• Orðrómur

Twiggy vill engin leiðindi

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Breska fyrirsætan Twiggy var átrúnaðargoð heillar kynslóðar í heimalandi hennar, Bretlandi, og víða um heim. Hún heillaði marga með dulkynja útliti sínu; grönnum vextinum, stóru augunum, sem voru umlukin kolsvörtum augnhárum, og drengjakollinum. Þótt flestir muni ef til vill eftir henni sem fyrirsætu var fyrirsætuferill hennar stuttur, aðeins fjögur ár. Hún hefur hins vegar komið víða annars staðar við; meðal annars í sjónvarpi, á leiksviði og á kvikmyndatjaldinu. Nú er Twiggy orðin sjötug en segir að henni líði eins og sér leið á þrítugsaldri.

Twiggy, eða Lesley Hornby eins og hún var skírð, fæddist í Bretlandi 19. september árið 1949. Þegar Twiggy var að alast upp var hún kölluð Twigs sem vísaði til þess hversu grannvaxin hún var en enska orðið Twig merkir sproti eða kvistur. Þegar hún var byrjuð að sitja fyrir stakk þáverandi kærasti hennar, Nigel Davies, upp á því að hún breytti nafni sínu í Twiggy. Sem fyrr mátti rekja nafnið til þess hversu grönn hún var en enska orðið twiggy merkir að vera mjög grannur.

Twiggy er orðin 70 ára. Mynd / EPA

- Auglýsing -

Á hárgreiðslustofunni fór allt af stað

Þegar Twiggy var sextán ára, árið 1966, fór hún á hárgreiðslustofu í London. Hún hafði verið að safna hári til að vera með sítt hár eins og átrúnaðargoðið hennar, fyrirsætan og leikkonan Jean Shrimpton en sá sem rak hárgreiðslustofuna, hárgreiðslumaður fræga fólksins, Leonard, spurði hvort hann mætti lita á henni hárið og klippa það stutt fyrir myndatöku. Hann væri að leita að módeli til að prófa nýja klippingu.

Twiggy sló til og eftir breytinguna tók ljósmyndarinn Barry Lategan nokkrar myndir af henni. Myndirnar voru svo hengdar upp á hárgreiðslustofunni þar sem blaðamaðurinn McSharry, sem skrifaði um tísku hjá dagblaðinu the Daily Express, rak augun í þær og bað um að fá að hitta þessu ungu stúlku. Úr varð að Deirdre lét taka fleiri myndir af Twiggy og nokkrum vikum síðar birtist grein um hana í blaðinu ásamt myndum og hún sögð vera andlit ársins 1966.

- Auglýsing -

Twiggy hefur prýtt yfir 100 forsíður á tímaritum um allan heim.

Það leið ekki á löngu þar til unga stúlkan var komin á fullt í fyrirsætustörfunum og hvert verkefnið tók við af öðru. Twiggy hefur sjálf sagt að hún hafi aldrei búist við því að ná jafnlangt og fyrirsæturnar sem hún sá í blöðunum og dáðist af. Henni hafi sjálfri ekki fundist hún neitt sérlega myndarleg og gat ekki skilið hvernig öðru fólki gat fundist það. En mánuði eftir að Twiggy birtist í the Daily Express sat hún fyrir í myndatöku fyrir Vogue, þeirri fyrstu af mörgum. Ári eftir hárgreiðsluna örlagaríku, eða 1967, var hún orðin þekkt um allan heim og starfaði meðal annars í Bandaríkjunum, Frakklandi og Japan.

Eitt auðkenna hennar, líkamsvöxturinn, þótti ekki bara aðlaðandi

- Auglýsing -

Twiggy var lágvaxin af fyrirsætu að vera, aðeins 167 sentímetrar á hæð og 51 kíló en smávaxinn líkami hennar var eitt af því sem varð fljótt hennar auðkenni og heillaði fólk. Auk þess var það stutta, strákalega klippingin og áberandi dökku augnhárin sem stundum voru með þrefalt lag af gerviaugnhárum.

Twiggy var lágvaxin af fyrirsætu að vera, aðeins 167 sentímetrar á hæð.

Unglingslegur vöxtur hennar þótti fullkominn fyrir svokallaða dulkynja tísku sem varð vinsæl á sjöunda áratugnum; sætir A-línulaga kjólar með krögum og hálsbindum og kjólar með smáatriðum frá herbúningum. Þá kom hönnuðurinn Yves Saint Laurent með herrajakkaföt sem voru hönnuð sérstaklega fyrir konur. Á sama tíma komu aðrir hönnuðir, til dæmis Pierre Cardin, með fatnað sem hentaði bæði konum og körlum.

Ekki voru þó allir hrifnir af því æði sem líkamsvöxtur Twiggyar hrinti af stað og allt frá byrjun heyrðust gagnrýnisraddir sem fundu bæði að Twiggy og tímaritunum sem birtu af henni myndir. Strákalegur og örmjór vöxtur hennar var gagnrýndur fyrir að ýta undir óheilbrigða líkamsímynd kvenna. Mörgum árum síðar talaði Twiggy sjálf gegn þeirri stefnu tískuhúsanna og tímarita að hafa fyrirsætur sínar örmjóar. Hún sagðist sjálf hafa verið grönn frá náttúrunnar hendi. Hún hafi alltaf borðað skynsamlega en hennar gen hafi gert það að verkum að hún var grönn.

„Ekki vera leiðinleg“

Fyrirsætuferill Twiggyar var ekki langur; hún ákvað að leggja hann á hilluna árið 1970, aðeins fjórum árum eftir að ferillinn hóf. Þegar hún tilkynnti að hún væri hætt sagði hún að það væri ekki hægt að vera herðatré allt sitt líf. Það er hins vegar dálítið merkilegt og Twiggy hefur nefnt það sjálf í viðtölum, að fólk minnist hennar aðallega vegna fyrirsætuferilsins þótt hann hafi í raun bara verið örlítill hluti af lífi hennar.

Árið 1973 var hún framan á sjöundu plötu Davids Bowie, Pin Ups, ásamt Bowie sjálfum.

Meðal þess sem Twiggy hefur gert í gegnum tíðina er að stjórna spjallþætti í sjónvarpi, hannað fata- og snyrtivörulínu og verið dómari í bandaríska raunveruleikaþættinum America´s Next Top Model, þar sem leitað var að nýjum fyrirsætum. Hún hefur einnig átt farsælan feril sem leikkona á sviði, í sjónvarpi og á kvikmyndatjaldinu. Hún fékk tvenn Golden Globe-verðlaun fyrir hlutverk sitt í The Boy Friend frá árinu 1971 og hlaut tilnefningu til Tony-verðlaunanna sem besta leikkona í söngleik árið 1983 fyrir hlutverk sitt í Broadway- söngleiknum My One and Only.

Í fyrra hlaut hún nafnbótina Dame af bresku konungsfjölskyldunni og í nýlegu viðtali við tímaritið Platinum segir Twiggy að Karl Bretaprins hafi sagt við það tilefni að það hafi verið kominn tími til að hún yrði Dame Twiggy. Í viðtalinu er farið um víðan völl og Twiggy meðal annars spurð út í fatastíl hennar. Hún segist vera of gömul fyrir pínupils og háa hæla en að sér líði vel í strigaskóm og gallabuxum. „Mér finnst að maður ætti að fá að vera í því sem manni líður vel í,“ segir hún. „Ég er ekki hrifin af reglum. Eins og einhver ráði því í hverju tvítug manneskja gengur og hverju fertug eða sjötug manneskja gengur í. Í guðanna bænum, ekki vera leiðinleg.“

Bara það besta eða sleppa því

Enn þann dag í dag fær Twiggy aðdáendabréf frá konum á öllum aldri. Hún segir fólk stoppa sig úti á götu og tala við sig eins og þau þekkist. „Og ég held að þeim finnist þau virkilega þekkja mig,“ segir hún í viðtalinu við Platinum. „Það gerist eiginlega í hverri viku að einhver segi: Hæ Twigs, hvað segirðu gott?“

Þegar blaðamaður Platinum spyr hvort hún hafi farið í einhvers konar lýtaaðgerð svarar Twiggy að sér myndi nú kannski ekki veita af en hún sé ekki hrifin af því hvernig sumir líta út eftir slíkar aðgerðir. Og hún sé ekki hrifin af fyllingarefnum sem sé sprautað í andlit fólks svo það líti út eins og íkornar á eftir. Hún segist hins vegar vera þess fullviss að hollt og gott mataræði eigi sinn þátt í unglegu útliti. „Ég trúi því að maður sé það sem maður borðar og ég er mjög góður kokkur, þótt ég segi sjálf frá. Ég trúi því að maður eigi að elda ferskan mat og elda hann frá grunni. Og kaupa lífrænt ef hægt er því þetta er það sem er að fara inn í mann. Ég er ekki grænmetisæta en ef maður ætlar að kaupa kjöt og kjúkling, þá er eins gott að kaupa það besta sem hægt er eða sleppa því.“

Twiggy hefur gefið út 9 plötur frá árinu 1971, þar á meðal Romantically Yours og My One and Only. Twiggy hefur skrifað 5 bækur.

Twiggy varð sjötug í september í fyrra og segir í viðtalinu að þegar hún hugsi um sjötugt finnist sér það hljóma fornaldarlegt. Henni líði þó nákvæmlega eins og þegar hún var á þrítugsaldri. Hún sé bara þakklát fyrir að vera heilsuhraust og hamingjusöm.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Snautlegasta framboðið

Sjálfstæðismenn hafda nú kynnt lista sinn í Norðvesturkjördæmi þar sem bændahöfðinginn og þingmaðurinn, Haraldur Benediktsson, situr í...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -