Uppgjör á fyrra lífi

Díana Júlíusdóttir er ljósmyndari og náttúrubarn sem fékk fjallgöngubakteríuna ári eftir að hún skildi við mann sinn. Þau tóku ákvörðun um að vanda sig við skilnaðinn, barnanna vegna. Í viðtali sem lesa má í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar, segist Díana hafa lært mikið af vinkonu sinni sem lést úr krabbameini árið 2015.

Díana fékk fjallgöngubakteríuna árið 2012 og þegar hún hafði gengið á um það bil tuttugu fjöll var komið að því að ganga á hæsta fjall Íslands, Hvannadalshnúk.

Díana segir það ekki hafa verið auðvelt að ganga á Hnúkinn með 25 kílóa bakpoka og tvær myndavélar um hálsinn en það hafi verið þess virði. „Kannski hafa einhverjir sem voru með mér í línu verið pirraðir yfir því hvað ég bað oft um að stoppa til að taka myndir,“ segir hún og skellir upp úr. „En Hvannadalshnúkur breytti lífi mínu og það má segja að myndirnar sem ég tók af honum í þessari ferð séu upphafið að mínum ljósmyndaraferli. Þær komu út í bók sem heitir Hnúkurinn og ég gaf út í fyrra. Hún er eiginlega uppgjör á mínu fyrra lífi.“

Upphaflega ætlaði ég að vinna lokaverkefni um vinkonu mína sem hafði greinst með illkynja krabbamein og fylgja henni í gegnum krabbameinsmeðferðina.

„Skrýtið þetta líf,“ segir Díana hugsi og fær sér sopa af kaffinu. „Þegar ég byrjaði í Ljósmyndaskólanum var ég ekki að hugsa um fjallgöngur, landslag og fjöll sem myndefni. Upphaflega ætlaði ég að vinna lokaverkefni um vinkonu mína sem hafði greinst með illkynja krabbamein og fylgja henni í gegnum krabbameinsmeðferðina. En svo breyttist það og þá ákvað ég að fara að taka myndir af fjöllum eftir hvatningu frá bekkjarfélögum mínum.“

Vinkona Díönu, Helga Hafsteinsdóttir, lést eftir harða baráttu við krabbamein í febrúar 2015. „Hún var bara 41 árs þegar hún dó og hún var svo ótrúlega dugleg í sínum veikindum. Ég lærði mjög mikið af henni. Til dæmis að lifa lífinu lifandi og að láta drauma mína rætast.“

AUGLÝSING


Með jákvæðnina að vopni

Árið 2011 var Díana gift, þriggja barna móðir í Reykjavík þegar hún og þáverandi eiginmaður hennar, Páll, tóku þá ákvörðun að skilja. Hún segir að þrátt fyrir allt hafi skilnaðurinn gengið vel og þau hafi verið ákveðin í að vanda sig, barnanna vegna.

„Við vorum búin að vera saman í nítján ár og auðvitað er skrýtið að skilja við manneskju eftir svona langan tíma. Þetta var eitthvað sem við vildum bæði.“

Ný og spennandi Vika kemur út í dag.

Díana segir að það hefði vel verið hægt að falla í þá gryfju að vera bitur og reið eftir skilnaðinn en hún hafi verið ákveðin í að detta ekki þá gryfju. „Ég held að það hafi hjálpað mér mikið að hugsa að ég yrði að vera í lagi barnanna vegna. Ég sagði við sjálfa mig að ef ég væri í ólagi, þá yrðu börnin í ólagi.“

Viðtalið við Díönu má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Vikunnar sem kemur í verslanir í dag.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Helga Sæunn Þorkelsdóttir
Föt / Huginn Muninn og DisDis

Ekki missa af þessum

Engar færslur fundust.

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is