2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Veðrið er alltaf skárra en þú heldur“

  Edda Björk Skúladóttir var nýbúin að kyngja síðasta bitanum af föstudagspítsunni fyrir um tíu árum síðan þegar eiginmaður hennar stakk upp á því að þau færu út að hlaupa. Hún segist strax hafa heillast af náttúruupplifuninni á hlaupunum og þau séu frábær leið til að kanna umhverfið og skoða hús og garða. Edda er nú búsett í Brussel og fær jafnvel gesti frá Íslandi til að reima á sig skóna og skella sér með í hlaupatúr.

  Edda Björk eftir Belfíus-hálfmaraþon í Brussel árið 2017.

  Edda hefur verið búsett ásamt eiginmanni sínum og börnum í Brussel í tæp tvö ár. Þetta er í annað sinn sem fjölskyldan er búsett þar en í fyrra skiptið bjó hún í borginni í rúm fjögur ár. „Við fluttum hingað vegna vinnu mannsins míns en við tókum sameiginlega ákvörðun um að breyta til og flytja út. Í gegnum tíðina höfum við flutt milli landa vegna vinnu og náms og líkað tilbreytingin vel. Það er góð lífsreynsla að takast á við breytingar og læra ný tungumál. Nú er sonur okkar fluttur að heiman og stundar nám í Svíþjóð en systur hans tvær eru í enskumælandi skóla hér í Brussel.“

  Hún segir að þeim líki vel lífið í Brussel. „Það er reyndar sama hvar maður býr; það er undir manni sjálfum komið að skapa það líf sem maður vill, með þær forsendur sem eru til staðar. Mér finnst mjög mikilvægt að vera virk og gera hluti sem leiða til vellíðunar og gleðja. Það byggist mikið til á samskiptum við fólkið í kringum mig og hvaða áhugaverðu tækifæri ég sé í umhverfinu. Ég hef notað tækifærið til að rækta áhugamál eins og að mála, fara á námskeið og auðvitað sinna fjölskyldunni.“

  Hélt hún kæmist ekki aftur heim
  Edda segist fyrst hafa farið að hlaupa fyrir um tíu árum síðan og hún segir að það hafi verið mjög erfitt í byrjun. „Þá bjuggum við í Setberginu í Hafnarfirði. Ég var nýbúin að kyngja síðasta bitanum af föstudagspítsunni þegar maðurinn minn stakk upp á að við tækjum hlaupatúr út í Sörla. Það var virkilega erfitt og ég hélt að ég myndi ekki komast heim aftur,“ segir Edda og hlær. „Við hjónin höfum í gegnum tíðina alltaf verið dugleg að ganga en þetta var fyrsta alvöruhlaupið.“ Edda segist strax hafa fallið fyrir náttúruupplifuninni á hlaupunum og það hafi verið magnað að sjá fjöllin, hraunið, mosa, lyng, steina, tré og blóm og anda að sér fersku lofti.

  AUGLÝSING


  Aðspurð hvort hún hafi farið á hlaupanámskeið eða í hlaupahóp, eins og svo margir gera, svarar Edda að það hafi liðið nokkuð mörg ár áður en hún hafi farið á námskeið. „Fyrstu árin hljóp ég með manninum mínum eða ein. Ég fann strax hvað hlaupin áttu vel við mig þar sem ég er ekki mikið fyrir að vera inni í líkamsræktarsal. Mér finnst frábært að vera úti í náttúrunni og hlaupin eru leið til að vera úti og njóta umhverfisins. Nokkrar vinkonur mínar sem eru með mér í iðjuþjálfasaumaklúbbnum drógu mig svo á námskeið í Náttúruhlaupum – Arctic Running. Þar eru allir þjálfarar fagmenn og skipulag á hlaupaleiðum alveg dásamlegt. Námskeiðið tók hlaupin á annað stig. Mikil áhersla var lögð á náttúruupplifun og að njóta og ég naut þess mjög að kynnast grænum svæðum í og kringum Reykjavík. Ég var síðan meira og minna bara í áskrift í Náttúruhlaupum þar til ég flutti til Brussel.“

  „Sjálf geng ég oft inn á milli þegar ég fer út að hlaupa en það gerir hlaupin ánægjulegri og maður kemst mun lengra. Það er góð leið til að ná árangri og líða vel allan tímann.“

  Edda segir það hafa tekið sig nokkuð langan tíma að komast í ágætishlaupaform, en hún hafi ekki verið að stressa sig á því heldur hafi hún verið ákveðin í að skokka bara til að byrja með og njóta þess að hreyfa sig. „Fyrstu tvö árin fór ég ekki mikið yfir fimm kílómetra í einu. Kannski hefði það verið öðruvísi ef ég hefði verið með þjálfara og einhver stærri markmið. Það breyttist svo þegar ég fór á námskeið og fór að geta hlaupið lengri vegalengdir. Ég velti samt ekki mikið fyrir mér vegalengdum og stefni ekki að því að fara heilt maraþon. Ég get þó alveg hugsað mér að fara Laugaveginn þar sem ég ímynda mér að það sé svo mikil náttúruupplifun en þá vil ég vera með þjálfara eða í hlaupahóp sem hefur það að markmiði að fara Laugaveginn.“

  Gestirnir fara með út að hlaupa

  Edda Björk ásamt vinkonu sinni, Huldu Þóreyju, sem fékk hana af stað í Náttúruhlaup.

  Edda er ekki sú eina í fjölskyldunni sem hleypur og segist þakklát fyrir það að eiga marga í kringum sig sem eru til í að hlaupa. „Það var auðvitað maðurinn minn sem dró mig fyrst út að hlaupa og fékk mig til að trúa því að ég gæti það en nú hefur það kannski aðeins snúist við og ég er oftar að draga hann með mér út. Sonur okkar, Emil, hefur eitthvað verið að hlaupa og kærastan hans, Una. Margir úr fjölskyldunni hafa líka farið að hlaupa; bæði systkini mín, mágar, mágkonur og svilkonur og margir vinir okkar. Það er mjög skemmtilegt þegar fólk heimsækir okkur til Brussel þá fer það oft með út að hlaupa. Fyrir ári síðan kom stór vinahópur hingað til okkar og þá fóru langflestir með í gott skógarhlaup. Það var mjög skemmtilegt. Þegar ég er á Íslandi næ ég líka oft að skella mér í Heiðmörk með fjölskyldumeðlimum eða góðum vinum.“

  Edda tók fyrst þátt í tíu kílómetra Reykjavíkurmaraþoni árið 2011 og hefur tekið þátt nokkrum sinnum síðan. Hún segir mikla stemningu í kringum það að taka þátt í hlaupaviðburðum og að sér finnist félagslegi þátturinn og stemningin vera aðalatriðið. „Ég er minna að spá í keppni; það er bara svo gaman að vera með öðru fólki að hlaupa. Ég hef tekið þátt í hálfmaraþoni hér í Brussel sem var skemmtilegt borgarhlaup sem gekk vel. Svo er líka hlaup sem heitir Brussels 20 km sem ég hef tekið þátt í og er mjög skemmtilegt en það er ekki beint keppnishlaup þar sem það nær ekki að vera hálfmaraþon. Það er næsta hlaup á dagskránni og verður haldið 19. maí næstkomandi. Það hlaup endar á tveggja kílómetra brekku, sem er dálítil áskorun.“

  Frábær leið til að kanna umhverfið
  Edda segir að það sem heilli hana mest við hlaupin sé útiveran og félagsskapurinn. „Ég hef mjög gaman af því að skoða fallegar byggingar og hlaup eru frábær leið til að kanna umhverfið og skoða hús og garða. Skemmtilegast er að hlaupa í náttúruumhverfi og í Reykjavík er Heiðmörk klárlega í uppáhaldi en hér í Brussel er skógur allt í kring sem er alveg dásamlegt. Skógurinn er síbreytilegur; ljósgrænn á vorin, dökkgrænn á sumrin, haustin eru yndislega marglit og síðan er veturinn allt öðruvísi. Svo er ótrúlega gaman að hlaupa í borgum því þá kemst maður yfir miklu stærra svæði og nær að skoða hús og grasagarða. Þannig að upplifunin í sjálfu hlaupinu heillar mig og síðan vellíðanin sem fylgir á eftir. Ég byrja oft daginn hér í Brussel með því að hlaupa í skóginum í góðum félagsskap. Þá getur dagurinn ekki verið annað en góður.“

  Edda segist aðspurð ekki hafa tónlist eða neitt þvíumlíkt í eyrunum þegar hún hleypur með öðru fólki. „Þá er bara verið að spjalla og vera í núvitund. Ef ég fer ein að hlaupa þá hlusta ég mest á gospeltónlist sem mér finnst svo hressandi fyrir líkama og sál. Þegar ég er ein þarf ég tónlistina til að halda dampi en mér finnst alltaf skemmtilegra að hlaupa með einhverjum öðrum.“

  Edda Björk í náttúruhlaupi í Elliðaárdal.

  Hún segir að allir sem geti fært annan fótinn fyrir framan hinn geti hlaupið. „Kannski mishratt en hlaupið samt. Sjálf geng ég oft inn á milli þegar ég fer út að hlaupa en það gerir hlaupin ánægjulegri og maður kemst mun lengra. Það er góð leið til að ná árangri og líða vel allan tímann. Það að sprengja sig algjörlega getur bara dregið úr ánægjunni og áhuganum. Ég finn að ég græði á því að ganga inn á milli og næ jafnvel betri tíma þá en þegar ég hleyp allan tímann.“ Hún segir að þeir sem eru að byrja að hlaupa ættu ekki að láta veðrið stoppa sig. „Veðrið er alltaf skárra en þú heldur áður en þú ferð út og skiptir ekki öllu máli þegar maður er kominn í gang. Góðir skór og þægileg föt skipta miklu máli. Mér finnst best að vera pínulítið kalt þegar ég byrja og líða síðan vel þegar ég er komin í gang. Sumir sem ég hleyp með eru allt of vel búnir að mínu mati en þetta er svo einstaklingsbundið. Á Íslandi er gott að vera með hlýja flík til að skella sér í að hlaupi loknu því oft kólnar manni fljótt eftir hlaupið. Svo er mikill kostur að hafa hlaupafélaga eða vera í hlaupahópi eða á hlaupanámskeiði. Þegar ég flutti til Brussel leitaði ég logandi ljósi að hlaupafélögum og var svo lánsöm að finna hóp sem er að hlaupa í skóginum Forêt de Soignes sem er hér allt í kring og með endalausum, skemmtilegum hlaupaleiðum.“

  „Mér finnst frábært að vera úti í náttúrunni og hlaupin eru leið til að vera úti og njóta umhverfisins.“

  Að lokum spyr blaðamaður hvort það sé ekki mikilvægt að huga að næringunni þegar maður stundar hlaup og Edda segir að vissulega sé holl og góð næring öllum mikilvæg. „Við þurfum öll að borða fjölbreytta og næringarríka fæðu. Ég borða öllu jafna hollan mat og hef ekki breytt miklu í mataræði kringum hreyfingu. Ég er almennt lítið fyrir öfgar í hvaða veru sem þær eru. Við erum ólík og misjafnt hvað hentar hverjum og einum.

  Umsjón / Guðrún Óla Jónsdóttir
  Aðalmynd / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is