins til að létta fátækum börnum lífið. Til sölu voru selir sem héldu á jólasveininum. Prestinum fannst þetta heiðin skurðgoð og hvatti því alla til að kaupa þau alls ekki.

  Nokkrum fleiri tröllum má kynnast í kökublaði Vikunnar.

  Allir hafa sínar skoðanir á jólalögum og eiga sitt uppáhald. Dick Whittinghill, plötusnúður í Los Angeles, var ekki par hrifinn af Elvis Presley og þverneitaði að spila lög af fyrstu jólaplötu söngvarans árið 1957. Hann sagði að það væri álíka helgispjöll og að biðja burlesque-dansmeyna Tempest Storm að klæða sig í jólasveinabúning og færa börnunum gjafir. Meðal laga á þessari plötu voru Blue Christmas, White Christmas, I’ll Be Home for Christmas, og O, Little Town of Bethlehem. Líklega eru ekki margir sem taka undir skoðanir Dicks í dag, enda þessi lög löngu orðin klassísk.

  AUGLÝSING


  Rithöfundurinn Ambrose Bierce var enginn mannvinur. Hann kallaði jólin gervihátíð og hafði litla trú á að allir öðluðust þá ró í hjarta, frið og fögnuð. Meðal annars lýsti hann því yfir að hann hataði allan blekkingarleikinn í kringum jólin og kvaðst vonast til að hann þyrfti ekki að hitta móður sína í framhaldslífinu, væri það þá eitthvert, vegna þess að hún hafði reynt að telja honum trú um tilvist jólasveinsins þegar hann var barn.

  Nokkrum fleiri tröllum má kynnast í kökublaði Vikunnar í ár.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is