Vandamálið rakið upp

Deila

- Auglýsing -

Lífið er alls konar. Leiðin getur verið greið og hún getur verið torfær. Spurningin er hvernig við tökum á málunum.

 

Ætlum við að loka augunum fyrir vandanum sem við stöndum frammi fyrir, sem jafnvel veldur okkur heilmiklum kvíða þótt við reynum að útiloka hann, eða ætlum við að horfast í augu við hann og reyna að leysa úr flækjunni?

Þegar við stöndum frammi fyrir vandamáli, einhverju sem við kvíðum að takast á við, er ósköp freistandi að loka augunum og taka afneitunina á málið. Oliver Burkeman er höfundur bókarinnar The Antidote: Happiness For People Who Can´t Stand Positive Thinking sem gæti útlagst á íslensku sem Móteitrið: Hamingja fyrir þá sem þola ekki jákvæða hugsun. Í bók sinni segir Burkeman meðal annars að í stað þess að láta eins og ekkert bjáti á og útiloka erfiðleikana eigi maður frekar að skoða þá í nærmynd og jafnvel hugsa hlýlega til þeirra. Hann segir þrennt mikilvægt þegar tekist er á við erfiðleika.

Fyrsta skrefið

Segir Burkeman að sé að finna hugrekki til að horfast í augu við raunveruleikann. Margt af því sem við tengjum við þjáningar í kjölfar áfalls sprettur ekki út frá vandamálinu sjálfu, heldur frá þeirri þrá okkar að sannfæra okkur um að vandamálið sé ekki til staðar. Hann nefnir til dæmis að manneskja sem sé óhamingjusöm í hjónabandi geti átt erfitt með að viðurkenna það því það kalli á aðgerðir sem geti haft alls konar erfiðar tilfinningar og háttalag í för með sér, hvort sem ætlunin er að bjarga hjónabandinu eða ljúka því. Og sjálfsagt kannast flestir við að sleppa því að skoða stöðuna í heimabankanum þar sem manni getur þótt skárra að vera í afneitun og láta sem yfirdráttarheimildin sé ekki alveg í botni. En Burkeman segir að þetta sé falskt öryggi. Hann hvetur fólk til að setja undir sig hausinn og horfast í augu við staðreyndir. Þá sé hægt að fara í uppbyggjandi aðgerðir.

Skref tvö

Segir hann að sé að skoða vandamálið gaumgæfilega. Þér finnist málið kannski einfalt; þú sért niðurdregin/n og langi að líða betur. Bukeman segir að sálmeðferðarfræðingurinn James Hollis hafi bent á að mál eins og hugarangur og kvíði séu stundum skilaboð frá undirmeðvitundinni. Hún gæti verið að reyna að segja þér hverju þurfi að breyta í lífi þínu. Þú haldir ef til vill að ástæðan fyrir vanlíðaninni sé að enginn kunni að meta þig. En Burkeman hvetur þig til að spyrja þig fimm spurninga sem hefjist allar á af hverju? Af hverju er ég alltaf pirruð? Af því að mér finnst enginn kunna að meta mig. Af hverju finnst mér enginn kunna að meta mig? Eftir að hafa spurt þig af hverju? fimm sinnum gæti verið orðið ljóst af hverju vanlíðanin stafi í raun.

Skref þrjú

Burkeman segir að skref þrjú að sé að átta sig á því að vandamál verði alltaf til staðar, eins niðurdrepandi og það geti hljómað. Vonandi muni þau stærstu þó hverfa en lífinu fylgi alls konar vandamál og vangaveltur. Við getum staðið frammi fyrir því að langa til að skipta um starfsvettvang, glíma við vanda í fjölskyldunni eða óttast það að eldast. Hann segir að með því að reyna að afneita því að upp geti komið vandamál af og til séum við að gera illt verra. Og það sé hvorki gaman né innihaldsríkt að fara áreynslulaust í gegnum lífið án nokkurra vandkvæða.

- Advertisement -

Athugasemdir