Uppreisnargjörn gáfukona

Deila

- Auglýsing -

Marietta Peabody Tree var ein af þeim sem fæddust með silfurskeið í munni. Hún var falleg, gáfuð og forrík en á henni sannaðist hið fornkveðna að ekki fara alltaf saman gæfa og gjörvileiki. Hún gerði uppreisn gegn gildum sinnar stéttar og samtíðar og vildi fara eigin leiðir í lífinu. Það varð hún að gjalda dýru verði.

 

Marietta fæddist árið 1917 og var menntuð og þjálfuð í kurteisisiðum eins og tíðkaðist meðal bandarísku yfirstéttarinnar. Vel uppalin yfirstéttarkona þess tíma lagði metnað sinn í að giftast manni sem líklegur væri til að komast til frama og áhrifa, og reynast honum góð kona. Marietta var ekki á því að feta þann slóða á lífsleið sinni heldur ákvað hún að leita sjálf frama í stjórnmálum. Hún var alla tíð mikil talskona mannréttinda og tók þátt í baráttu svertingja í Bandaríkjunum fyrir borgaralegum réttindum.

Mariettu gekk allt í haginn í starfi og hún var að lokum útnefnd mannréttindafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Í einkalífinu gekk ekki jafnvel og segja má að hún hafi borgað uppreisn sína gegn hinu hefðbundna kvenhlutverki dýru verði. Marietta var einkadóttir og elst fimm barna hjónanna Mary og Malcolms Peabody. Faðir hennar var prestur og móðir hennar húsmóðir. Í móðurætt hennar var hins vegar að finna mikla kvenskörunga, þar á meðal móðurömmu hennar sem var einn stofnenda Radcliff-háskóla, eins fyrsta háskóla fyrir konur í Bandaríkjunum og eins hins virtasta.

Ósamrýnd fjölskylda

Þegar Marietta var átta ára flutti fjölskyldan til Philadelpiu þar sem pabbi hennar tók við prestsembætti í stórri kirkju og skömmu síðar hlaut hann biskupstign. Mariettu leið ekki vel á nýja staðnum og henni lynti illa við bræður sína. Það endaði með því að hún var send í heimvistarskóla og þar gekk henni mjög vel. Marietta fór í „finishing school“ (lokaskóla) á Ítalíu en slíkir skólar voru víða um Evrópu á þeim árum og þar voru ungum yfirstéttarstúlkum kenndir góðir siðir og kvenlegar dyggðir.

Marietta var kynnt fyrir yfirstétt New York-borgar, eða var „debutante“, eins og það er kallað þegar stúlkur úr fínum fjölskyldum þykja hafa náð aldri til að taka þátt í samkvæmislífinu, veturinn 1935-1936. Hún var fljót að finna að ýmislegt mátti gera sér til gamans í stórborginni en þegar föður hennar, hinum siðavanda klerki, blöskraði líferni dótturinnar innritaði hann hana í háskólann í Pennsylvaniu.

Hér eru þrjár kynslóðir kvenna, móðir Mariettu, hún og dætur hennar.

Í fyrstu var Marietta á móti þessari ákvörðun föður síns en þegar hún fór að mæta í tíma vaknaði fljótt hjá henni áhugi á náminu og hún stundaði það af sama áhuga og elju og hún hafði áður ástundað skemmtanalífið. Hún vann með skólanum sem módel hjá Wanamaker-verslunarhúsinu, aðallega til að verða sér úti um vasapeninga sem hún þurfti ekki að gera sparsömum foreldrum sínum grein fyrir í hvað færu. Marietta lauk þó aldrei nema fyrsta árinu í háskóla því um veturinn hitti hún Desmond FitzGerald sem var lögfræðingur frá Harvard og mjög íhaldsamur repúblikani. Þau giftust og fluttu til New York þar sem Marietta reyndi að halda áfram námi. Hún varð hins vegar fljótt ófrísk og þegar dóttir hennar fæddist varð hún aftur að hætta við háskólanámið.

Árásin á Pearl Harbor var gerð u.þ.b. ári seinna og Desmond gekk í herinn. Hjónin höfðu ráðið barnfóstru, eins og venja var meðal fólks af þeirra stétt, en Mariettu leiddist aðgerðarleysið. Hún réð sig í vinnu hjá Nelson Rockefeller árið 1942 en þau voru miklir vinir. Hún var gestgjafi og leiðsögumaður á vegum the Office of Inter-American Affairs (skrifstofu innanríkismála) og hlutverk hennar var að sjá um opinbera gesti sem leið áttu um Manhattan.

Samúð með lítilmagnanum

Síðar fékk hún vinnu við heimildaöflun fyrir tímaritið Life en líf almúgans sem hún kynntist í fyrsta sinn í gegnum starf sitt varð til þess að hún fór að fylgja demókrötum í stjórnmálum. Þegar Desmond kom heim úr stríðinu þekkti hann sína heittelskuðu tæplega fyrir sömu konu. Hún hafði ekki bara skipt rækilega um skoðun á því hvernig landinu væri best stjórnað heldur hafði hún blómstrað sem kona og baðað sig í aðdáun karlmanna. Hún hafði heldur ekki bælt tilfinningar sínar og beðið þess að þær kólnuðu heldur hafði hún hellt sér út í ástarsambönd með tveimur þessara aðdáenda.

Fyrst átti hún í eldheitu sambandi við leikstjórann John Huston sem alla ævi sagði hana vera fallegustu og mest kynæsandi konu sem hann hefði nokkru sinni kynnst. Skömmu eftir að sambandi hennar og Johns lauk tók hún saman við Ronald Tree sem var mun rólyndari maður en John Huston.

Ronald var tuttugu árum eldri en Marietta og var einkaerfingi Marshall Field-stórmarkaðanna sem var mikið fjármálaveldi í Bandaríkjunum. Hann var fæddur í Englandi og þótt foreldrar hans væru bandarískir var hann kosinn á þing fyrir breska Íhaldsflokkinn og gegndi þingmennsku í breska þinginu í þrettán ár. Hann hafði vakið athygli fyrir að skipuleggja andstöðu flokks síns gegn friðarsamningum bresku stjórnarinnar við nasistastjórnina í Þýskalandi áður en stríðið braust út. Sennilega hefur það átt sinn þátt í því að heimili hans, Ditchley Park í Oxfordshire, var valið „örugg höfn“ fyrir sir Winston Churchill forsætisráðherra meðan á loftárásunum á London stóð.

Desmond FitzGerald reyndi í fyrstu að lappa upp á hjónabandið en sá fljótt að það var til einskis. Kona hans var flutt frá honum og hafði engan áhuga á að snúa til baka. Hann samþykkti að skilja við hana og þann 25. júlí árið 1947 fékk hún skilnaðarpappírana í hendur. Strax næsta dag giftist hún Ronald Tree en það var dropinn sem fyllti mælinn hjá íhaldsamri og siðavandri fjölskyldu hennar. Eftir þetta var samband Mariettu við foreldra hennar stirt og bræður hennar sem alltaf höfðu öfundað hana notuðu flestir tækifærið til að snúa við henni baki.

Leiddist breska yfirstéttin

Hún sá hins vegar að henni væri ómögulegt að gera fjölskyldumeðlimum til hæfis, til þess væri hún of ólík þeim, og ákvað að upp frá þessu skyldi hún láta eigin samvisku ráða lifnaðarháttum sínum. Hún og Ronald bjuggu í næstu tvö árin í Ditchley Park. Þótt Marietta hefði alla ævi umgengist þá sem töldu sig rjómann af bandarísku þjóðinni var það alveg ný reynsla fyrir hana að komast í kynni við breska háaðalinn og konungsfjölskylduna. Hún átti stundum erfitt með að semja sig að siðvenjunum og leiddist að þurfa að halda uppi lágstemmdum og kurteislegum samræðum við flokksbræður manns síns, sérstaklega í ljósi þess að hún var þeim algjörlega ósammála í flestum efnum. Þegar ný skattalög í Bretlandi gerðu mönnum ókleift að reka jafnstórar og dýrar fasteignir og Ditchley Park fluttu þau hjónin til Bandaríkjanna en dvöldu á sumrin á eynni Barbados þar sem Ronald átti hús.

Marietta var himinlifandi að komast aftur til New York og fljótlega eftir að Penelope, yngri dóttir hennar, fæddist hellti hún sér út í stjórnmálin og stundaði samkvæmislífið. Hún var fljótlega kosin fulltrúi hverfisins síns í Demókrataflokknum og árið 1954 var hún einn kjörinna fulltrúa á landsþingi demókrata. Hún byrjaði að taka þátt í mannréttindabaráttu af miklum krafti á opinberum vettvangi og þegar Adlai Stevenson varð forsetaefni demókrata árið 1952 tók hún þátt í kosningabaráttu hans af miklum dugnaði. Hún og Adlai urðu góðir vinir og í lok árs 1953 var ljóst að þau voru orðin elskendur. Ronald varði mestum tíma sínum á Barbados og hafði alveg gefið stjórnmál upp á bátinn.

Adlai Stevenson, elskhugi Mariettu.

Marietta dvaldi í New York og vann eins og berserkur fyrir Adlai í bæði skiptin sem hann gerði tilraun til að ná kosningu sem forseti. Hún varð yfirmaður mannréttindanefndar Demókrataflokksins árið 1960 og John F. Kennedy útnefndi hana fulltrúa Bandaríkjanna í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Adlai Stevenson var þá sendifulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum og elskendurnir unnu mjög mikið saman. Þau ferðuðust mikið vegna starfs síns og þegar Adlai datt niður og dó fyrir utan sendiráð Bandaríkjanna í London árið 1965 var hún með honum. Hún var gjörsamlega niðurbrotin af sorg eftir lát hans.

Marietta sver embættiseið þegar hún var gerð að fulltrúa Bandaríkjanna í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Eftir það vann hún með Robert Llewelyn Davies arkitekt að uppbyggingu íbúðahverfa um allan heim. Maður hennar Ronald Tree hafði verið heilsuveill um árabil og árið 1976 dó hann af völdum heilablæðingar.

Marietta stóð þá ein í fyrsta sinn á ævi sinni, orðin 59 ára gömul. Hún einbeitti sér eftir það að því að sinna fjármálum sínum og þótt hana skorti ekki vonbiðla giftist hún aldrei aftur. Meðal elskhuga hennar var Najeeb Halaby, faðir Lisu þeirrar sem giftist seinna Hussein Jórdaníukonungi og varð Noor drottning. Marietta hélt því reyndar fram að hún hefði kynnt þau hvort fyrir öðru, Hussein og Lisu.

Marietta dó árið 1991, þá 74 ára, úr brjóstakrabba. Hún hafði haldið veikindum sínum vandlega leyndum fyrir sínum nánustu því hún vildi ekki íþyngja þeim. Þetta var fyllilega í samræmi við þá hugsjón sem hún lifði eftir alla tíð en hún sagði um starf sitt að hún teldi það skyldu sína að endurgjalda allt það góða sem henni hefði hlotnast í lífinu með því að vinna að því að bæta líf allra í samfélaginu. „Ég vil reyna að greiða guði það sem ég skulda honum,“ sagði hún. Að sögn þeirra sem þekktu hana lýsa fá orð henni betur en þessi setning.

- Advertisement -

Athugasemdir