2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Væri enn á Myspace ef…“

  Tónlistarmaðurinn og fasteignasalinn Böddi Reynis hefur um árabil spilað hér og þar um landið og stöku sinnum erlendis að eigin sögn, bæði opinberlega og í einkasamkvæmum. Vikan setti hann undir smásjána.

   

  Böddi er með mörg járn í eldinum. „Ég er líka með lítið viðburðafyrirtæki sem heitir Arctic Events þar sem ég skipulegg viðburði fyrir fyrirtæki og ferðaþjónustuaðila og verkefnum fer sífellt fjölgandi. Þar að auki er ég fasteignasali og rek fasteignasöluna Eignamarkaðurinn. Svo er það uppáhaldsverkefnið; að vera pabbi, en ég á tvö yndisleg börn sem eru tíu og þrettán ára.“ Vikan skellti Bödda undir smásjánna þar sem hann segist meðal annars vera „late bloomer“ í knattspyrnuheiminum og asnalega agalaus þegar kemur að fæðu.

  Fullt nafn: Böðvar Rafn Reynisson, alltaf kallaður Böddi.
  Aldur: 41
  Starfsheiti: Tónlistarmaður og fasteignasali.
  Áhugamál:
  Þau eru mörg en allt of fá sem ég gef mér tíma til að sinna. Ég ferðast töluvert og hef unun af því, bæði í leik og starfi, en þó sérstaklega með krökkunum auðvitað. Ég spila mikið fótbolta og gæti sparkað í tuðru allan daginn alla daga ef skrokkurinn leyfði. Ég er late bloomer í knattspyrnuheiminum og því frábært tækifæri að fá að láta vita af sér hér. Ég byrjaði ekki að spila fyrr en 34 ára og lék minn fyrsta keppnisleik fyrir Þrótt – Old boys 40+ í fyrrasumar #lifi og stefni auðvitað á að komast í stórt lið á erlendum vettvangi innan skamms. Tónlistin er augljóslega stórt áhugamál hjá mér og ég vildi að ég gæfi mér meiri tíma í að koma efni frá mér en það er einmitt markmiðið á þessu ári.

  Hvað færðu þér í morgunmat?
  Ég fæ mér allt of sjaldan morgunmat.
  Hvað óttastu mest?
  Ég kýs að fara ekki of djúpt í þá hugsun og svara því bara: Köngulær. En að öllu gamni slepptu er maður þakklátur á meðan börnin manns eru hraust og heilbrigð; það hlýtur að vera helsti ótti foreldris að eitthvað komi fyrir afkvæmin.
  Býrðu yfir leyndum hæfileika?
  Eflaust, en þeir eru leyndir og því ómögulegt að vita.
  Hver er mesta áhætta sem þú hefur tekið?
  Ætli það sé ekki að standa í stúkunni á Anfield í Liverpool-treyju með Rashford #10 á bakinu. Ég hefði eflaust ekki átt að gera það …
  Hver væri titillinn á ævisögunni þinni?
  Agaleysi.
  Hver myndi leika þig í bíómyndinni?
  Ef ég fengi einhverju um það ráðið þá væri það Danny Devito.
  Hvaða þættir eru í uppáhaldi hjá þér þessa stundina?
  Ég er að horfa á nýjustu seríu South Park um þessar mundir. Ég fæ aldrei nóg af þeim þáttum.

  AUGLÝSING


  Mynd/Hákon Davíð Björnsson

  Hvað geturðu sjaldnast staðist?
  Allt fæðutengt sem mig langar í. Ég er asnalega agalaus þegar kemur að fæðu og neita mér aldrei um neitt. Það bjargar mér eflaust að ég elska sterkan, hollan thailenskan mat.
  Hvaða smáforrit er ómissandi?
  Spotify.
  Instagram eða Snapchat?
  Ætli Instagram sé ekki smám saman að taka yfir, annars nota ég hvorugt þessara forrita mikið. Ég er enn mest á Facebook, en var seinn þangað líka. Ég væri enn á Myspace ef það væri ekki svona asskoti einmanalegt.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is