2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Unnur Steinsson lætur kjaftasögur sem vind um eyru þjóta og nýtur lífsins í Hólminum

  „Ég er blessunarlega laus við að hafa áhyggjur af kjaftasögum og mér gæti ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst,“ segir Unnur Steinsson sem býr nú í Stykkishólmi þar sem hún rekur hótel Fransiskus. Unnur varð landsþekkt þegar hún var kjörin Ungfrú Ísland árið 1983 og segir kjaftasögur um sig ekki hafa farið fram hjá sér en hún hafi alltaf látið þær sem vind um eyru þjóta.

   

  Unnur segir kostina við að búa í Stykkishólmi vera marga en sagan sem þessi gamli bær hafi að geyma hafi heillað þau hjónin.

  Mynd/Hallur Karlsson

  „Hér er margt hægt að gera og stutt í alla afþreyingu. Við erum líka hestafólk og áður en við fluttum hingað vorum við með hestana okkar hér á sumrin og á haustin en tókum þá alltaf í bæinn yfir vetrarmánuðina. Það tekur mig tvær mínútur að skjótast upp í hesthús og það er alveg frábært að geta sinnt hestunum svona mikið. Við bjuggum svo sem ekki langt frá þeim í Árbænum en þetta er bara einhvern veginn allt svo léttara og öðruvísi hérna í Hólminum. Ég held hreinlega að klukkan gangi hægar hér en í Reykjavík, alla vega fannst okkur við græða nokkra tíma á sólarhring eftir að við fluttum í Hólminn.“

  „Ég lít alltaf á það þannig að maður uppsker eins og maður sáir.“

  AUGLÝSING


  Unnur og eiginmaður hennar, Ásgeir, hafa verið saman í tæp tuttugu ár en þau kynntust upphaflega í Háskóla Íslands, þar sem þau voru saman í endurmenntunarnámi. Leiðir þeirra lágu svo saman nokkrum árum síðar, þá bæði fráskilin. Aðspurð hvort það hafi verið ást við fyrstu sýn segir Unnur að ástin hafi nú líklega kviknað í Háskólanum þótt sambandið hafi ekki byrjað fyrr en nokkrum árum seinna.

  Unnur segist sannarlega hafa fengið veður af kjaftasögum af skilnaðinum við fyrrverandi eiginmann sinn sem líklega fóru á flug vegna þess að Unnur og Ásgeir byrjuðu að vera saman fljótlega eftir skilnaðinn. „En ég er blessunarlega laus við að hafa áhyggjur af kjaftasögum og mér gæti ekki verið meira sama um hvað öðrum finnst. Ég lít alltaf á það þannig að maður uppsker eins og maður sáir; ef maður hefur komið sér í einhver vandræði þá þarf maður bara að koma sér úr þeim sjálfur. Og það skiptir engu máli þótt einhver sé að velta sér upp úr því.“

  Mynd / Hallur Karlsson

  Þú hefur kannski verið búin að læra að brynja þig fyrir umtali?
  „Já, mér leiðast líka bara kjaftasögur og hef til dæmis reynt að kenna börnunum mínum það að maður vill ekki taka þátt í þeim því það kemur alltaf í bakið á manni sjálfum. Ef þú hefur ekki orðið vitni að einhverju með eigin augum og eyrum, ef viðkomandi sagði þér eitthvað ekki sjálfur, þá er ekkert til í því sem sagt er. Fólk er alltaf tilbúið að benda á aðra en gleymir því að þegar maður bendir með vísifingrinum á einhvern er maður að benda með þremur öðrum fingrum á sjálfan sig. Svo hef ég líka alltaf vitað sjálf hvað ég stend fyrir.“

  Viðtalið í heild má lesa í nýjasta tölublaði Vikunnar.

  Tryggðu þér áskrift að Vikunni í vefverslun

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is