2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Vampírufaraldur fer um heimsbyggðina

  Ekkert lát virðist ætla að verða á vinsældum blóðsuga.

  Drakúla greifa er ekkert lamb að leika sér við. Hvorki í skáldsögu Brams Stoker né kvikmynd Francis Ford Coppola (eins og sjá má hér að ofan).

  Alveg síðan Bram Stoker skrifaði söguna af Drakúla greifa hafa vampírur leitað á huga mannfólksins og vakið ótta og óhug. Að undanförnu virðist hins vegar hafa orðið töluverð breyting þar á því hver bókin, sjónvarpsþátturinn, kvikmyndin og nú síðast leikritið rekur annað þar sem vampírur eru hin bestu skinn og berjast gegn hinu illa við hlið mannfólksins.

  Fyrstu skref vampíranna í átt að ljósinu voru tekin í bók Anne Rice, Interview With the Vampire, sem seinna varð kvikmynd með Tom Cruise og Brad Pitt í aðalhlutverkum. Þar lýsir hún átökum plantekrueigandans Louis Pointe du Lac við samvisku sína eftir að hinn töfrandi Lestat hefur breytt honum í vampíru. Louis er ekki illskan uppmáluð. Hann er maður sem berst lengi við að standa gegn sterkum hvötum sem sigra hann að lokum. Lestat er að vissu leyti líkari gömlu ímyndinni af vampíru, þ.e. fullkomlega samviskulaus, en hann hefur marga áhugaverða og mannlega eiginleika eigi að síður. Interview With the Vampire kom út árið 1976 og myndin árið 1994.

  Þremur árum síðar fór í loftið unglingaþátturinn Buffy the Vampire Slayer sem sló í gegn langt út fyrir raðir þess aldurshóps sem hann var ætlaður. Buffy verður ástfangin af Angel, leiðtoga vampíranna sem hún berst gegn. Hann endurgeldur tilfinningar hennar og það veldur gífurlegri innri togstreitu þegar hinar nýju og góðu tilfinningar sem ástin kveikir fara að takast á við blóðþorstann og drápseðlið.

  AUGLÝSING


  Vampírur á vegi dyggðarinnar

  Næst litu dagsins ljós, eða kannski frekar kvöldsins skin, þættirnir Moonlight. Þar er á ferð einkaspæjarinn Mick St. John sem verður fyrir því óláni á sjötta áratug síðustu aldar að brúður hans bítur hann í hálsinn á brúðkaupsnóttina og gerir hann að vampíru. Mick er sannarlega ekki sáttur við örlög sín og í stað þess að drepa fólk og drekka úr því blóðið semur hann við vin sinn um að útvega sér blóð og geymir það síðan í læstum kæliskáp á heimili sínu. Líkt og aðrar vampírur fer hann á stjá á næturnar og berst þá gegn sínum líkum til verndar mönnunum. Hann er tengdur fréttakonunni Beth Turner á alveg sérstakan hátt og saman lenda þau í ýmsum ævintýrum.

  Aðalpersóna True Blood er barþjónninn Sookie Stackhouse sem les hugsanir.

  Þessi þáttur naut mikilla vinsælda og hið sama má segja um arftakann, True Blood. Hann gerist á óræðum stað í óljósri framtíð þar sem vampírur eru komnar upp úr líkkistunum og farnar að ganga meðal manna, taka þátt í stjórnmálum og fleira. Þær nærast á drykknum True Blood sem framleiddur er handa þeim og því stafar mönnum engin ógn af þeim lengur. Aðalpersóna þáttanna, leikin af Önnu Paquin, er barþjónninn Sookie Stackhouse sem les hugsanir. Líf hennar umsnýst þegar vampíran Bill Compton gengur inn á barinn þar sem hún vinnur og örlög þeirra taka að fléttast saman. Líkt og venjulega reynist aðdráttarafl vampírunnar ómótstæðilegt og konan stenst það ekki.

  Hið sama er uppi á teningnum í frægum bókum Stephanie Meyer, Twilight-seríunni eða Ljósaskiptunum. Bella Swan verður ástfangin af vampírunni Edward Cullen en hann bjargar henni úr höndum illrar vampíru sem flytur á yfirráðasvæði Cullen-fjölskyldunnar. Þau líkt og Mick og Beth þurfa að takast á við muninn á vampíru og manneskju, dauðlegri veru og ódauðlegri.

  Nokkrar kvikmyndir hafa verið gerðar eftir þessum vampírusögum sem njóta mikilla vinsælda. Twilight-serían hefur mikið verið gagnrýnd fyrir að gera ekki greinarmun á ofbeldi og ást. Vampíran Mick ræður ekki við styrk sinn og ástkona hans er blá og marin eftir ástarnótt með honum. Hið dularfulla tvíeðli hans gerir það einnig að verkum að hann er þunglyndur, sumir myndu segja mislyndur, og Beth veit oft ekki í hvorn fótinn hún á að stíga til að sýna honum þolinmæði og ástúð. Í Bandaríkjunum er núorðið mjög algengt að ofbeldi sé viðtekið í ástarsamböndum unglinga. Margir framhaldsskólar hafa brugðist við og reynt að fræða stúlkur um að ofbeldi og ást eigi enga samleið og vísa þeim á leiðir út úr samböndum þar sem þær eru kúgaðar og misnotaðar.

  Ekkert kynþokkafullt við blóðsugur

  En hvers vegna eru vampírur svo heillandi? Hvað gerir það að verkum að þær ganga aftur í bókmenntaverkum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum í svo fjölbreytilegum myndum?

  Til að byrja með hafa þær sigrað dauðann. Vissulega kostar sá sigur þá fórn að leggjast á annað fólk og drekka úr því lífsblóðið. Vampírurnar eru síungar, flottar í tauinu, óttalausar, ofurmannlega sterkar, gáfaðar, ekki háðar áliti annarra eða bundnar eigum sínum. Frelsið er

  Interview With the Vampire, sem seinna varð kvikmynd með Tom Cruise og Brad Pitt í aðalhlutverkum.

  þeim mikilvægt og þær eru einfarar og virðast ekki finna jafnsárt fyrir einmanaleikanum og við hin þótt það sé vissulega breytilegt eftir bókum. Að þessu sögðu má benda á að þær eru einnig viðkvæmar, virðast auðveldlega móðgast eða fara í fýlu sé þeim ekki sinnt eða þeim hafnað, ef marka má bækur Anne Rice og Stephanie Meyer.

  Þær eru auðvitað einnig hin þekkta erkitýpa, slæmi strákurinn sem dregur stúlkuna niður í hyldýpið vegna ástar sinnar á honum og sannasta ímynd femme fatale sem hugsast getur. Hún tælir ekki bara og ýtir manni sínum út í hin verstu illvirki hún bítur á barkann og drekkur úr honum allt blóð.

  Það er því ljóst að vampírur ganga aftur ljósum logum í ýmsum listaverkum og verða líklega eilífar þar. Vissulega er misjafn sauður í mörgu fé meðal þeirra en þetta mikla úrval bendir til að allir geti fundið sér vampíru við hæfi.

  Texti / Steingerður Steinarsdóttir

  Lestu meira

  Engar færslur fundust.

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is